Sá sem sáir ríflega hlýtur ríkulega umbun
1 Við hlökkum öll til þess þegar hin stórkostlegu loforð í orði Guðs uppfyllast. Jafnvel núna veitir Jehóva okkur margs konar blessun sem gerir líf okkar ánægjulegra. Hversu mikið gagn við höfum af því sjálf fer samt að miklu leyti eftir því hve mikið við leggjum á okkur. Eins og Páll postuli orðaði það: „Sá sem sáir ríflega mun og ríflega uppskera.“ (2. Kor. 9:6) Skoðum tvö svið þar sem þessi meginregla á við.
2 Boðunarstarfið: Þegar við notum hvert tækifæri til að segja fólki frá fagnaðarerindinu hefur það mikla umbun í för með sér. (Orðskv. 3:27, 28) Það er hrósunarvert hve margir eru að sá ríflega með því að auka þátttöku sína í boðunarstarfinu, þar á meðal með því að gerast aðstoðarbrautryðjendur eða reglulegir brautryðjendur. Við getum öll sáð ríflega með því að fara samviskusamlega í endurheimsóknir til að glæða allan áhuga sem fyrir hendi er og með því að bjóða biblíunámskeið hvenær sem tækifæri gefst. (Rómv. 12:11) Þegar við leggjum okkur þannig fram upplifum við ýmislegt skemmtilegt og uppörvandi í boðunarstarfinu.
3 Að styrkja hag Guðsríkis: Páll lét orðin „sá sem sáir ríkulega“ falla í sambandi við efnislegar gjafir. (2. Kor. 9:6, 7, 11, 13) Nú á tímum höfum við margar leiðir til að styrkja hag Guðsríkis, svo sem með tíma okkar, kröftum og eigum. Við getum veitt aðstoð við að reisa ríkissali og mótshallir. Við getum einnig verið reiðubúin til að taka þátt í ræstingu og viðhaldi þessara bygginga þar sem sönn tilbeiðsla fer fram. Þar að auki getum við látið fé af hendi rakna fyrir kostnaði af rekstri safnaðarins á svæðinu og kostnaði við að boða Guðsríki um heim allan og gera menn að lærisveinum. Þegar hver og einn leggur sitt af mörkum gleðjumst við yfir því hve ríkulega Jehóva blessar þetta starf sem hann hefur fyrirskipað. — Mal. 3:10; Lúk. 6:38.
4 Orð Guðs hvetur okkur til ‚að gjöra gott, vera rík af góðum verkum, örlát, fús að miðla öðrum.‘ Þegar við förum eftir þessari áminningu njótum við ríkulegrar blessunar. Um leið ‚söfnum við handa sjálfum okkur fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna og hins sanna lífs.‘ — 1. Tím. 6:18, 19.