Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w25 ágúst bls. 20-25
  • Við getum sigrað í baráttunni við rangar langanir

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Við getum sigrað í baráttunni við rangar langanir
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • HVERNIG VILL SATAN AÐ OKKUR LÍÐI?
  • HVERNIG GÆTUM VIÐ HUGSAÐ VEGNA ÞESS AÐ VIÐ FÆÐUMST SYNDUG?
  • HVERNIG GETUM VIÐ SIGRAÐ?
  • RANNSAKIÐ YKKUR STÖÐUGT
  • Verum á verði gegn freistingum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
  • Fylgdu Jesú stöðugt eftir skírnina
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
  • Hvað hefur Jehóva gert til að bjarga syndugum mönnum?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2024
  • Ákvarðanir sem sýna að við reiðum okkur á Jehóva
    Líf okkar og boðun - vinnubók fyrir samkomur – 2023
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
w25 ágúst bls. 20-25

NÁMSGREIN 35

SÖNGUR 121 Sýnum sjálfsaga

Við getum sigrað í baráttunni við rangar langanir

„Látið því ekki syndina ríkja áfram sem konung í dauðlegum líkama ykkar svo að þið hlýðið girndum hans.“ – RÓMV. 6:12.

Í HNOTSKURN

Við getum fengið hjálp til að (1) berjast gegn vanmáttarkennd og (2) standast freistingar.

1. Í hvaða baráttu erum við öll?

HEFUR þú einhvern tíma haft sterka löngun til að gera það sem er Jehóva vanþóknanlegt? Ef svo er skaltu ekki missa móðinn. Biblían segir: „Þið hafið ekki orðið fyrir öðrum freistingum en algengt er meðal manna.“ (1. Kor. 10:13) Þetta merkir að hvaða röngu langanir sem þú ert að berjast við þá eru fleiri í sömu sporum. Þú ert ekki einn og með hjálp Jehóva geturðu sigrað í baráttunni.

2. Hvers konar rangar langanir gætu sumir þjónar Jehóva og biblíunemendur átt í baráttu við? (Sjá einnig myndir.)

2 Biblían segir líka: „Það er girnd hvers og eins sem reynir hann með því að lokka hann og tæla.“ (Jak. 1:14) Það er með öðrum orðum breytilegt hvað freistar hvers og eins. Fyrir suma þjóna Guðs gæti það til dæmis verið freisting að drýgja siðleysi með einhverjum af hinu kyninu, en fyrir aðra með einhverjum af sama kyni. Þeir sem hafa hætt að horfa á klám gætu fundið sterka löngun til að gera það aftur. Og mörgum sem hafa hætt að neyta fíkniefna eða áfengis líður eins. Þetta eru bara fáein dæmi um það sem sumir þjónar Jehóva og biblíunemendur berjast við. Okkur hefur líklega öllum einhvern tíma liðið eins og Páli postula sem sagði: „Þegar ég vil gera það sem er rétt hef ég tilhneigingu til að gera það sem er illt.“ – Rómv. 7:21.

Freisting getur óvænt skotið upp kollinum – hvenær og hvar sem er. (Sjá 2. grein.)c


3. Hvaða áhrif geta þrálátar rangar langanir haft á einstakling?

3 Ef þú átt í baráttu við þrálátar rangar langanir gæti þér liðið eins og þú sért ekki megnugur að standast freistinguna. Þú gætir líka fundið fyrir vonleysi, og liðið eins og Jehóva hafi ekki velþóknun á þér vegna þessara röngu langana. En þú getur verið viss um að hvorugt á við rök að styðjast! Í þessari námsgrein fáum við svör við eftirfarandi spurningum: (1) Hvaðan koma tilfinningar vanmáttar og vonleysis? (2) Hvernig geturðu barist gegn röngum löngunum?

HVERNIG VILL SATAN AÐ OKKUR LÍÐI?

4. (a) Hverju vill Satan að við trúum þegar við verðum fyrir freistingum? (b) Hvers vegna getum við verið viss um að við getum staðið gegn röngum löngunum?

