Hverjir þiggja biblíunámskeið?
1 Spámaðurinn Amos lýsti yfir að hungur myndi herja á Ísraelsland, ‚ekki hungur eftir brauði né þorsti eftir vatni, heldur eftir því að heyra orð Jehóva.‘ (Am. 8:11) Skipulag Jehóva dreifir óhemjumagni af biblíuritum um heim allan til gagns fyrir fólk sem hungrar og þyrstir andlega.
2 Fram til þessa hafa verið prentaðar 70 milljónir Þekkingarbóka og 91 milljón Kröfubæklinga. Við metum mikils þessi rit sem kenna fólki sannleikann á einfaldan og áhrifaríkan hátt. En fjöldi manna, sem fengið hefur rit frá okkur, hefur enn ekki þegið biblíunámskeið. Hvað getum við gert í því?
3 Hvert útbreitt rit getur verið vísir að biblíunámskeiði! Hugleiddu reynslu boðbera nokkurs sem bauð konu biblíunámskeið þegar hann talaði við hana í fyrsta sinn við dyrnar. Hún þáði það um hæl og sagði síðar: „Þú ert sá fyrsti sem hefur nokkru sinni boðið mér biblíunámskeið.“ Hversu margir á starfssvæði þínu, sem eiga ritin okkar, gætu sagt hið sama? Hvert útbreitt rit býður upp á tækifæri til að fara í endurheimsóknir og koma af stað heimabiblíunámskeiði.
4 Við hittum oft fólk sem á rit frá okkur svo að spyrja má hvernig við getum örvað áhuga þess á að kynnast innihaldi þeirra. Systir spurði húsráðanda hvort hann hefði einhverjar spurningar um Biblíuna, en hann svaraði því neitandi. Hún gafst ekki upp heldur sagði: „Þú hlýtur að hafa einhverjar.“ Svo reyndist vera og námskeiði var komið af stað. Hví ekki að spyrja húsráðandann hvort hann langi til að heyra svar Biblíunnar við einhverri spurningu eða viðhorf hennar til mála sem snerta hann? Vertu tilbúinn að koma með áhugaverða spurningu ef húsráðandanum dettur ekkert í hug. Slíkar umræður geta lagt grunninn að reglulegu námi í undirstöðukenningum Biblíunnar.
5 Biblíunámsstarfið er þungamiðja þjónustu okkar. Hikaðu ekki við að bjóða öllum sem þú hittir biblíunámskeið þar eð þú veist aldrei hverjir kunna að þiggja það. Leggðu málið fyrir Jehóva í bæn og starfaðu í samræmi við bænir þínar. Brátt kemstu að raun um að einhver sem þú býður námskeið þiggur það. — 1. Jóh. 5:14, 15.