Brautryðjendur hjálpa öðrum
1 Jesús sagði: „Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir. Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“ Þar sem fyrstu uppskerumennirnir voru fáir og þurftu að fara yfir mikið svæði, hefði Jesús getað sagt þeim að koma fagnaðarerindinu á framfæri við eins marga og hægt væri með því að senda þá einn og einn. Í staðinn „sendi [hann] þá á undan sér, tvo og tvo.“ (Lúk. 10:1, 2) Af hverju tvo og tvo?
2 Þessir lærisveinar voru nýir og óreyndir. Með því að starfa saman gátu þeir lært hver af öðrum og hvatt hver annan. Eins og Salómon orðaði það: „Betri eru tveir en einn.“ (Préd. 4:9, 10) Jafnvel eftir úthellingu heilags anda á hvítasunnunni árið 33 fóru Páll, Barnabas og aðrir með trúbræðrum sínum í boðunarstarfið. (Post. 15:35) Það hafa verið mikil sérréttindi að fá persónulega þjálfun hjá svona hæfum mönnum.
3 Góð þjálfunaráætlun: Kristni nútímasöfnuðurinn er helgaður prédikunarstarfi líkt og forveri hans á fyrstu öldinni. Hann veitir okkur einnig þjálfun. Okkur ætti öll að langa til að kynna fagnaðarerindið á eins árangursríkan hátt og hægt er. Aðstoð er fáanleg til að fleiri boðberar geti orðið færari í starfi.
4 Í Ríkisþjónustuskólanum, sem haldinn var nýlega, tilkynnti Félagið áætlun um að brautryðjendur hjálpi öðrum í boðunarstarfinu. Er þörf á því? Já. Meira en ein milljón boðbera hefur látið skírast síðastliðin þrjú ár og margir þeirra þurfa þjálfun til að ná sem bestum árangri í prédikunarstarfinu. Hverja er hægt að nota til að fullnægja þeirri þörf?
5 Brautryðjendur geta hjálpað. Skipulag Jehóva sér þeim fyrir margs konar ráðleggingum og þjálfun. Í tveggja vikna Brautryðjandaskóla fá brautryðjendur leiðbeiningar sem eru sniðnar að þörfum þeirra. Þeir njóta einnig góðs af fundum með farand- og umdæmishirðunum svo og af leiðsögn öldunganna. Enda þótt ekki séu allir brautryðjendur eins reyndir og Páll og Barnabas hafa þeir fengið gagnlega þjálfun sem þeir eru fúsir til að miðla öðrum.
6 Hverjir njóta góðs af? Eru það einungis nýir boðberar eða nýskírðir sem geta fengið þessa þjálfun? Engan veginn! Sumir hinna ungu og hinna eldri, sem hafa þekkt sannleikann í mörg ár, yrðu þakklátir fyrir aðstoð í vissum greinum boðunarstarfsins. Sumum gengur frábærlega að dreifa ritum en eiga erfitt með að fara í endurheimsóknir eða hefja biblíunámskeið. Aðrir eiga kannski auðvelt með að hefja biblíunámskeið en sjá að nemendur þeirra taka engum framförum. Hvað hindrar þá? Reyndir brautryðjendur eru ef til vill beðnir um að veita aðstoð á þessum sviðum. Vissir brautryðjendur ná góðum árangri í að rækta áhuga, hefja biblíunámskeið og beina nýjum nemendum inn til skipulagsins. Reynsla þeirra verður gagnleg í þessari nýju áætlun.
7 Leyfir stundaskrá þín þér ekki að styðja vikulegar samansafnanir fyrir boðunarstarfið í þeim mæli sem þú vildir gera? Brautryðjandi getur hugsanlega starfað með þér á þeim tíma þegar aðrir boðberar eru uppteknir.
8 Þörf er á góðri samvinnu: Tvisvar á ári gera öldungarnir ráðstafanir til að boðberar, sem sækjast eftir persónulegri aðstoð, geti tekið þátt í áætluninni Brautryðjendur hjálpa öðrum. Ef þú fellst á að þiggja slíka þjálfun skuluð þið hittast, þú og brautryðjandinn sem falið er að aðstoða þig, semja hentuga stundaskrá fyrir boðunarstarfið og halda ykkur við hana. Mættu á öll stefnumót ykkar. Taktu eftir áhrifamiklum leiðum til að kynna fagnaðarboðskapinn þegar þið starfið saman. Brjóttu til mergjar hvers vegna vissar aðferðir eru árangursríkar. Íhugaðu tillögurnar sem brautryðjandinn kemur með til að bæta kynningu þína. Er þú notar það sem þú lærir verður framför þín í boðunarstarfinu augljós bæði þér og öðrum. (Sjá 1. Tímóteusarbréf 4:15.) Starfið saman eins oft og mögulegt er og takið þátt í öllum greinum þjónustunnar, þar á meðal óformlegum vitnisburði, en einbeitið ykkur að sérstökum þáttum sem þú þarft einkum þjálfun í.
9 Starfshirðirinn fylgist af áhuga með framförum þínum. Öðru hverju kannar hann hjá bóknámsstjóranum hvernig þessi áætlun sé þér til gagns. Farandhirðirinn mun einnig aðstoða þig þegar hann heimsækir söfnuðinn.
10 Jehóva vill að þjónar sínir séu þjálfaðir og hæfir „til sérhvers góðs verks.“ (2. Tím. 3:17) Líttu á fyrirkomulagið Brautryðjendur hjálpa öðrum sem góða ráðstöfun til að hjálpa þeim sem langar til að bæta hæfni sína í að prédika orðið. Ef það eru sérréttindi þín að eiga þátt í því skaltu gera það með þakklæti, auðmýkt og gleði.