Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w25 ágúst bls. 26-30
  • Vegferð mín frá feimni til trúboðsstarfs

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Vegferð mín frá feimni til trúboðsstarfs
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • ÉG BYRJA AÐ ÞJÓNA Í FULLU STARFI
  • MEÐ TRÚBOÐSSTARF AÐ MARKMIÐI
  • ÞJÓNUSTA Í STRÍÐSHRJÁÐU LANDI
  • NÝJAR ÁSKORANIR
  • PERSÓNULEGIR ERFIÐLEIKAR
  • ÞAKKLÁT FYRIR STUÐNING JEHÓVA
  • Dýrmætara en núverandi líf
    Vaknið! – 2011
  • Boðunarátak í Búlgaríu ber góðan árangur
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2010
  • Jehóva hefur ,gert leiðir mínar greiðar‘
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2021
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2025
w25 ágúst bls. 26-30
Marianne Wertholz.

ÆVISAGA

Vegferð mín frá feimni til trúboðsstarfs

MARIANNE WERTHOLZ SEGIR FRÁ

ÞEGAR ég var barn var ég feimin og hrædd við fólk. En með tímanum hjálpaði Jehóva mér að verða trúboði sem lætur sér annt um aðra. Hvernig? Fyrst var það með leiðsögn föður míns. Síðan var það fordæmi systur á unglingsaldri. Og loks voru það hlýleg orð og þolinmæði mannsins míns. Leyfðu mér að segja þér frá vegferð minni.

Ég fæddist í Vín í Austurríki árið 1951 og fjölskylda mín var kaþólsk. Ég var feimin en ég trúði á Guð og bað oft til hans. Þegar ég var níu ára byrjaði pabbi minn að kynna sér Biblíuna með hjálp votta Jehóva og fljótlega fór mamma líka að kynna sér málin.

Elisabeth systir (til vinstri) og ég.

Fljótlega tilheyrðum við Döblingsöfnuðinum í Vín. Við gerðum margt saman sem fjölskylda. Við lásum og rannsökuðum Biblíuna, sóttum safnaðarsamkomur og vorum sjálfboðaliðar á mótum. Snemma á æskuárum mínum hjálpaði pabbi mér að rækta djúpan kærleika til Jehóva. Reyndar bað hann í bænum sínum að við systurnar yrðum brautryðjendur. En á þessum tíma var það ekki markmið mitt.

ÉG BYRJA AÐ ÞJÓNA Í FULLU STARFI

Ég lét skírast árið 1965 þegar ég var 14 ára. En ég átti erfitt með að hefja samræður við ókunnuga í boðuninni. Auk þess glímdi ég við minnimáttarkennd og mig sárlangaði til að njóta viðurkenningar annarra unglinga. Þannig verkaðist það að stuttu eftir skírnina fór ég að eiga félagsskap við fólk sem þjónaði ekki Jehóva. Þó svo að mér þætti gaman að umgangast þetta fólk var ég með samviskubit yfir því að vera svona mikið með fólki sem tilheyrði ekki söfnuðinum. En ég hafði ekki kjark til að breyta því. Hvað kom mér til hjálpar?

Marianne og Dorothée.

Ég lærði mjög mikið af Dorothée. (til vinstri)

Um þessar mundir kom Dorothée, sem var 16 ára, í söfnuðinn okkar. Ég undraðist kappsemi hennar í boðuninni hús úr húsi. Ég var aðeins eldri en hún en ekki mjög virk í boðuninni. Ég hugsaði með mér: Foreldrar mínir eru vottar en fjölskylda Dorothée er ekki í sannleikanum. Hún býr með veikri móður sinni en er samt alltaf úti í boðuninni. Fordæmi hennar hvatti mig til að gera meira fyrir Jehóva. Fljótlega urðum við Dorothée brautryðjandafélagar. Fyrst vorum við aðstoðarbrautryðjendur, sem þá var kallað frítímabrautryðjendur, og seinna meir þjónuðum við sem reglulegir brautryðjendur. Eldmóður Dorothée var smitandi. Hún hjálpaði mér að hefja fyrsta biblíunámskeiðið mitt. Með tímanum varð ég afslappaðri þegar ég hóf samræður við fólk í heimahúsum, úti á götu og við aðrar aðstæður.

