Berum rækilega vitni — í fjölbýlishúsum
1. Hvað er fólgið í því að bera fagnaðarerindinu rækilega vitni?
1 Pál postula langaði til að bera fagnaðarerindinu rækilega vitni. Við erum sama sinnis. (Post. 20:24) Þess vegna reynum við að koma boðskapnum um ríkið til eins margra og við getum, þar á meðal til allra þeirra sem búa í fjölbýlishúsum. Stundum er það erfiðleikum háð að ná til fólks sem býr í fjölbýlishúsum. Hins vegar búa þar margir á litlum bletti þannig að þar ætti að gefast gott tækifæri til að koma fagnaðarerindinu á framfæri.
2. Af hverju er mikilvægt að vera háttvís og sýna góða dómgreind þegar starfað er í fjölbýlishúsum?
2 Hættan á glæpum og ofbeldisverkum veldur því að fjölbýlishús eru að jafnaði læst, víða eru húsverðir og sums staðar mynddyrasímar og jafnvel eftirlitsmyndavélar. (2. Tím. 3:1, 2) Húsfélög geta sett þá reglu að ekki megi hleypa inn óboðnu fólki. Húsverðir geta átt það til að biðja okkur að yfirgefa húsið, ekki síst ef einhver af íbúunum kvartar. Það er því mikilvægt að vera háttvís og sýna góða dómgreind.
3. Hvenær er best að starfa í fjölbýlishúsum og hvers vegna?
3 Hvenær er best að starfa? Það gildir sama regla um fjölbýlishús og önnur starfssvæði að best er að starfa þegar líklegast er að við hittum fólk heima. Það getur vakið grunsemdir ef við erum á ferli þegar fáir eru heima. Mörgum boðberum hefur gengið vel að hitta fólk heima snemma kvölds og eins síðdegis á laugardögum og sunnudögum. Ef starfað er í fjölbýlishúsum of snemma morguns, ekki síst um helgar, aukast líkurnar á að kvartað sé við húsvörð.
4, 5. Hvernig er stundum hægt að ná sambandi við fólk í fjölbýlishúsum?
4 Að komast inn: Í fjölbýlishúsum, þar sem er húsvörður, er stundum gott að byrja á því að tala við hann. Nota má dyrasímann til að kanna hvort einhver vilji hleypa okkur inn til að tala við sig. Í sumum tilfellum getum við farið á milli íbúða í húsinu eftir að hafa talað við manneskjuna sem hleypti okkur inn. Við þurfum að sýna góða dómgreind og skynsemi þegar við ákveðum hve marga við heimsækjum með þessum hætti í sömu lotunni. Í öðrum tilfellum er betra að fara út úr stigaganginum aftur og nota dyrasímann til að ná sambandi við fólk í öðrum íbúðum.
5 Sumir vilja fá að vita í dyrasímanum hvert erindið sé. Ef svo er skaltu kynna þig vinsamlega. Þú gætir hugsanlega ávarpað viðmælandann með nafni því að yfirleitt standa nöfn íbúa við bjölluhnappana eða á töflu til hliðar við dyrasímann. Vertu stuttorður og nefndu hvað þú ætlir að tala um. Sumir hafa lesið kynningarorð beint upp úr Biblíusamræðubæklingnum með góðum árangri.
6. Hvað eigum við að gera ef tekið er fram í anddyrinu að kynningarstarf eða trúboð sé bannað í húsinu?
6 Í sumum fjölbýlishúsum er skýrt tekið fram á skilti í anddyrinu að allt kynningarstarf eða trúboð sé bannað. Okkur ber að virða það. Þar sem svo háttar til væri hægt að nota símann til að ná sambandi við íbúa eða skrifa þeim bréf.
7. Hvað er gott að hugsa um í sambandi við starfstöskuna?
7 Útlit og framkoma: Stórar og fyrirferðarmiklar starfstöskur gera okkur áberandi. Það gæti verið heppilegra að vera með litla tösku eða alls enga. Sumir boðberar eru með ritin, sem þeir ætla að bjóða, í þunnri möppu og Biblíuna í vasanum eða hendinni.
8. Hvað ætti að hafa í huga varðandi hópstarf í fjölbýlishúsum?
8 Ekki er heppilegt að safnast saman í stórum hópum á bílastæðum eða í anddyrum fjölbýlishúsa því að þá myndum við vekja óþarfa athygli á okkur. Og gott er að hafa í huga að í sumum hverfum getur verið varasamt að vera einn á ferli að kvöldlagi. (Orðskv. 22:3) Systur ættu að vera sérstaklega varkárar hvað þetta varðar.
9. Hvernig getum við sýnt almenna kurteisi og af hverju er það mikilvægt?
9 Þegar við göngum inn í stigagang er rétt að þurrka af sér og loka dyrunum vel á eftir sér. Það er almenn kurteisi og íbúar hafa þá ekki ástæðu til að kvarta undan umgengni okkar. Þegar við erum komin inn fyrir er best að ganga rakleiðis að lyftunni eða upp stigann til að komast á hæðina þar sem við ætlum að starfa. Við gætum vakið grunsemdir ef við dokuðum óþarflega lengi við niðri í anddyrinu.
