Foreldrar — kennið börnum ykkar að prédika
1 Söfnuðir okkar njóta þeirrar blessunar að þar er að finna mörg börn sem langar í einlægni til að þjóna Guði. (Préd. 12:1) Þau teljast með því fólki sem Jehóva býður að eiga þátt í að lofa sig. (Sálm. 148:12-14) Sú fræðsla og þjálfun, sem foreldrar veita börnum sínum frá degi til dags, ætti þess vegna að fela í sér leiðbeiningar um hvernig þau eigi að segja öðrum frá trú sinni þegar þau eru að prédika Guðsríki. — 5. Mós. 6:6, 7.
2 Kennið börnunum stig af stigi: Börn verðskulda að fá þjálfun á mjög ungum aldri í því að fara með foreldrum sínum út í boðunarstarfið. Áður en farið er út í starfið skuluð þið búa börnin ykkar undir að taka marktækan þátt í því. Ákveðið fyrirfram hvað það er sem þið ætlist til að þau geri. Mjög ung börn geta rétt fólki smárit og boðsmiða og boðið því að koma í ríkissalinn. Börnum, sem lesa vel, má bjóða að lesa ritningarstaði meðan á samtalinu við húsráðandann stendur. Þau geta boðið blöðin og notað til þess stutt kynningarorð. Þegar reynsla þeirra eykst ættuð þið að kenna þeim að nota Biblíuna í kynningarorðunum. Margir ungir boðberar hafa komið upp sinni eigin blaðaleið og fara reglulega í endurheimsóknir. Best er fyrir barn að starfa með fullorðnum boðbera frekar en öðru barni eða unglingi. Fullorðni boðberinn getur útskýrt fyrir húsráðandanum að verið sé að þjálfa barnið í boðunarstarfinu.
3 Lítil stúlka bað öldungana um að hjálpa sér til þess að hún gæti orðið hæf sem boðberi Guðsríkis. Þótt hún hafi þá verið aðeins fimm ára gömul og ekki kunnað að lesa gat hún kynnt boðskapinn um Guðsríki á áhrifaríkan hátt hús úr húsi. Hún lagði á minnið hvar ritningarstaðirnir voru, fletti upp á þeim og bað húsráðandann að lesa þá. Að því búnu útskýrði hún þá.
4 Börn ættu einnig að læra af fordæmi foreldra sinna gildi þess að hafa góða tímaáætlun og skipulag á því að fara reglulega út í boðunarstarfið. Foreldrar þurfa að gera sér að venju að fara í starfið í hverri viku og halda sér við tímaáætlun sína til þess að börnin viti hvaða tími vikunnar er alltaf frátekinn til boðunarstarfsins.
5 Þegar börnunum er kennt frá ungum aldri að elska boðunarstarfið og hafa ánægju af því verður það þeim hvatning til að sækjast eftir auknum sérréttindum í framtíðinni, brautryðjandastarfinu ef til vill þar með töldu. (1. Kor. 15:58) Við ættum öll að hvetja börnin okkar á meðal til að taka góðum framförum í því að lofa Jehóva.