4 Satan vill að okkur finnist við ekki geta staðið gegn röngum löngunum. Jesús staðfesti þetta þegar hann kenndi fylgjendum sínum að biðja: „Leiddu okkur ekki í freistingu heldur frelsaðu okkur frá hinum vonda.“ (Matt. 6:13) Satan heldur því fram að menn vilji ekki hlýða Jehóva þegar þeir verða fyrir freistingu til að gera rangt. (Job. 2:4, 5) Þetta kemur úr hörðustu átt! Satan er sá sem lét tælast af eigin girnd og var ekki tilbúinn að vera Jehóva trúfastur. Hann álítur augljóslega að við séum eins og hann, tilbúin að yfirgefa Jehóva þegar okkar er freistað. Satan hélt jafnvel að fullkominn sonur Guðs myndi láta undan freistingu! (Matt. 4:8, 9) En erum við í raun og veru vanmáttug í baráttu okkar við rangar langanir? Síður en svo! Við erum á sama máli og Páll postuli sem skrifaði: „Ég get tekist á við hvað sem er vegna hans sem gefur mér kraft.“ – Fil. 4:13.

5. Hvernig vitum við að Jehóva treystir því að við getum barist gegn röngum löngunum?

5 Ólíkt Satan treystir Jehóva að við getum staðist í baráttunni við rangar langanir. Hvernig vitum við það? Vegna þess að Jehóva sagði fyrir að mikill múgur trúfastra einstaklinga myndi lifa í gegnum þrenginguna miklu. Pælum aðeins í því. Jehóva, sem getur ekki logið, segir að stór hópur manna – ekki bara fáeinir einstaklingar – komist inn í nýjan heim. Þeir eru hreinir vegna þess að þeir hafa „þvegið skikkjur sínar skjannahvítar í blóði lambsins“. (Opinb. 7:9, 13, 14) Jehóva álítur okkur augljóslega ekki vanmáttug í baráttunni við rangar langanir.

6, 7. Hvers vegna vill Satan að okkur finnist við vonlaus í baráttunni við freistingar?

6 Satan vill ekki einungis að við finnum fyrir vanmætti heldur líka að okkur finnist við vonlaus – að Jehóva dæmi okkur fyrir að finna fyrir röngum löngunum. Enn á ný er þetta kaldhæðnislegt. Satan er sá sem er vonlaus, dæmdur af Jehóva og ekki verðugur eilífs lífs. (1. Mós. 3:15; Opinb. 20:10) Satan vill örugglega að við finnum líka fyrir vonleysi – sérstaklega vegna þess að við höfum von um að fá þá blessun sem honum er fyrirmunað að fá. En við erum ekki án vonar. Biblían sýnir fram á að Jehóva vill hjálpa okkur en ekki fordæma. Hann „vill ekki að neinn farist heldur að allir fái tækifæri til að iðrast“. – 2. Pét. 3:9.

7 Ef við stöndum í þeirri trú að við séum annað hvort vanmáttug eða vonlaus í baráttunni við rangar langanir þá hugsum við eins og Satan vill að við gerum. Að átta okkur á því getur hjálpað okkur að standa ákveðin á móti honum. – 1. Pét. 5:8, 9.

HVERNIG GÆTUM VIÐ HUGSAÐ VEGNA ÞESS AÐ VIÐ FÆÐUMST SYNDUG?

8. Hvað merkir orðið synd í Biblíunni fleira en röng verk? (Sálmur 51:5) (Sjá einnig orðaskýringu.)

8 Það er fleira en Satan sem getur orsakað að við finnum fyrir vanmætti og vonleysi í baráttunni við rangar langanir. Hvað er það? Syndugt eðli okkar sem við erfðum frá fyrstu foreldrum mannkynsins.a – Job. 14:4; lestu Sálm 51:5.

9, 10. (a) Hvaða áhrif hafði syndin á Adam og Evu? (Sjá einnig mynd.) (b) Hvaða áhrif hefur syndin á okkur?

