Hjálpum öðrum að meta skaparann
1 Hvers vegna hefur þróunarkenningin náð svona gífurlegri útbreiðslu? Hvers vegna halda menn áfram að trúa að lífið hafi orðið til fyrir tilviljun þó að sýnt hafi verið fram á að líkurnar á því séu sama og engar? Bókin, Lífið — varð það til við þróun eða sköpun? sem við leggjum áherslu á að dreifa í september, svarar þessum spurningum. Þar segir að ein „meginorsök fyrir því að margir hafa horfið frá trú á Guð og snúist á sveif með þróunarkenningunni“ sé „sú þjáning og það böl sem finna má alls staðar í heiminum.“ Með þessa staðreynd í huga skaltu eiga frumkvæðið að því að færa í tal við fólk hvers vegna Guð leyfir þjáningar. Vertu vingjarnlegur, jákvæður og vakandi fyrir viðbrögðum fólks. Hvað gætir þú sagt?
2 Þú gætir byrjað með því að koma með spurningu eins og:
◼ „Mjög algengt er að fólk aðhyllist frekar þróunarkenninguna en að trúa því að Guð hafi skapað lífið á jörðinni. Bækur og tímarit, kvikmyndir og sjónvarpsþættir fjalla iðulega um þróunarkenninguna eins og fullsannaða staðreynd. Heldur þú að þjáningarnar og bölið, sem finna má um allan heim, eigi kannski stóran þátt í því að fólk afneiti tilvist Guðs og skapara? [Gefðu kost á svari.] Mörgum finnst að þjáningarnar í heiminum afsanni tilvist Guðs af því að væri hann til léti hann þær aldrei viðgangast. En ætli kærleiksríkur Guð gæti haft ástæðu til að leyfa allt það böl sem mannkynssagan er full af?“ Gefðu kost á svari, sýndu Sköpunarbókina og notaðu efnið í 1. grein 16. kaflans til að bjóða bókina.
3 Í endurheimsókninni gætir þú reynt að hefja biblíunám með því að segja:
◼ „Við töluðum síðast um það hvers vegna þjáningarnar í heiminum útiloka ekki tilvist skapara. En hafi Guð skapað manninn má búast við að hann geri einhverjar kröfur til hans. Ég tók með mér nokkuð sem ég held að þú hefðir ánægju af. [Sýndu Kröfubæklinginn og lestu spurningarnar sex á blaðsíðu 10.] Guð skapaði manninn ekki til að þjást heldur til að njóta lífsins í yndislegu umhverfi. Ef þú hefur smástund langar mig til að sýna þér hvernig þú getur notfært þér þennan bækling.“ Byrjaðu nám í 5. kafla.
4 Önnur leið til að hefja samræður er að nefna eitthvert vandamál, til dæmis:
◼ „Þó að ætla mætti að trúarleiðtogar kristna heimsins styðji skýringar Biblíunnar á uppruna lífsins er reyndin oft önnur. En hvernig er hægt að afneita sköpunarsögu Biblíunnar en telja sig samt kristinn? [Gefðu kost á svari.] Páll postuli og Jesús vitnuðu báðir í sköpunarsöguna. [Lestu 1. Korintubréf 15:45 og Matteus 19:4, 5.] Náttúruvísindin stangast ekki á við sköpunarsöguna. Þessi bók [sýndu Sköpunarbókina] sýnir fram á það.“ Sýndu efnisyfirlitið og bjóddu bókina.
5 Þegar þú kemur aftur skaltu nota „Kröfubæklinginn“ til að stofna nám. Þú gætir sagt:
◼ „Það vakti athygli mína hve fljótur þú varst að átta þig á að það samræmist ekki kristinni trú að hafna skýringu Biblíunnar á uppruna lífsins. Biblían hefur reynst trúverðug og leiðbeiningar hennar þær bestu sem menn geta fengið. Á því er einföld skýring.“ Lestu fyrstu greinina á blaðsíðu 3 í bæklingnum og að því búnu annaðhvort Sálm 1:1-3 eða Jesaja 48:17, 18. Ef aðstæður leyfa skaltu fara yfir það sem eftir er kaflans. Þú skalt bjóðast til að koma aftur og fara yfir næsta kafla á svipaðan hátt.
6 Um ritin okkar: Hikar þú stundum við að bjóða fólki blöðin, bæklinga eða bækur vitandi að öll ritin eru verðmæt og að útgáfa þeirra kostar fjármuni? Hvernig getum við verið viss um að við séum ekki að gefa ritin fólki sem kann ekki að meta þau? Ein leiðin er að spyrja viðmælanda okkar hvort hann lofi að lesa það sem við erum að bjóða honum.
7 Þegar þú býður til dæmis „Sköpunarbókina“ gætir þú sagt:
◼„Ef þú lofar að lesa þessa bók færðu hana ókeypis. [Gefðu kost á svari.] Þú veltir kannski fyrir þér hvernig við höfum efni á því. Það er vegna þess að starf okkar er fjármagnað með frjálsum framlögum. Ef þú kærir þig um að leggja eitthvað smávegis af mörkum til starfs okkar þigg ég það með ánægju.“ Þessi aðferð bar lítinn árangur hjá bróður uns hann gerði á henni tvær breytingar. Fyrst bætti hann við orði og sagði: „Ef þú kærir þig um að leggja núna eitthvað smávegis af mörkum til starfs okkar þigg ég það með ánægju.“ Síðan beið hann nógu lengi til að gefa húsráðandanum tækifæri til að bregðast við þessum orðum. Honum fannst hann þá vissari um að ritin yrðu metin og lesin.
8 Gerum allt sem við getum til að hjálpa fólki að meta skapara lífsins að verðleikum og fylgja þeim leiðbeiningum sem hann setur fram í orði sínu. — Sálm. 19:8-11.