Gerirðu starfi þínu góð skil?
1 Postulasagan segir frá því að lærisveinar Jesú hafi gert starfi sínu góð skil með því að vitna rækilega fyrir fólki. (Post. 2:40; 8:25; 28:23) Það var vissulega takmark Páls postula. (Post. 20:24) Er það markmið þitt sem boðbera fagnaðarerindisins? Hvernig geturðu gert það?
2 Undirbúðu kynningu þína: Undirbúningur er mikilvægur ef við viljum vera viss um að gefa góðan vitnisburð í boðunarstarfinu, sérstaklega ef við erum að bjóða blöðin því að viðfangsefni blaðanna er margbreytilegt. Ríkisþjónusta okkar kynnir því nýjan dálk sem getur hjálpað okkur að vera betur undirbúin. Dálkurinn, sem er hér til vinstri, kemur með tillögur um það hvernig við getum boðið blöðin Varðturninn og Vaknið! Í hverri Ríkisþjónustu verður lögð áhersla á tímabært efni sem höfðar til margra. Hvernig getur þú unnið úr þessum stuttu kynningarorðum?
3 Veldu tillögu sem þú heldur að beri góðan árangur á starfssvæði þínu. Lestu vandlega greinina sem þú ætlar að bjóða og vertu vakandi fyrir ákveðnum punktum sem gætu vakið áhuga. Finndu ritningarstað í blaðinu sem tengist efninu og þú getur lesið fyrir húsráðandann. Bættu við örfáum lokaorðum til að hvetja húsráðandann til að lesa blaðið og láta hann vita að hann geti stutt alþjóðlegt starf Votta Jehóva ef við á. Næst þarftu að æfa kynninguna.
4 Notaðu Biblíuna: Þú getur fléttað ritningarstað inn í kynningu þína ef þú ert vel undirbúinn. Víða hafa vanir boðberar til dæmis góða reynslu af því að fara hús úr húsi með Biblíuna í hendinni, heilsa húsráðandanum og segja svo:
◼ „Við erum að spyrja fólk hvort það trúi þessu . . .“ Lestu 1. Mósebók 1:1 og spyrðu svo: „Ertu sammála þessu?“ Ef húsráðandi er sammála segðu þá: „Ég trúi þessu líka. En ef Guð skapaði alla hluti ber hann þá líka ábyrgð á allri mannvonskunni?“ Þegar þú ert búinn að heyra svarið skaltu lesa Prédikarann 7:29. Opnaðu svo Þekkingarbókina á blaðsíðu 71 og lestu grein 2. Hvettu húsráðandann til að lesa bókina. Ef hann er ekki sammála því sem kemur fram í 1. Mósebók 1:1 skaltu hvetja hann til að skoða Skaparabókina.
5 Fylgdu öllum áhuga eftir: Við getum ekki gert starfi okkar góð skil ef við fylgjum ekki eftir öllum áhuga sem við finnum. Skrifaðu niður nafn og heimilisfang þeirra sem þú átt gott samtal við, óháð því hvort þeir þiggja blöð eða önnur rit. Reyndu að vekja áhuga með því að fara fljótt til þeirra aftur og bjóða biblíunámskeið.
6 Lærisveinarnir á fyrstu öld vissu að Jesús hafði boðið þeim að „vitna“ rækilega. (Post. 10:42) Þessi fyrirmæli eiga líka við okkur því að þetta er eina leiðin til að gera fólk að lærisveinum. (Matt. 28:19, 20) Gerum því allt sem við getum til að gera starfi okkar góð skil. — 2. Tím. 4:5.