Bréf frá deildinni
Kæru boðberar:
Á þjónustuárinu 2002 voru haldin 5.309.289 biblíunámskeið og 265.469 létu skírast. Þessi árangur ber vitni um ötult starf á akrinum. Við erum þó alltaf minnug þess að ‚Guð gefur vöxtinn‘. — 1. Kor. 3:6.
Þó að boðberum hafi ekki fjölgað hér á landi á nýliðnu þjónustuári var mikið og gott starf unnið. Til dæmis voru haldin yfir 180 biblíunámskeið að meðaltali í hverjum mánuði og 544 sóttu minningarhátiðina.
Vottar Jehóva hér á landi hafa tækifæri til að hjálpa fólki af mörgum „kynkvíslum og lýðum og tungum“ að eignast von. (Opinb. 7:9, 14) Deildarskrifstofan er með rit á um það bil 40 tungumálum til að auðvelda boðberum að koma fagnaðarerindinu á framfæri við fólk sem talar erlend tungumál. Sumir hafa tekið við sannleikanum. Nokkrir boðberar eru að læra táknmál til að ná til heyrnarlausra. Aðrir taka reglulega þátt í fyrirtækjastarfi og enn aðrir í símastarfi. Útbreiðsla blaða, bæklinga og bóka er til vitnis um að sæði sannleikans er sáð í miklu magni á akrinum. Það býr mikið frjómagn í þessum sannleiksfræjum.
Við fögnum því að sjá þessa góðu viðleitni og hvetjum alla til að fylgja sáningunni eftir með því að fara reglulega í endurheimsóknir á nýju þjónustuári til að hlúa að vaxtarsprotunum. Jehóva gefur svo vöxtinn.
Bræður ykkar
á íslensku deildarskrifstofunni