Nýttu tímann í boðunarstarfinu sem best
1 Það er sannarlega mikið verk fyrir höndum í boðunarstarfinu og „tíminn er orðinn stuttur“. (1. Kor. 7:29; Jóh. 4:35) Við nýtum tímann í boðunarstarfinu sem best með því að vera skipulögð og gera ráðstafanir fram í tímann.
2 Undirbúðu þig: Áður en þú mætir í samansöfnun fyrir boðunarstarfið skaltu vera búinn að undirbúa kynningarorð og taka saman þau rit sem þú þarft að nota. Þegar samansöfnuninni hefur verið lokið með bæn skaltu fara beint á starfssvæðið. Þá getur þú og þeir sem fara með þér náð að gera sem mest á þeim tíma sem þið hafið tekið frá fyrir boðunarstarfið.
3 Ef þér er falið að hafa umsjón með samansöfnuninni skaltu sjá til þess að hún hefjist á réttum tíma. Gættu þess að hafa hana stutta — ekki lengri en 10 til 15 mínútur. Áður en þú lýkur samansöfnuninni skaltu sjá til þess að allir viti hvert þeir eigi að fara og með hverjum.
4 Í boðunarstarfinu: Eftir að samansöfnun lýkur er gott að staldra ekki of lengi við heldur gera sig strax kláran til að fara á starfssvæðið. Sjáirðu fram á að geta ekki verið lengi á starfssvæðinu geturðu kannski hagað málum þannig að þú komist sjálfur leiðar þinnar svo að hinir í hópnum þurfi ekki að hætta snemma. Þegar þú ert í hópstarfi er mikilvægt að sýna hinum tillitssemi, meðal annars þegar þeir bíða eftir að þú ljúkir samtali við húsráðanda. Það þýðir að þú gætir þurft að binda kurteislega enda á samræður við þrætugjarnan viðmælanda eða bjóðast til að koma aftur seinna til að ræða betur við áhugasaman húsráðanda. — Matt. 10:11.
5 Þegar þú ferð í endurheimsóknir geturðu sparað tíma með því að sinna öllum heimsóknum á einu svæði áður en þú ferð á það næsta. Stundum er hægt að hringja í fólk til að athuga hvort það sé heima. (Orðskv. 21:5) Ef þú býst við því að heimsóknin taki langan tíma er hægt að sjá til þess að þeir sem eru með þér geti starfað í grenndinni eða farið sjálfir í endurheimsókn.
6 Við lifum á tímum þar sem unnið er mikið andlegt uppskerustarf. (Matt. 9:37, 38) Bráðum líður að lokum uppskerunnar. Verum því staðráðin í að nýta tíma okkar í boðunarstarfinu sem allra best.