Verður apríl 2000 besti mánuðurinn til þessa?
1 Miðvikudagskvöldið 19. apríl verður hámark þjónustuársins. Er sólin hnígur til viðar þennan dag halda allir söfnuðir og hópar votta Jehóva í heiminum minningarhátíð um dauða Krists. Hvar sem við búum verður minningarhátíðin um fórn Jesú Krists það sem hæst ber á árinu. Dagsetning hátíðarinnar er greinilega merkt á Dagatali votta Jehóva 2000.
2 Allan aprílmánuð höfum við afbragðstækifæri til að sýna að við metum af öllu hjarta þá óverðskulduðu góðvild Jehóva sem birtist í fórn sonar hans. Hvernig þá? Páll postuli skrifaði: „Kærleiki Krists knýr oss, því að vér höfum ályktað svo: Ef einn er dáinn fyrir alla, þá eru þeir allir dánir. Og hann er dáinn fyrir alla, til þess að þeir, sem lifa, lifi ekki framar sjálfum sér, heldur honum, sem fyrir þá er dáinn og upprisinn.“ (2. Kor. 5:14, 15) Já, í apríl getum við sýnt að við lifum ekki framar sjálfum okkur heldur honum, sem dó fyrir okkur, og við getum gert þetta að besta mánuði okkar til þessa í þjónustu Guðsríkis.
3 Vertu aðstoðarbrautryðjandi í apríl: Páll postuli gaf okkur frábært fordæmi þegar hann sagði: „Mér er líf mitt einskis virði, fái ég aðeins að fullna skeið mitt og þá þjónustu, sem Drottinn Jesús fól mér: Að bera vitni fagnaðarerindinu um Guðs náð.“ (Post. 20:24) Við höfum þessi sömu sérréttindi að bera rækilega vitni um Jehóva Guð. Þess vegna viljum við að apríl verði besti aðstoðarbrautryðjendamánuðurinn til þessa!
4 Það eru fimm heilar helgar í apríl og því ætti hann að henta mörgum vel til brautryðjandastarfs. Í apríl 1992 náðum við hæstu tölu aðstoðarbrautryðjenda hér á landi í einum mánuði, 33 talsins, sem var um 13 af hundraði allra boðbera. Sjö árum seinna, í apríl 1999, hafði boðberum fjölgað í 326 eða um 27 af hundraði. Við ættum því hæglega að geta slegið gamla aðstoðarbrautryðjendametið. Starfstímaskyldunni hefur auk þess verið breytt þannig að miklu fleiri safnaðarboðberar ættu að geta séð sér fært að vera aðstoðarbrautryðjendur. Allir skírðir boðberar eru hvattir til að hugleiða í bænarhug hvort þeir geti gerst aðstoðarbrautryðjendur í apríl.
5 Notaðu aprílmánuð á Dagatali votta Jehóva 2000 til að skipuleggja boðunarstarf þitt í næsta mánuði. Ákveddu hvaða daga þú getur farið í starfið og teldu saman tímana sem þú telur þig geta varið til þess í mánuðinum, bæði í formlegu og óformlegu boðunarstarfi. Er heildartíminn nálægt þeim 50 stundum sem krafist er af aðstoðarbrautryðjendum? Ef eitthvað vantar upp á, geturðu þá hagrætt málum þínum frekar þannig að þú náir að gerast aðstoðarbrautryðjandi? Þú þarft aðeins að starfa 1 klukkutíma og 40 mínútur að meðaltali á dag til að ná 50 tímum í mánuðinum.
6 Starfstímaskyldu reglulegra brautryðjenda hefur einnig verið breytt. Hefurðu velt fyrir þér að þjóna í fullu starfi? Hvers vegna að bíða til sumars? Nú er vetur að baki og apríl því kjörinn mánuður til að byrja! Ef þú telur þig ekki geta staðið undir 70 stunda starfstímaskyldu reglulegra brautryðjenda, hví þá ekki að gerast aðstoðarbrautryðjandi í apríl og setja þér það markmið að ná 70 tímum? Þegar þú sérð að þú getur náð markinu ertu kannski tilbúinn að slást í hópinn með reglulegum brautryðjendum. — Sjá bókina Organized to Accomplish Our Ministry (Þjónustubókina), bls. 113-14.
