Unglingar — leggið góðan grunn að framtíðinni
1 Hvað er þér efst í huga? Um hvað hugsarðu? Hugsarðu aðallega um það sem er að gerast núna eða hugsarðu um framtíðina og það sem Guð hefur lofað? (Matt. 6:24, 31-33; Lúk. 8:14) Við þurfum að hafa sterka trú til aðl breyta í samræmi við loforð Guðs, eins og sést best á fordæmi Abrahams og Mós. (Hebr. 11:8-10, 24-26) En hvernig geturðu byggt upp slíka trú og lagt góðan grunn að framtíðinni? — 1. Tím. 6:19.
2 Leitaðu Jehóva: Ef þú tekur þátt í andlegri dagskrá fjölskyldunnar er það vissulega hrósvert. En þú skalt ekki gera ráð fyrir að það eitt byggi sjálfkrafa upp sterka trú hjá þér. Þú verður sjálfur að leita Jehóva til að öðlast „þekking á Guði“. (Orðskv. 2:3-5; 1. Kron. 28:9) Hinn ungi konungur Jósía gerði það. Umhverfið, sem hann ólst upp í, stuðlaði alls ekki að andlegum vexti en þrátt fyrir það „tók hann að leita Guðs Davíðs, forföður síns,“ þegar hann var 15 ára. — 2. Kron. 34:3.
3 Hvernig geturðu leitað Jehóva? Með því að skoða vel hverju þú trúir og ‚reyna‘ hvort það sé sannleikurinn. (Rómv. 12:2) Geturðu til dæmis útskýrt það sem Biblían segir um blóðið eða sýnt fram á að Guðsríki byrjaði að ríkja á himnum árið 1914? Það að ‚komast til þekkingar á sannleikanum‘ er mikilvægur þáttur í því að leggja góðan grunn að framtíðinni. — 1. Tím. 2:3, 4.
4 Leit Jósía að Guði bar góðan árangur. Hann var ekki orðinn tvítugur þegar hann vann hugrakkur að því að útrýma falsguðadýrkun úr landinu. (2. Kron. 34:3-7) Á sama hátt verður framför þín í trúnni augljós af verkum þínum. (1. Tím. 4:15) Ef þú ert óskírður boðberi skaltu leggja þig allan fram um að bæta þig í boðunarstarfinu. Láttu þér ekki nægja að bjóða bara ritin. Settu þér þau markmið að nota Biblíuna, rökræða við fólk og fylgja áhuganum eftir. (Rómv. 12:7) Það hjálpar þér að styrkjast í trúnni.