9 Ígrundum hvaða áhrif syndin hafði á Adam og Evu. Eftir að hafa óhlýðnast Jehóva földu þau sig og reyndu að hylja líkama sína. Bókin Insight on the Scriptures segir um þetta: „Syndin varð til þess að þau upplifðu sektarkennd, kvíða, öryggisleysi og skömm.“ Það var rétt eins og Adam og Eva væru læst inni í húsi með fjórum herbergjum. Þau gátu farið úr einu herbergi í annað en ekki út úr húsinu. Þau gátu ekki umflúið syndugt eðli sitt.

10 Við erum auðvitað ekki í sömu aðstæðum og Adam og Eva. Lausnargjaldið – sem nær ekki til fyrstu hjónanna – getur hreinsað okkur af syndum og gert okkur kleift að hafa hreina samvisku. (1. Kor. 6:11) En við fengum engu að síður syndugt eðli í arf. Það kemur því ekki á óvart að við upplifum líka sektarkennd, kvíða, öryggisleysi og skömm. Biblían segir reyndar að syndin haldi mannkyninu í greipum sér. Og hún hefur jafnvel gert það gagnvart „þeim sem [hafa] ekki syndgað á sama hátt og Adam“. (Rómv. 5:14) Þó að þetta sé niðurdrepandi þurfum við samt ekki að álíta okkur vanmáttug eða vonlaus. Við getum hafnað slíkum neikvæðum tilfinningum. Hvernig?

Adam og Eva yfirgefa Edengarðinn með skömm, klædd í dýraskinn.

Syndin vakti sektarkennd, kvíða, öryggisleysi og skömm hjá Adam og Evu. (Sjá 9. grein.)


11. Hvað ættum við að gera ef okkur finnst við vera vanmáttug og hvers vegna? (Rómverjabréfið 6:12)

11 Vegna ófullkomleikans getur okkur stundum liðið eins og við gætum ekki staðið gegn röngum löngunum. Það er eins og innri rödd segi okkur að þetta sé vonlaus barátta. En við ættum ekki að hlusta á hana. Biblían segir að við þurfum ekki að láta syndina „ríkja áfram sem konung“ yfir okkur. (Lestu Rómverjabréfið 6:12.) Þetta merkir að við getum valið að láta ekki undan röngum löngunum. (Gal. 5:16) Jehóva treystir því að við getum staðist freistingu. Annars hefði hann ekki ætlast til þess af okkur. (5. Mós. 30:11–14; Rómv. 6:6; 1. Þess. 4:3) Það er greinilegt að við erum ekki vanmáttug í baráttunni við rangar langanir.

12. Hvernig ættum við að bregðast við þegar okkur finnst við vonlaus og hvers vegna?

12 Þegar okkur finnst við vera vonlaus – að Jehóva dæmi okkur fyrir rangar hvatir – ættum við ekki heldur að hlusta á þessa innri rödd ófullkomleikans. Við ættum ekki að leyfa henni að tala okkur niður. Biblían sýnir að Jehóva skilur syndugar tilhneigingar okkar. (Sálm. 103:13, 14) Hann „veit allt“ um okkur, þar á meðal hvernig mismunandi þættir hins synduga eðlis sem við fengum í arf orsaka rangar tilhneigingar. (1. Jóh. 3:19, 20) Eins lengi og við látum ekki undan þessum syndugu tilhneigingum heldur berjumst gegn þeim höfum við hreina stöðu frammi fyrir Jehóva. Hvernig getum við verið viss um það?

13, 14. Merkir það eitt að við höfum rangar langanir að við höfum syndgað? Skýrðu svarið.

