Notaðu blaðaleið til að örva áhuga fólks
1. Hvernig getum við notað blaðaleið til að glæða áhuga fólks?
1 Við hittum marga í boðunarstarfinu sem kunna vel að meta heimsóknir okkar og lesa ritin með ánægju en hika við að þiggja biblíunámskeið. Við gætum hugsanlega glætt áhuga þeirra með því að hafa þá á blaðaleið hjá okkur. Þegar einhver þiggur blöð hjá þér skaltu punkta niður nafn og heimilisfang, dagsetningu, hvaða tölublöð þú skildir eftir og hvaða ritningarstað var rætt um. Punktaðu einnig hjá þér hugsanlegar vísbendingar sem þú hefur um áhugamál viðmælanda þíns. Þegar þú færð nýtt blað í hendur skaltu leita að efni sem gæti höfðað til fólks á blaðaleiðinni og benda síðan á það þegar þú afhendir blöðin. (1. Kor. 9:19-23) Með tíð og tíma gæti eitthvað í blöðunum kveikt áhuga fólks á því að kynna sér málið nánar.
2. Af hverju er áríðandi fyrir fólk að leita Jehóva núna og hvernig getum við glætt áhuga þess?
2 Við gerum okkur hins vegar grein fyrir því að það er sjaldan nóg fyrir fólk að lesa blöðin til að gerast þjónar Jehóva. Það er samt áríðandi að fólk leiti Jehóva núna. (Sef. 2:2, 3; Opinb. 14:6, 7) Hvað getum við gert til að hjálpa því? Við getum glætt áhugann með því að lesa og skýra valinn ritningarstað í hvert sinn sem við komum með ný blöð.
3. (a) Hvernig getum við samið syrpur af stuttum umfjöllunum um einn ritningarstað? (b) Hvaða mál eru efst á baugi hjá fólki á starfssvæðinu þínu?
3 Notaðu einn ritningarstað í hvert sinn: Veltu fyrir þér þörfum og hugðarefnum fólks á blaðaleiðinni og semdu síðan syrpu af stuttum umfjöllunum um einn ritningarstað, miðað við þarfir hvers og eins. (Fil. 2:4) Ef einhver á blaðaleiðinni hefur misst ástvin nýlega gætirðu til dæmis notað tækifærið í næstu heimsóknum til að ræða hvað Biblían segir um eðli dauðans og upprisuvonina. Þú gætir notað efni úr Reasoning from the Scriptures (Rökræðubókinni) undir flettunni „Death“ (Dauði) og „Resurrection“ (Upprisa) til að semja stutta umfjöllun um einn ritningarstað. Í kjölfarið gæti verið eðlilegt að ræða um skyld viðfangsefni, svo sem hvernig sjúkdómum, ellihrörnun og dauða verður útrýmt. Kjarni málsins er sá að finna viðfangsefni, sem viðmælandinn hefur áhuga á, og sýna honum smám saman hvað Biblían segir um málið.
4. Af hverju er mikilvægt að hjálpa fólki að skilja ritningarstaði og hvernig getum við gert það?
4 Hjálpaðu fólki að skilja ritningarstaðinn: Best er að þessar umræður séu stuttar og á einföldum nótum en það er samt ekki nóg að lesa bara valinn ritningarstað. Satan hefur blindað huga manna fyrir fagnaðarerindinu. (2. Kor. 4:3, 4) Fólk þarf hjálp til að skilja Biblíuna jafnvel þó að það þekki vel til hennar. (Post. 8:30, 31) Þess vegna skaltu gefa þér tíma til að skýra textann og varpa ljósi á hann með líkingum eða dæmum, rétt eins og þú gerir þegar þú ert með verkefni í Boðunarskólanum. (Post. 17:3) Gættu þess að leiða viðmælandanum fyrir sjónir að orð Guðs varði hann og hafi raunhæfa þýðingu fyrir hann.
5. Hvernig er hægt að koma af stað biblíunámskeiði hjá fólki sem maður er með á blaðaleið?
5 Ef viðmælandinn hefur ánægju af því sem þú ert að miðla honum geturðu smám saman lengt umræðurnar og tekið fyrir tvo eða þrjá ritningarstaði í hverri heimsókn. Leitaðu færis að kynna Kröfubæklinginn eða Þekkingarbókina. Þannig geturðu kannski með tímanum komið af stað biblíunámskeiði hjá fólki sem er á blaðaleiðinni hjá þér.