7 Taktu fullan þátt í prédikunarstarfinu sem boðberi: Hvort sem við erum boðberar eða brautryðjendur ætti ósvikinn kærleikur til Guðs og náungans að fá okkur til að gera eins mikið í boðunarstarfinu og við getum. (Lúk. 10:27) Við leggjum heilshugar „á oss erfiði og þreytum stríð, því að vér höfum fest von vora á lifanda Guði, sem er frelsari allra manna, einkum trúaðra.“ (1. Tím. 4:10) Þar af leiðandi væntum við þess að allir fari út í boðunarstarfið svo að þátttakan í apríl verði 100 prósent.
8 Gleymum ekki hvatningu Jesú: „Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir. Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“ Strax í kjölfarið kallaði hann til sín postulana tólf og sendi þá út að prédika. (Matt. 9:37, 38; 10:1, 5, 7) Um ári síðar, eftir að tólfmenningarnir höfðu fengið góða þjálfun í prédikunarstarfinu, ‚kvaddi Jesús til aðra, sjötíu að tölu, og sendi þá á undan sér,‘ og hann gaf þeim sömu leiðbeiningar: „Uppskeran er mikil . . . Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“ (Lúk. 10:1, 2) Postulasagan greinir frá því hvernig Jehóva svaraði þessum bænum. Á hvítasunnunni árið 33 hafði lærisveinunum fjölgað í um 120. Þessu næst er greint frá því að þeir væru orðnir 3000 og síðan 5000. (Post. 1:15; 2:41; 4:4) Eftir það fór tala þeirra „stórum vaxandi.“ (Post. 6:7) Við þurfum líka að biðja herrann að senda enn fleiri prédikara Guðsríkis! Í samræmi við bænir okkar ætti sérhver safnaðarboðberi að gera ákveðnar ráðstafanir til að fara út í boðunarstarfið í hverjum mánuði.
9 Líttu nánar á aprílmánuð á Dagatali votta Jehóva 2000. Fyrstu tveir dagar mánaðarins eru laugardagur og sunnudagur. Geturðu ráðgert að fara út í starfið þessa helgi og byrjað mánuðinn vel? Geturðu tekið þátt í öllum ‚blaðadögum‘ mánaðarins með bóknámshópnum þínum? Hvað um að vera eina klukkustund eða lengur í starfinu hvern sunnudag? Farið verður að birta nokkuð á kvöldin í apríl. Geturðu ráðgert að fara í kvöldstarf þá? Gleymdu ekki heldur tækifærum sem bjóðast til að bera óformlega vitni í vinnunni, skólanum eða við hin hversdagslegu störf. Merktu við hvaða daga þú getur verið í boðunarstarfinu og notaðu dagatalið til að skrá starfstímana í mánuðinum.
10 Apríl hentar vel fyrir nýja að gerast óskírðir boðberar ef þeir eru hæfir til þess og hafa fengið samþykki öldunganna. Hefur biblíunemandi þinn tekið nógu miklum framförum til að tímabært sé orðið að spyrja umsjónarmanninn í forsæti hvort hann geti orðið boðberi fagnaðarerindisins? Ef þú átt óskírð börn, hefurðu rætt um andlegar framfarir þeirra við öldungana? Væri þetta ekki kjörinn tími fyrir þau til að gerast boðberar? — Sjá bókina Organized to Accomplish Our Ministry (Þjónustubókina), bls. 97-100.
11 Til að apríl 2000 geti orðið besti mánuðurinn til þessa þurfum við öll að taka þátt í boðunarstarfinu og síðan skila starfsskýrslu í mánaðarlok. (Samanber Markús 6:30.) Hvetjið óskírða boðbera, sem taka þátt í starfinu í fyrsta sinn, til að skila starfsskýrslu á réttum tíma. Ef við leggjum okkar af mörkum verður aprílskýrslan góð og vitnisburðarstarf okkar Jehóva til mikils lofs.
12 Fáðu aðra með þér á minningarhátíðina: Væri ekki frábært að sjá nýtt hámark viðstaddra á minningarhátíðinni um dauða Krists árið 2000? Jú, því að það yrði fjölmennasti hópur sem komið hefði saman til að sýna þakklæti sitt fyrir mesta kærleiksverk Jehóva Guðs og Jesú Krists í okkar þágu! (Jóh. 3:16; 15:13) Gerðu allt sem þú getur til að þú og fjölskylda þín missi ekki af minningarhátíðinni.