13 Biblían gerir greinarmun á því að iðka það sem er rangt (sem við getum stjórnað) og löngun til að gera það (sem getur skotið upp kollinum gegn vilja okkar). Sumir kristnir menn í Korintu á fyrstu öld höfðu stundað líferni samkynhneigðra. Páll skrifaði: „Þannig voruð þið sumir ykkar.“ Þýddi þetta að þeir fyndu aldrei aftur til slíkra hneigða? Það er ekki raunsætt að álykta það þar sem slíkar hneigðir eru oft djúpstæðar. En kristnir menn sem iðkuðu sjálfstjórn fylgdu ekki löngunum sínum og voru Jehóva velþóknanlegir. Í hans augum höfðu þeir „hreinsast“. (1. Kor. 6:9–11) Það sama getur átt við um þig.

14 Án tillits til hvaða röngu langanir þú glímir við geturðu sigrað í baráttunni við þær. Jafnvel þótt þú getir ekki upprætt þær geturðu iðkað sjálfstjórn og forðast að láta „vilja holdsins og hugsana“ þinna ráða ferðinni. (Ef. 2:3) Hvernig geturðu gert það og sigrast þannig á röngum löngunum?

HVERNIG GETUM VIÐ SIGRAÐ?

15. Hvers vegna þurfum við að vera heiðarleg við okkur sjálf til að sigra í baráttunni við rangar langanir?

15 Ef þú vilt sigra í baráttunni við rangar langanir þarftu að vera heiðarlegur við sjálfan þig og horfast í augu við veikleika þína. Gættu þess að blekkja ekki sjálfan þig „með villandi rökum“. (Jak. 1:22) Það gerir þér bara erfiðara fyrir að standast freistingu ef þú gerir lítið úr vandamálinu með því að segja: „Aðrir drekka meira en ég.“ Eða með því að koma sökinni yfir á aðra: „Það myndi ekki freista mín að horfa á klám ef konan mín sýndi mér meiri ástúð.“ Ekki reyna að réttlæta ranga breytni, ekki einu sinni í huganum. Taktu ábyrgð á gerðum þínum. – Gal. 6:7.

16. Hvernig geturðu verið enn einbeittari í að gera það sem er rétt?

16 Auk þess að vera heiðarlegur og horfast í augu við veikleika þína þarftu að vera einbeittur í að láta ekki undan þeim. (1. Kor. 9:26, 27; 1. Þess. 4:4; 1. Pét. 1:15, 16) Taktu eftir því hvar þú ert veikastur fyrir og hvenær. Það gæti verið um ákveðna freistingu að ræða eða einhvern tíma dagsins sem þú ert veikur fyrir. Ertu til dæmis veikari fyrir þegar þú ert þreyttur eða seint á kvöldin? Vertu viðbúinn freistingunni og æfðu þig í huganum hvernig þú ætlar að bregðast við. Besti tíminn til að gera þetta er áður en þú verður fyrir freistingunni. – Orðskv. 22:3.

17. Hvað getum við lært af Jósef? (1. Mósebók 39:7–9) (Sjá einnig myndir.)

17 Ígrundum hvernig Jósef brást við þegar eiginkona Pótífars reyndi að tæla hann. Hann hafnaði henni samstundis og mjög ákveðið. (Lestu 1. Mósebók 39:7–9.) Hvað lærum við? Jósef var með það á hreinu hvað honum fannst um að vera með eiginkonu annars manns áður en kona Pótífars reyndi að tæla hann. Þú getur líka verið einbeittur í að gera það sem er rétt áður en freisting verður á vegi þínum. Þannig verður auðveldara fyrir þig að standa með ákvörðuninni sem þú hefur tekið áður en þín er freistað.

Myndir: 1. Jósef flýr frá eiginkonu Pótífars en hún heldur á yfirhöfn hans. 2. Unglingur sem er vottur gengur burt þegar stelpa í skólanum daðrar við hann.

Hafnaðu freistingunni strax eins og Jósef gerði. (Sjá 17. grein.)


