Kenndu börnunum þínum að lofa Jehóva
1. Geta börn lofað Jehóva?
1 Í Sálmi 148:12, 13 eru bæði drengir og stúlkur hvött til að lofa nafn Jehóva. Biblían inniheldur fjölda dæma um börn sem lofuðu Guð. Samúel er dæmi um það en hann „gegndi þjónustu frammi fyrir Drottni sem ungur sveinn“. (1. Sam. 2:18) Það var ‚ung stúlka‘ sem sagði eiginkonu Naamans að spámaður Jehóva í Ísrael gæti losað Naaman við líkþrána. (2. Kon. 5:1-3) Þegar Jesús gekk inn í helgidóminn og framkvæmdi mikil verk voru það „börnin“ sem hrópuðu: „Hósanna syni Davíðs!“ (Matt. 21:15) Hvernig geta foreldrar kennt börnunum sínum að lofa Jehóva?
2. Hvers vegna er mikilvægt að foreldrar setji börnum sínum gott fordæmi?
2 Dæmi: Feðrum í Ísrael var kennt að þeir ættu að elska Jehóva sjálfir og hafa boð hans hugföst áður en þeir færu að kenna börnunum að tileinka sér sannleikann. (5. Mós. 6:5-9) Ef þú talar vel um boðunarstarfið og hefur það vikulega á dagskrá, mun börnunum þínum líka finnast boðunarstarfið mikilvægt og ánægjulegt.
3. Hvernig hafði fordæmi foreldranna góð áhrif á systurina sem nefnd er í greininni?
3 Systir nokkur rifjar eftirfarandi upp með hlýhug: „Þegar ég var lítil var boðunarstarfið fastur líður hjá fjölskyldunni um hverja helgi. Ég sá að foreldrum mínum fannst gaman að boða fagnaðarerindið. Við systkinin ólumst upp við að það væri ánægjulegt að fara í boðunarstarfið.“ Þessi trúsystir okkar gerðist óskírður boðberi sjö ára gömul og hefur nú starfað í 33 ár sem boðberi í fullu starfi.
4. Hvað felst í því að kenna börnunum smám saman?
4 Kennum börnunum smám saman: Látið börnin taka þátt í boðunarstarfinu með ykkur. Þau gætu til dæmis hringt á dyrabjöllunni, afhent húsráðanda smárit eða lesið ritningarstað. Þá hafa þau gaman af starfinu og fá aukið sjálfstraust til að boða fagnaðarerindið. Eftir því sem þau eldast geta þau smám saman gert meira í boðunarstarfinu. Þess vegna skaltu hjálpa þeim að taka framförum og hvetja þau til að velta andlegum markmiðum fyrir sér.
5. Hvaða kröfur þarf barn að uppfylla til að geta gerst óskírður boðberi?
5 Talaðu við öldungana um leið og þér finnst börnin þín uppfylla kröfurnar til óskírðra boðbera og þegar þau sýna sjálf áhuga á að verða boðberar. Ef þau eru boðberar gera þau sér betur grein fyrir því að þau þurfa að axla ábyrgð sína og lofa Jehóva sjálf. Hafðu hugfast að börn þurfa ekki að vita eins mikið og skírt fullorðið fólk til að geta gerst óskírðir boðberar. Skilur barnið grundvallarkenningar Biblíunnar? Fer það eftir siðferðiskröfum hennar? Langar það til að taka þátt í boðunarstarfinu og láta aðra vita að það sé vottur Jehóva? Ef svo er geta öldungar gegnið úr skugga um að barnið geti gerst óskírður boðberi. — Sjá Organized to Do Jehovah’s Will, bls. 79-82.
6. Hvers vegna er það ómaksins vert fyrir foreldra að kenna börnunum sínum?
6 Það er mikil vinna að kenna börnum að lofa Jehóva af heilum hug. Hins vegar er fátt sem jafnast á við gleðina sem það veitir foreldrum að sjá börnin sín taka framförum í trúnni. Og það sem er meira um vert, Jehóva gleðst þegar börn segja frá dásamlegum verkum hans.