Meiri áhersla á Biblíuna!
1. Fyrir hverja var Varðturninn fyrst og fremst gefinn út í byrjun en hvað um Gullöldina?
1 Fyrsta tölublað tímaritsins The Golden Age (Gullöldin) kom út 1. október árið 1919. Tímaritið reyndist mjög gott hjálpartæki í boðunarstarfinu vegna þess að það var sérstaklega samið með almenna lesendur í huga. Hins vegar var litið svo á um langt árabil að Varðturninn væri aðallega ætlaður ‚litlu hjörðinni‘. (Lúk. 12:32) Boðberar fagnaðarerindisins tóku nýja tímaritinu tveim höndum með þeim árangri að upplag þess var lengi vel miklu stærra en upplag Varðturnsins.
2. Hvað heitir Gullöldin núna og hvaða tilgangi hefur blaðið þjónað frá upphafi?
2 Tímaritið Gullöldin var gefið út til að benda fólki á að þúsundáraríki Krists væri lausnin á erfiðleikum mannkynsins. Þegar það gengi í garð myndi renna upp ósvikin gullöld. Tímaritið tók ýmsum breytingum á næstu áratugum í samræmi við breytilegar þarfir á hverjum tíma. Árið 1937 var nafninu breytt í Consolation (Hughreysting) en árið 1946 fékk það svo nafnið Vaknið! eins og við þekkjum það núna.
3. Vaknið! hefur gegnt veigamiklu hlutverki í uppfyllingu ákveðins spádóms. Hvaða spádómur er það?
3 Blaðið hefur gegnt veigamiklu hlutverki í þeim öfluga vitnisburði sem gefinn hefur verið allt frá 1919. (Matt. 24:14) En í ljósi þess á hvaða tímum við lifum virðist nú skynsamlegt að gera breytingar á blaðinu á nýjan leik.
4. (a) Hvað er nauðsynlegt að gera til að vera ‚falinn á reiðidegi Jehóva‘? (b) Hvað hvetur engillinn, sem sagt er frá í Opinberunarbókinni 14:6, 7, alla til að gera?
4 Milljónir manna hafa ánægju af að lesa Vaknið! enda er það vandað blað sem fjallar um alls konar málefni af almennu tagi. Flestir sem sækja minningarhátíðina ár hvert eru trúlega dyggir lesendur blaðsins. En það er ekki nóg að lesa ritin okkar að staðaldri til að vera falinn „á reiðidegi Drottins“. Þeir sem vilja fá vernd þurfa hjálp til að gera meira en það. — Sef. 2:3; Opinb. 14:6, 7.
5. (a) Á hvað verður lögð meiri áhersla í Vaknið! frá og með janúar 2006? (b) Hvaða áhrif gæti það haft á lesendur og í samræmi við hvaða spádóm?
5 Frá og með janúar 2006 mun Vaknið! leggja meiri áherslu á ríki Guðs. Það mun hvetja lesendur með beinni hætti en áður til að leita lausnar í Biblíunni á vandamálum sínum, og meira verður lagt upp úr því að gefa biblíutengdar skýringar á atburðum líðandi stundar. Þannig fá lesendur blaðsins gleggri skilning á því sem er að gerast á hverjum tíma og lesefnið verður þeim kannski hvöt til að kynnast Jehóva betur. — Sak. 8:23.
6, 7. (a) Hvað verður gert til að hjálpa fólki að fara eftir 1. Þessaloníkubréfi 2:13? (b) Hver verður útgáfutíðni Vaknið! og snertir þessi breyting mörg tungumál?
6 Vaknið! mun halda áfram að fjalla um ýmis mál af almennu tagi en aukin áhersla verður lögð á Biblíuna. (1. Þess. 2:13) Þar sem fjallað er um djúptækt biblíulegt efni í Varðturninum og meira verður af biblíutengdu efni í Vaknið! virðist ekki lengur vera ástæða til að gefa Vaknið! út hálfsmánaðarlega á ensku og fleiri tungumálum. Vaknið! mun því koma út einu sinni í mánuði á helstu tungumálum heims frá og með janúar 2006. Þetta einfaldar samningu, þýðingu og sendingu ritanna töluvert.
7 Vaknið! er nú þegar gefið út mánaðarlega eða á þriggja mánaða fresti á fjölda tungumála þannig að breytingin á útgáfutíðni snertir aðeins um 40 prósent þeirra mála sem Vaknið! kemur út á. Útgáfa Varðturnsins verður með óbreyttu sniði.
8, 9. Hvaða hlutverki mun Vaknið! gegna áfram?
8 Þessi breyting hefur áhrif á fjölda boðbera víða um heim sem hafa vanist því að fá Vaknið! tvisvar í mánuði til að nota í boðunarstarfinu. Hér á landi verður útgáfutíðni blaðsins óbreytt, það er að segja fjögur tölublöð á ári.
9 Blaðið, sem kallast hefur Gullöldin, Hughreysting og nú Vaknið!, hefur gegnt mikilvægu hlutverki í boðun fagnaðarerindisins síðan það kom fyrst út árið 1919. Það er bæn okkar að Jehóva haldi áfram að blessa dreifingu þessa tímarits þegar það kemur út með nýju sniði. Við vonum að það veki enn fleiri „af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum“ til vitundar um að Guðsríki er eina von mannkynsins. — Opinb. 7:9.