Verður ágúst framúrskarandi mánuður?
1 Árið 1963 var framúrskarandi ár fyrir fólk Jehóva. Veistu af hverju? Það var þá sem boðberafjöldinn um allan heim náði milljón. Hafir þú verið í sannleikanum á þeim tíma manstu kannski hve spennt við vorum yfir því að svona margir prédikuðu boðskapinn um Guðsríki! Síðast náðum við nýju boðberameti á Íslandi í ágúst 1997 þegar 324 tóku þátt í boðunarstarfinu. Meðaltal boðbera á þjónustuárinu 1997 var aftur á móti 314 sem sýnir að þó nokkrir voru óreglulegir í boðunarstarfinu.
2 Taktu áskoruninni: Í ágúst reynum við að setja nýtt boðberamet með því að vera fleiri en 324 í starfinu. Ef viðleitni okkar ber árangur verður ágúst sannarlega framúrskarandi mánuður! Við getum náð því ef allir leggja sig fram.
3 Þeir sem ætla að heiman í frí geta varið einhverjum tíma í boðunarstarfið áður en þeir fara. Taktu með þér smárit, bæklinga eða blöð svo að þú getir borið vitni fyrir því fólki sem þú hittir á leiðinni. Þú getur einnig farið í starfið með boðberum þess safnaðar þar sem þú dvelst.
4 Ef þú ert bundinn á einhvern hátt geturðu samt átt þátt í boðunarstarfinu. Þú gætir kannski vitnað fyrir læknum, hjúkrunarfræðingum eða gestum. Ef til vill geturðu borið vitni bréflega eða í síma.
5 Sumir kunna vafalaust að meta aðstoð við að taka þátt í boðunarstarfinu í ágúst. Öldungar, safnaðarþjónar og bóknámsstjórar ættu að gera ráðstafanir til að þessi aðstoð verði veitt. Þú skalt umfram allt ekki gleyma að skila inn starfsskýrslunni stundvíslega í lok mánaðarins þannig að þú verðir talinn með sem boðberi í ágúst.
6 Varðveittu sérréttindin: Þjónustan er ‚hið góða sem okkur er trúað fyrir.‘ (2. Tím. 1:14) Við erum þakklát fyrir að hafa fengið þau sérréttindi að prédika fagnaðarerindið. (1. Þess. 2:4) Þegar við íhugum allt það sem Jehóva hefur gert fyrir okkur ætti það að knýja okkur til að taka stöðugt þátt í þessu mikilvægasta starfi allt árið um kring. Ekkert ætti að hindra okkur í að prédika reglulega. Gerum ágúst að framúrskarandi mánuði í þjónustu Jehóva og einsetjum okkur að bera vitni um hann í hverjum mánuði þaðan í frá! — Sálm. 34:2.