13 Nú er tímabært að byrja að bjóða öðrum á minningarhátíðina. Útbúðu lista yfir alla sem þú vilt gjarnan að sæki hátíðina. Teldu með alla sem hafa haft biblíunámskeið áður, þá sem eru að kynna sér Biblíuna núna og alla sem þú endurheimsækir. Bættu á listann vinnufélögum þínum, skólafélögum, nágrönnum og viðskiptavinum, að ógleymdum ættingjum og öðrum kunningjum. Síðan skaltu bjóða öllum á listanum á minningarhátíðina. Tilgreindu hvar og hvenær hún verður haldin. Þegar 19. apríl nálgast skaltu minna þá sem eru á listanum aftur á það, ýmist beint eða símleiðis. Bjóðstu til að vera samferða þeim á minningarhátíðina þetta kvöld.
14 Öldungaráðið á að gera sérstakt átak í að hvetja alla óvirka boðbera á svæðinu til að sækja minningarhátíðina, í samræmi við fyrri leiðbeiningar Félagsins. (Matt. 18:12-14) Öldungarnir ættu að rifja upp bréf Félagsins dagsett 2. febrúar 1999. Ritari safnaðarins skal gera lista yfir alla óvirka boðbera og starfshirðirinn fela öldungum að heimsækja þá og bjóða á minningarhátíðina. Fái þeir fljótlega uppörvandi hirðisheimsókn getur hugsast að það takist að hjálpa þeim að verða virkir í boðunarstarfinu á ný, jafnvel í apríl. Það væri trústyrkjandi fyrir þá að fá að starfa með reyndum boðbera.
15 Hvetjið til góðrar þátttöku í apríl! Allir öldungar, safnaðarþjónar og fjölskylduhöfuð þurfa að samstilla krafta sína til að apríl 2000 verði besti mánuðurinn til þessa. Öldungarnir þurfa að skipuleggja allt vel og kostgæfilega og taka forystuna. (Hebr. 13:7) Gera þarf hentugar ráðstafanir fyrir starfið bæði um helgar og á virkum dögum. Bæta má við samkomum fyrir boðunarstarfið síðla dags og snemma á kvöldin. Setja ætti upp lista á tilkynningatöfluna yfir allar samkomur fyrir boðunarstarfið í apríl, fela einhverjum að stjórna hverri þeirra og tryggja að nægilegt starfssvæði sé fyrir hendi.
16 Í apríl bjóðum við stök blöð af Varðturninum og Vaknið! Bjóða skal öllum áhugasömum Kröfubæklinginn með það fyrir augum að koma af stað heimabiblíunámskeiðum. Nægar birgðir af blöðum og bæklingum þurfa því að vera fyrir hendi.
17 Í mánaðarlok eiga bóknámsstjórar og aðstoðarmenn þeirra að hvetja alla í bóknámshópnum til að skila starfsskýrslu strax eftir mánaðamótin — eða jafnvel sunnudaginn 30. apríl. Þegar ritarinn tekur saman skýrslurnar og sér að sumir boðberar eiga eftir að skila sinni getur hann minnt þá vingjarnlega á að gera það fyrir 6. maí þegar hann þarf að senda safnaðarskýrsluna til Félagsins. Hann getur beðið bóknámsstjóra um að hjálpa sér að ná sambandi við þessa boðbera.
18 Minningarhátíðartíminn er mikilvægasti tími ársins hjá fólki Guðs. Við ættum öll að vera önnum kafin í starfi Jehóva um það leyti og við verðum það ef allir boðberar taka eins mikinn þátt og þeir geta í prédikun fagnaðarerindisins, ef allir gerast aðstoðarbrautryðjendur sem geta það og ef við erum dugleg að bjóða öðrum með okkur á minningarhátíðina um dauða Krists. Biðjum í einlægni um ríkulega blessun Jehóva svo að okkur megi takast að gera apríl 2000 að besta mánuðinum til þessa, honum til lofs og dýrðar! — Hebr. 13:15.
[Rammi á blaðsíðu 3]
Aðstoðarbrautryðjendur
Hæsta talan til þessa: 33
(apríl 1992)
[Rammi á blaðsíðu 4]
Boðberar
Hæsta talan til þessa: 328
(janúar 1999)
[Rammi á blaðsíðu 5]
Aðsókn að minningarhátíð
Hæsta talan til þessa: 624
(1997)