Kunngerum nafn Jehóva og máttarverk
1 „Þakkið [Jehóva], ákallið nafn hans, gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna! . . . Hjarta þeirra er leita [Jehóva] gleðjist.“ (Sálm. 105:1, 3) Sálmaritarinn, sem orti þetta , naut þess að segja öðrum frá Jehóva og ‚máttarverkum‘ hans. Hvaða máttarverkum? Vafalaust þeim sem tengdust dýrlegum konungdómi og ‚hjálpráðum‘ Guðs. — Sálm. 96:2, 3; 145:11, 12.
2 Við höfum margar ástæður til að gleðjast yfir máttarverkum Jehóva í okkar garð. Nú fer minningarhátíðartíminn í hönd. Kvöldmáltíð Drottins er án nokkurs vafa mesta hátíð allra sannkristinna manna á árinu. Enginn annar atburður ársins er jafnmikilvægur. Þá rifjum við upp hjálpræðisráðstafanir Jehóva og Jesú í okkar þágu. Það er því ekki óeðlilegt að vænta þess að þátttakan í boðunarstarfinu aukist verulega um minningarhátíðarleytið er við kunngerum „hjálpráð“ Guðs.
3 Verður þú aðstoðarbrautryðjandi? Í apríl síðastliðnum voru 22 aðstoðarbrautryðjendur hér á landi. Getum við gert mars og apríl í ár að sérstökum starfsmánuðum? Í mars eru fimm laugardagar og í apríl eru fimm sunnudagar. Margir boðberar í fullri vinnu hafa náð að vera aðstoðarbrautryðjendur með því að starfa vel um helgar. Til að uppfylla starfstímaskyldu aðstoðarbrautryðjenda þarf að jafnaði að starfa 12 klukkutíma á viku. Skoðaðu vandlega stundaskrártillögurnar á bls. 4. Ætli einhverjar þeirra henti þér? Ef ekki gætirðu kannski útbúið eigin stundaskrá sem gerir þér kleift að vera aðstoðarbrautryðjandi í mars og apríl.
4 Öldungarnir ættu strax að fara að glæða áhuga á auknu boðunarstarfi. Í apríl síðastliðnum voru 64 aðstoðarbrautryðjendur í 121 manns söfnuði, þar á meðal allir öldungarnir og safnaðarþjónarnir! Í sama söfnuði byrjuðu sex óskírðir boðberar að starfa í mars og apríl. Vormánuðurnir eru án efa besti tíminn fyrir börn og nýja að leita til öldunganna og athuga hvort þau geti byrjað formlega í boðunarstarfinu.
5 Blessun samfara aukinni viðleitni: Söfnuðir njóta margvíslegrar blessunar þegar þeir setja sér starfsmarkmið og sýna aukna viðleitni. Sumir söfnuðir geta lagt áherslu á að komast yfir starfssvæði sem sjaldan er farið yfir, einbeitt sér að öðrum greinum boðunarstarfsins eða hvatt til símaboðunar, en það er áhrifarík leið til að ná til þeirra sem ekki hefur tekist að hitta heima eða ekki er hægt að komast til.
6 Þarf heilsuleysi eða elli að koma í veg fyrir að maður leggi hart að sér í boðunarstarfinu? Ekki í öllum tilfellum. Tökum 86 ára krabbameinssjúka systur sem dæmi. Hún var aðstoðarbrautryðjandi í apríl síðastliðnum þrátt fyrir bólgna fótleggi. Hún notaði símann til að bera vitni og lofsyngja Jehóva í auknum mæli. Það var henni og söfnuðinum mikil lyftistöng.
7 Búðu þig vel undir minningarhátíðina: Minningarhátíðin í ár verður 8. apríl. Margir ættu að geta komið þar eð þetta er sunnudagur. Fleiri gætu komið en nokkru sinni fyrr ef við leggjum okkar af mörkum með því að (1) mæta sjálf og (2) bjóða öðrum á minningarhátíðina. Hverjum ættum við að bjóða?