RANNSAKIÐ YKKUR STÖÐUGT

18. Hvernig geturðu sigrað í baráttunni við rangar langanir? (2. Korintubréf 13:5)

18 Til að vinna í baráttunni við rangar langanir þarftu að ‚rannsaka þig stöðugt‘ – það er að segja skoða reglulega hvar þú stendur. (Lestu 2. Korintubréf 13:5.) Skoðaðu af og til hugarfar þitt og breytni og gerðu úrbætur þar sem þörf er á. Jafnvel eftir að þú hefur staðist freistingu gætirðu spurt: „Hversu langan tíma tók það mig að segja nei?“ Ef þú uppgötvar að þú varst lengi að ákveða þig skaltu ekki dæma þig hart. Styrktu þess í stað varnir þínar. Spyrðu spurninga eins og: „Get ég verið fljótari að vísa óviðeigandi hugsunum á brott? Vel ég afþreyingu sem gerir mér erfiðara fyrir að standast freistingu? Sný ég augum mínum samstundis frá siðlausum myndum eða senum? Skil ég að mælikvarði Jehóva er mér alltaf fyrir bestu, líka þegar hann ætlast til þess að ég temji mér sjálfstjórn?“ – Sálm. 101:3.

19. Hvernig gætu óskynsamlegar ákvarðanir sem virðast smávægilegar gert okkur erfiðara fyrir að berjast gegn röngum löngunum?

19 Þú ættir líka að forðast að réttlæta ranga hegðun. Biblían segir: „Hjartað er svikulla en nokkuð annað og örvæntingarfullt.“ (Jer. 17:9) Jesús sagði að frá hjartanu kæmu „illar hugsanir“. (Matt. 15:19) Sá sem er hættur að horfa á klám gæti til dæmis talið sér trú um að það væri „óhætt“ að skoða kynæsandi myndir vegna þess að þær sýndu ekki nekt. Eða hann gæti hugsað sem svo að það sé ekkert að því að gæla við rangar langanir svo lengi sem hann brýtur ekki af sér. Í vissum skilningi er hið svikula hjarta hans að „upphugsa leiðir til að fullnægja löngunum holdsins“. (Rómv. 13:14) Hvernig geturðu forðast þetta? Forðastu ákvarðanir sem virðast smávægilegar en eru samt óskynsamlegar. Þær leiða af sér stórar óskynsamlegar ákvarðanir eins og að láta undan syndinni.b Hafnaðu líka hugarfari eða ‚illum hugsunum‘ sem fá þig til að afsaka ranga breytni.

20. Hver er framtíðarvon okkar og hvaða hjálp fáum við núna?

20 Eins og við höfum séð getum við með hjálp Jehóva fengið kraft til að standast freistingar. Og vegna miskunnar hans eigum við von um eilíft líf í nýjum heimi. Hvílíkur léttir að geta þjónað Jehóva með hreinum huga og hjarta! En fram að þeim tíma megum við vera viss um að við erum hvorki vanmáttug né vonlaus í baráttunni við rangar langanir. Þegar Jehóva blessar viðleitni okkar getum við sigrað!

HVERJU SVARAR ÞÚ?

  • Hvað hjálpar okkur að takast á við vanmáttarkennd og vonleysi?

  • Hvernig getum við komið í veg fyrir að ‚syndin ríki sem konungur‘ yfir okkur?

  • Hvernig getum við ‚stöðugt rannsakað‘ okkur sjálf?

SÖNGUR 122 Verum staðföst og óbifanleg

a ORÐASKÝRING: Í Biblíunni merkir orðið „synd“ oft verk eins þjófnað, hórdóm eða morð. (2. Mós. 20:13–15; 1. Kor. 6:18) En í sumum ritningarstöðum á orðið „synd“ við um það ófullkomna ástand sem við fæðumst í jafnvel þótt við höfum ekki drýgt neina synd enn þá.

b Taktu eftir að ungi maðurinn sem sagt er frá í Orðskviðunum 7:7–23 tók margar smáar en óviturlegar ákvarðanir áður en hann tók stóru óskynsamlegu ákvörðunina um að láta undan lönguninni að hafa kynmök við konuna.

c MYND: Vinstri: Ungur bróðir sem situr á kaffihúsi veitir því athygli þegar tveir karlmenn tjá hvor öðrum ástúð. Hægri: Systir tekur eftir fólki að reykja.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila