Hjálpaðu fjölskyldum að eignast örugga framtíð
1 „Ágirnd er heilbrigð,“ sagði fjármálamaður við nemendahóp sem var að útskrifast úr háskóla, og bætti við að ‚maður geti verið ágjarn og samt haft sjálfsvirðingu.‘ Þetta er dæmigert fyrir það hvernig heimurinn kemur þeirri hugmynd á framfæri að eigingirni sé besta leiðin til að tryggja framtíð sína. Jesús var á allt annarri skoðun því að hann kenndi að kristinn maður yrði að ‚afneita sjálfum sér.‘ Svo bætti hann við: „Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og fyrirgjöra sálu sinni?“ (Matt. 16:24-26) Til að tryggja sér varanlega framtíð er nauðsynlegt að láta allt líf sitt beinast að því að gera vilja Guðs — sem er þýðingarmesta markmið nútímafjölskyldna. (Sálm. 143:10; 1. Tím. 4:8) Þessi boðskapur kemur skýrt fram í síðustu tveim köflum bókarinnar Spurningar unga fólksins — svör sem duga. Þessi bók bendir unga fólkinu á hvað skipti raunverulega máli í lífinu og hvernig það geti lagt sig fram um að tryggja sér góða framtíð. Bókin er líka afbragðshjálp handa uppalendum við að leiðbeina unga fólkinu á hinum erfiðu unglingsárum. Hvað getum við sagt til að hvetja þá sem við hittum til að lesa Spurningar unga fólksins? Hér koma nokkrar tillögur:
2 Þú gætir notað smáritið „Farsælt fjölskyldulíf“ til að hefja samræður, bæði við dyrnar og á götum úti. Þú gætir spurt:
◼ „Heldurðu að það sé hægt fyrir fjölskyldur að vera hamingjusamar með allar þær áhyggjur sem heimurinn leggur okkur á herðar? [Gefðu kost á svari.] Þetta smárit fullvissar okkur um að það sé hægt. Ég er viss um að þú hefðir gaman af að lesa það.“ Ef viðmælandi þinn þiggur smáritið gætirðu haldið áfram: „Þar eð þú hefur áhuga á þessu málefni hefðirðu kannski gagn af þessari bók sem er samin til að svara mörgum spurningum sem leita á unglinga og foreldra.“ Sýndu efnisyfirlit bókarinnar Spurningar unga fólksins, bentu á aðalfyrirsögn fyrsta hlutans og nokkur af kaflaheitunum. Flettu síðan upp á blaðsíðu 10 og lestu textann. Bjóddu bókina og nefndu framlagafyrirkomulagið. Segðu að þú viljir koma ýmsu fleiru á framfæri og spyrðu hvenær þú megir hafa samband aftur.
3 Þú gætir fylgt eftir fyrstu umræðum um farsælt fjölskydulíf með því að segja:
◼ „Mig langar til að benda á svolítið í bókinni, sem þú fékkst, sem ég held að þér þyki áhugavert. Síðasti hluti bókarinnar fjallar um það hvernig allir, bæði unga fólkið og aðrir, geti tryggt sér farsæla framtíð. [Lestu úrdrátt úr textanum á blaðsíðu 304. Flettu síðan aftur á blaðsíðu 311 og lestu þriðju greinina.] Við hvetjum fjölskyldur til þess að lesa Biblíuna saman til að kynnast því hver sé vilji Guðs og hvernig hægt sé að lifa eftir honum á heimilinu. Við bjóðum fólki ókeypis biblíunámskeið sem hægt er að ljúka á fáeinum mánuðum. Mætti ég sýna þér hvernig það fer fram?“ Dragðu fram Þekkingarbókina og sýndu námsaðferðina.
4 Þegar þú talar við bekkjarfélaga í skólanum eða unglinga á starfssvæðinu gæti eftirfarandi reynst gott umræðuefni:
◼ „Þú hefur ábyggilega fundið fyrir því hve erfitt það getur verið að standa á móti hópþrýstingi. Hefurðu einhvern tíma velt fyrir þér hvers vegna það er svona erfitt? [Gefðu kost á svari.] Sjáðu hvað bent er á í þessari handbók sem ég er með. [Lestu grein þrjú á blaðsíðu 73] Hvað heldurðu að unglingur geti gert til að standa gegn þessum þrýstingi? [Gefðu kost á svari.] Taktu eftir því sem bókin bendir á. [Lestu grein tvö og þrjú á blaðsíðu 78.] Í framhaldinu eru síðan frekari ábendingar um hvað hægt sé að gera. Bókin heitir Spurningar unga fólksins — svör sem duga. Þú mátt eiga hana ef þig langar til að lesa hana.“ Nefndu að þú komir síðar til að heyra hvað honum finnist um efnið.