8 Skoðaðu minnisblöðin þín og skrifaðu hjá þér nöfn þeirra sem sýnt hafa sannleikanum áhuga, jafnvel þótt þú heimsækir þá ekki reglulega. Tveim eða þrem vikum fyrir minningarhátíðina skaltu heimsækja þá alla og afhenda þeim boðsmiða á hátíðina. Ef þú hefur tök á skaltu bjóða þeim far sem vilja koma.
9 Sumir söfnuðir nota ekki alla boðsmiðana á minningarhátíðina. Ritarar skulu sjá til þess að boðsmiðarnir liggi frammi nógu tímanlega til að þeim verði öllum dreift. Vélritaðu eða skrifaðu snyrtilega neðst á boðsmiðann hvenær og hvar minningarhátíðin verður haldin. Eða láttu boðsmiða á samkomur í ríkissalnum fylgja með ef minningarhátíðin verður haldin þar. Rétt er að minna á að yfirleitt er best að afhenda húsráðandanum boðsmiðann persónulega.
10 Gleymdu ekki óvirkum: Það er gleðiefni þegar biblíunemandi vígir sig Jehóva og táknar það með vatnsskírn. Á hverju ári hætta sumir hins vegar að eiga samneyti við okkur og hætta að kunngera nafn Jehóva og máttarverk. Þetta er áhyggjuefni. Þótt flestir hinna óvirku hafi ekki yfirgefið sannleikann hafa þeir kannski hætt að prédika sökum kjarkleysis, persónulegra vandamála eða áhyggna lífsins. (Matt. 13:20-22) Þeir sem eru andlega veikburða þurfa hjálp til að snúa aftur til safnaðarins áður en heimskerfi Satans gleypir þá með húð og hári. (1. Pét. 5:8) Við viljum gera sérstakt átak um minningarhátíðarleytið til að hjálpa öllum hæfum, óvirkum boðberum til að taka þátt í boðun fagnaðarerindisins á ný.
11 Ritari safnaðarins ætti að láta bóknámsstjórana vita hverjir eru óvirkir í bóknámsshópnum þeirra. Starfsnefnd safnaðarins tekur forystuna í að skipuleggja hirðisheimsóknir til allra óvirkra boðbera. Ef talið er að hinn óvirki hafi gagn af persónulegu biblíunámskeiði ætti starfsnefndin að ákveða hver sé best til þess fallinn að stjórna því. Námskeiðið þarf ekki að standa lengi en stjórnandinn má telja það með á starfsskýrslu sinni, ásamt starfstíma og endurheimsóknum.
12 Systir var að starfa hús úr húsi í apríl síðastliðnum og bauð ungum manni blöðin úti á götu. Hann sagði henni að konan sín væri óvirkur vottur. Hann spurði hvar ríkissalurinn væri og bauð systurinni að heimsækja sig og eiginkonuna. Þetta varð til þess hjónin komu á næstu samkomu og þáðu biblíunámskeið.
13 Búðu þig undir aukið starf: Sálmaritarinn, sem hvetur okkur til að kunngera nafn og máttarverk Jehóva, bætir við: „Syngið fyrir honum, leikið fyrir honum, talið um öll hans dásemdarverk. Hrósið yður af hans helga nafni.“ (Sálm. 105:2, 3) Sýnum að okkur er annt um hið mikla nafn Jehóva og „dásemdarverk“ hans með því að auka boðunarstarfið svo að næsta minningarhátíðartímabil verði það gjöfulasta fram til þessa!
[Rammi á blaðsíðu 4]
Ýmsar leiðir til að starfa 12 klukkustundir á viku
Dagur Stundir
Mánudagur 1 2 − −
Þriðjudagur 1 − 3 −
Miðvikudagur 1 2 − 5
Fimmtudagur 1 − 3 −
Föstudagur 1 2 − −
Laugardagur 5 4 3 5
Sunnudagur 2 2 3 2
Samtals: 12 12 12 12
Hentar einhver af þessum stundaskrám þér? Ef ekki, hví ekki að búa til þína eigin stundaskrá?