Allir uppörvast saman
1. Hvaða sérstöku tækifæri fáum við þegar farandumsjónarmenn heimsækja söfnuðinn?
1 Páll postuli skrifaði til safnaðarins í Róm: „Ég þrái að sjá yður, til þess að ég fái veitt yður hlutdeild í andlegri náðargjöf, svo að þér styrkist, eða réttara sagt: Svo að vér getum uppörvast saman fyrir hina sameiginlegu trú, yðar og mína.“ (Rómv. 1:11, 12) Heimsóknir farandumsjónarmanna nú á tímum bjóða upp á svipuð tækifæri til að uppörvast saman.
2. Hvers vegna er heimsókn farandhirðis tilkynnt fyrirfram?
2 Söfnuðurinn: Heimsókn farandhirðisins er venjulega auglýst í söfnuðinum með um það bil þriggja mánaða fyrirvara. Með því móti getum við skipulagt tíma okkar svo að við njótum heimsóknarinnar til fulls. (Ef. 5:15, 16) Sértu í veraldlegri vinnu gætirðu ef til vill beðið um frí til að taka þátt í boðunarstarfinu í þeirri viku. Sumir gera ráðstafanir til að vera aðstoðarbrautryðjendur í mánuðinum sem heimsóknin stendur yfir. Ef þú hefur ætlað þér að vera í burtu gætirðu þá breytt því til að geta mætt þessa viku?
3. Hvað erum við hvött til að gera okkur til uppörvunar meðan á heimsókninni stendur?
3 Einn aðaltilgangurinn með heimsókn farandhirðis er að veita persónulega hvatningu og þjálfun í boðunarstarfinu. Getur þú fengið að starfa með honum eða eiginkonu hans sé hann kvæntur? Farandhirðirinn nýtur þess að starfa með mismunandi boðberum að meðtöldum þeim sem kunna að hafa litla reynslu í starfinu eða skortir færni. Allir geta lært af því hvernig hann leysir boðunarstarfið af höndum og nýtt sér uppástungur sem hann leggur góðfúslega til. (1. Kor. 4:16, 17) Þegar þú býður honum heim til þín í mat gefst enn frekar tækifæri til að uppörvast saman. (Hebr. 13:2) Þar sem ræður hans eru sniðnar að þörfum safnaðarins skaltu hlusta með athygli.
4. Hvernig getum við uppörvað farandhirðinn?
4 Farandhirðirinn: Páll postuli var í engu ólíkur bræðrunum sem hann þjónaði. Honum mættu einnig erfiðleikar og áhyggjur, og hann tók við uppörvun með þakklátum huga. (2. Kor. 11:26-28) Þegar fréttir bárust til safnaðarins í Róm um að Páll, sem nú var fangi, væri loks á leiðinni þangað fóru margir til móts við hann til Appíusartorgsins — 74 kílómetra vegalengd. „Þegar Páll sá þá, gjörði hann Guði þakkir og hresstist í huga.“ (Post. 28:15) Eins getur þú uppörvað farandhirðinn. Hafðu hann í „tvöföldum metum“ með því að sýna heimsókn hans fullan áhuga. (1. Tím. 5:17) Tjáðu og sýndu einlægt þakklæti þitt fyrir það sem hann gerir í þágu þína. Það gleður hann og eiginkonu hans þegar þau sjá trú þína, kærleika og þolgæði. — 2. Þess. 1:3, 4.
5. Hvers vegna þurfum við öll á uppörvun að halda?
5 Hverjir á meðal okkur þurfa ekki á uppörvun að halda á þessum ‚örðugu tíðum‘? (2. Tím. 3:1) Vertu nú þegar staðráðinn í að taka fullan þátt í þessari sérstöku starfsviku með farandhirðinum. Allir — bæði farandumsjónarmenn og boðberar — geta glaðir tekið þátt í að uppörvast saman. Þannig munum við líka ‚áminna hvert annað og uppbyggja hvert annað‘. — 1. Þess. 5:11.