5 Þú gætir byggt á fyrra samtali þínu við ungling með því að segja:
◼ „Við ræddum um það um daginn hvað hægt væri að gera til að standast hópþrýsting sem unga fólkið verður fyrir frá jafnöldrum sínum. Heldurðu að ráðleggingar bókarinnar dugi til að standast slíkan þrýsting? [Gefðu kost á svari.] Mig langar til að benda þér á kafla síðar í bókinni sem fjallar um fíkniefni, en það er einmitt hópþrýstingur sem kemur mörgum til að prófa fíkniefni í fyrsta sinn.“ Flettu upp á blaðsíðu 278-9 og lestu greinarnar undir millifyrirsögninni „Hópþrýstingur.“ Ef tilefni gefst gætirðu síðan lesið fyrri hluta annarrar greinarinnar á blaðsíðu 281. Bentu svo á að vikulegt biblíunámskeið sé afbragðsgóð leið til að byggja upp það siðferðisþrek sem þarf til að standast hópþrýsting. Sýndu Þekkingarbókina, kynntu námsaðferðina og leggðu drög að næstu heimsókn.
6 Ef þú hittir foreldri í starfinu hús úr húsi, eða kannski í götustarfinu, gætirðu vakið áhuga með því að segja:
◼ „Margir hafa áhyggjur af vaxandi áfengisnotkun og fíkniefnaneyslu unglinga. Áfengi, hass, amfetamín og önnur vímuefni eru orðin jafnsjálfsögð í lífi unglinganna og rokktónlist. Hvað heldurðu að sé til ráða til að stemma stigu við þessari alvarlegu þróun í samfélaginu? [Gefðu kost á svari.] Í bók, sem heitir Spurningar unga fólksins — svör sem duga, er fjallað sérstaklega um þetta vandamál. [Flettu upp á blaðsíðu 272 og sýndu kaflaheitið.] Í þessum kafla koma fram ýmsar ábendingar um það hvers vegna unglingar byrja oft að neyta fíkniefna og um áhrif þeirra á huga og líkama. En þar eru líka góð ráð handa bæði unglingum og uppalendum um það hvernig hægt sé að segja nei.“ Lestu þriðju greinina á blaðsíðu 280 og fyrstu greinina á blaðsíðu 281. Bjóddu síðan bókina, nefndu framlagafyrirkomulagið og láttu vita að þú sért reiðubúinn að svara spurningum sem tengjast efninu.
7 Í annarri heimsókn til foreldris, sem þáði bókina „Spurningar unga fólksins,“ gætirðu tekið upp þráðinn með þessum hætti:
◼ „Þegar ég kom til þín síðast ræddum við um fíkniefnavandann og hvað hægt væri að gera til að vernda börnin okkar gegn þessu miklu böli. Mig langar til að benda þér á mjög þýðingarmikið atriði í baráttunni gegn fíkniefnum. [Lestu Prédikarann 12:1.] Í síðasta kafla bókarinnar, sem ég skildi eftir hjá þér um daginn, er fjallað nánar um það hvernig unglingar geti byggt upp náið samband við skapara sinn sem er einhver besta vörnin gegn fíkniefnum. En til að byggja upp samband við Guð þurfum við að kynnast honum eins og hann opinberar sig í Biblíunni. Mætti ég sýna þér hvernig fjölskyldan getur kynnst Guði með markvissu biblíunámi?“
8 Veraldlegir ráðgjafar geta ekki vísað fjölskyldum á leiðina til lífshamingju, heldur eru ráðleggingar þeirra öruggur vegvísir á vonbrigði. Við skulum dreifa bókinni Spurningar unga fólksins sem víðast þannig að fólk geti alls staðar lært að nota orð Guðs til að tryggja sér varanlega framtíð. — 1. Tím. 6:19.