10. Hvernig getum við forðast að valda óþarfa hávaða í stigagöngum?
10 Oft er hljóðbært í stigagöngum fjölbýlishúsa. Við ættum því ekki að tala hærra en þarf til að viðmælandinn heyri vel í okkur. Þegar boðberar tala saman ættu þeir að tala fremur lágri röddu en þó rólega og eðlilega til að vekja ekki á sér grunsemdir. Til að vekja ekki óþarfa athygli nota sumir boðberar þá aðferð að færa sig á milli hæða eftir að þeir hafa tekið eina íbúð, í stað þess að fara í einni lotu yfir allar íbúðir á hverri hæð. Þegar bankað er á dyr er gott að banka ekki of fast eða valdsmannslega. Það gæti skotið þeim skelk í bringu sem eru innan dyra.
11. Hvað getur verið gott að gera þegar bankað er á dyr þar sem er gægjugat?
11 Ef gægjugat er á hurð er best að boðberar standi þannig að þeir sjáist vel. Horfið beint í gægjugatið og brosið vingjarnlega ef þið sjáið hreyfingu innan við dyrnar. Ef húsráðandi spyr gegnum lokaðar dyr hverjir þið séuð er best að segja til nafns. Þá er líklegra að hann opni. Ef ekki, væri hægt að bera upp erindið þótt dyrnar séu lokaðar.
12. Hvað er gott að gera þegar enginn er heima?
12 Ef enginn er heima: Ekki ætti að skilja eftir rit liggjandi fyrir framan dyr hjá fólki. Best er að skrifa hjá sér nöfn húsráðenda eða númer íbúðar og setja rit í póstkassann niðri í anddyri um leið og þið yfirgefið húsið nema greinilega sé merkt á póstkassann að ómerktur póstur sé afþakkaður.
13. Hvað á að gera ef húsráðandi bregst ókvæða við heimsókn okkar?
13 Ef húsráðandi reiðist: Ef húsráðandi bregst ókvæða við því að við skulum banka upp á hjá honum er best að yfirgefa hæðina eða stigaganginn og koma aftur síðar í stað þess að lenda í útistöðum. Jafnvel þó að húsráðandi taki ekki sérstaklega fram að hann vilji ekki fá frekari heimsóknir ættu boðberar samt að skrá hjá sér númer íbúðar eða nafn húsráðanda. Síðan ættu þeir að setja miða með svæðiskortinu með ábendingu um að heimsækja ekki viðkomandi íbúð. Eins og annars staðar þar sem fólk hefur látið í ljós að það óski ekki eftir heimsóknum ætti af og til að kanna afstöðu viðkomandi.
14, 15. Hvað eigum við að gera ef húsvörður eða íbúi biður okkur að yfirgefa húsið?
14 Ef þið eruð beðin að yfirgefa húsið: Ef húsvörður eða einhver af íbúunum biður ykkur að yfirgefa húsið er best að gera það þegar í stað. Við viljum forðast árekstra eftir því sem frekast er kostur. Húsverðir eru sjaldan haldnir fordómum í garð votta Jehóva heldur eru þeir yfirleitt bara að sinna starfi sínu.
15 Ef húsvörður eða einhver annar biður ykkur að yfirgefa húsið er stundum hægt að útskýra með vinsemd og háttvísi hvers vegna þið séuð á ferðinni. (1. Pét. 3:15) Það er hlutverk húsvarðarins að gæta hagsmuna íbúanna og tryggja öryggi þeirra og húsnæðisins. Ef til vill leyfir hann ykkur þá að halda áfram boðuninni. Ef ekki, er best að yfirgefa húsið án þess að hreyfa mótmælum. (Kól. 4:6) Ef til vill mætti skilja eftir rit í póstkössum. Ekki ætti þó að láta rit í póstkassa hjá þeim sem afþakka ómerktan póst. Rétt er að láta starfshirðinn vita af atvikum sem lýst er hér að ofan.
16. Hvað getum við gert ef ekki er hægt að fara milli íbúða eða nota dyrasímann til að vitna?
16 Að hæfilegum tíma liðnum gæti boðberi reynt að starfa aftur í húsinu svo lítið beri á. Ef ekki er hægt að boða trúna í húsinu með því að fara milli íbúða eða nota dyrasímann má reyna að hringja í íbúa eða senda þeim bréf. Sumir boðberar vitna fyrir fólki fyrir utan húsið að morgni þegar fólk er að fara til vinnu eða undir kvöld um það leyti sem það kemur heim úr vinnu.
17. Af hverju er mikilvægt að vitna fyrir fólki sem býr í fjölbýlishúsum?
17 Þessi illi heimur, sem við búum í, líður bráðlega undir lok. Þeir einir bjargast sem ákalla nafn Jehóva. „En hvernig eiga menn að geta ákallað þann sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann sem þeir hafa ekki heyrt um?“ (Rómv. 10:13, 14) Við getum komið fagnaðarerindinu til fólks í fjölbýlishúsum ef við erum háttvís og sýnum góða dómgreind.