Ert þú tilbúinn að laga þig að aðstæðum?
1. Hvað þurfum við að gera þar sem heimurinn tekur sífelldum breytingum?
1 Í 1. Korintubréfi 7:31 er heiminum líkt við leiksvið með síbreytilegri sviðsmynd og leikurum. Breytingar í heimunum krefjast þess að við hugum að og aðlögum starfsaðferðir okkar, tímaáætlun og hvernig við komum boðskapnum á framfæri. Ertu tilbúinn að laga þig að aðstæðum?
2. Af hverju þurfum við að vera fús til að laga okkur að aðstæðum til að halda í við söfnuð Jehóva?
2 Starfsaðferðir: Kristni söfnuðurinn hefur alla tíð lagað sig að breyttum aðstæðum. Þegar Jesús sendi fyrst út lærisveina sína sagði hann þeim að taka hvorki með sér mat né peninga. (Matteus 10:9, 10) Seinna meir sagði hann þeim að gera hið gagnstæða því að hann vissi að lærisveinarnir myndu mæta andstöðu og að þeir ættu eftir að boða fagnaðarerindið á fleiri stöðum en á heimasvæði sínu. (Lúkas 22:36) Á síðustu öld notuðust Vottar Jehóva við ýmsar aðferðir til að koma boðskapnum á framfæri, þar má nefna boðunarspjöld, útvarpsþætti og hátalarabíla. Þeir notuðu þær leiðir sem virkuðu best hverju sinni. Nú á dögum er víða erfitt að finna fólk heima og þess vegna hefur verið hvatt til þess að grípa öll tækifæri sem gefast eða fara í götustarfið, samhliða starfi okkar hús úr húsi. Við höfum líka verið hvött til að ganga í hús á kvöldin ef fólk er að vinna á daginn. Heldurðu í við himneskan vagn Jehóva þegar hann breytir um stefnu? – Esek. 1:20, 21.
3. Hvernig getum við náð betri árangri í boðunarstarfinu ef við lögum okkur að aðstæðum?
3 Umræðuefni: Hvað er það sem veldur fólki áhyggjum á starfssvæðinu? Efnahagurinn? Fjölskyldan? Stríðsástand? Það er mikilvægt að vera meðvitaður um algeng vandamál og aðstæður sem koma upp á svæðinu svo að við getum rætt um það sem fólki er ofarlega í huga þá stundina. (1. Kor. 9:20-23) Væri ekki betra að laga okkur að aðstæðum og ræða um áhyggjur húsráðenda þegar þeir tjá sig, í stað þess að gefa þeim staðlað svar og halda svo bara áfram með blaðakynninguna sem við vorum búin að undirbúa?
4. Af hverju ættum við að vera fljót að laga okkur að aðstæðum?
4 Lokaþáttur þessa heims er senn á enda og þrengingin mikla skellur á. „Tíminn er orðinn naumur.“ (1. Kor. 7:29) Það er því einkar mikilvægt að við lögum okkur að aðstæðum og gerum það án tafar svo að við getum nýtt vel þann stutta tíma sem eftir er.