Á fyrsta ári mínu í brautryðjendastarfi kom ungur bróðir, Heinz að nafni, í söfnuðinn okkar. Hann hafði kynnst sannleikanum í Kanada þar sem hann var að heimsækja bróður sinn sem var vottur. Heinz var sendur í söfnuðinn okkar í Vín sem sérbrautryðjandi. Ég varð strax hrifin af honum. Hann vildi verða trúboði, en ég hafði ekki hugsað mér neitt slíkt. Þess vegna duldi ég í fyrstu tilfinningar mínar til hans. En síðar meir fórum við að vera saman og giftum okkur. Síðan störfuðum við saman sem brautryðjendur í Austurríki.

MEÐ TRÚBOÐSSTARF AÐ MARKMIÐI

Heinz ræddi oft við mig um löngun sína til að verða trúboði. Hann þrýsti aldrei á mig en spurði mig hvetjandi spurninga eins og: „Heldurðu ekki að við gætum gert meira í þjónustu Jehóva fyrst við erum barnlaus?“ Feimnin gerði það að verkum að ég óttaðist trúboðsstarfið. Ég var að vísu brautryðjandi en mér fannst yfirþyrmandi að hugsa um trúboðsstarf. Heinz var hins vegar þolinmóður og hélt hugmyndinni lifandi. Hann hvatti mig líka til að einbeita mér meira að því að láta mér annt um fólk frekar en að hafa of miklar áhyggjur af sjálfri mér. Ráð hans hjálpuðu mér.

Heinz sér um Varðturnsnámið í litlum júgóslavneskum söfnuði í Salzburg í Austurríki árið 1974.

Með tímanum vaknaði hjá mér löngun til að fara út í trúboðsstarf þannig að við sóttum um að fara í Gíleaðskólann. En umsjónarmaður deildarskrifstofunnar hvatti mig til að bæta fyrst enskukunnáttu mína. Eftir að hafa farið eftir ráðum hans í þrjú ár vorum við undrandi að fá úthlutað verkefni í júgóslavneskum söfnuði í Salzburg í Austurríki. Við störfuðum á því svæði næstu sjö árin og þar af eitt ár í farandstarfinu. Serbó-króatíska var erfitt tungumál, en við stjórnuðum samt mörgum biblíunámskeiðum.

Svo var það árið 1979 að við vorum beðin um að fara í „frí“ til Búlgaríu. Boðunin var bönnuð þar í landi. Við boðuðum því ekki trú okkar í þessu fríi. En við smygluðum smækkuðum útgáfum af ritum okkar inn í landið. Þau voru ætluð fimm systrum sem bjuggu í höfuðborginni Sofíu. Ég var skelfingu lostin, en Jehóva hjálpaði mér að takast á við þetta spennandi verkefni. Hugrekki og gleði þessara systra, þrátt fyrir að geta lent í fangelsi, gaf mér styrk til að gera mitt besta í öllum þeim verkefnum sem söfnuður Jehóva myndi fela mér.

Við höfðum í millitíðinni sent inn aðra umsókn í Gíleaðskólann og að þessu sinni var hún samþykkt. Við áttum von á að sækja skólann á ensku í Bandaríkjunum. En í nóvember 1981 var útibú Gíleaðskólans sett á laggirnar við deildarskrifstofuna í Wiesbaden í Þýskalandi. Við gátum því sótt skólann á þýsku, sem auðveldaði mér að skilja námsefnið. En hvert yrðum við send?

ÞJÓNUSTA Í STRÍÐSHRJÁÐU LANDI

Við vorum send til Keníu. En deildarskrifstofan í Keníu spurði okkur hvort við værum fús til að þjóna í nágrannalandinu Úganda. Meira en tíu árum áður hafði ríkisstjórn Úganda verið steypt af stóli í valdaráni hersins undir forystu hershöfðingjans Idis Amins. Næstu árin leiddi harðstjórn hans dauða yfir þúsundir manna og glundroða yfir milljónir. Árið 1979 var stjórn Úganda aftur steypt af stóli. Ég var vægast sagt ekki í rónni að flytja til stríðshrjáðs lands. En Gíleaðskólinn hafði kennt okkur að treysta Jehóva. Svo að við sögðum já.

Það ríkti algjör glundroði í Úganda. Heinz lýsti ástandinu með þessum orðum í Árbókinni 2010: „Innviðirnir … svo sem vatnsveita, símasamband og póstþjónusta lágu niðri … Skotbardagar og rán voru daglegt brauð, sérstaklega að næturlagi … Allir héldu sig innandyra og vonuðu – og báðu gjarnan – að engir óboðnir gestir birtust um nóttina.“ Þrátt fyrir allt þetta döfnuðu bræður okkar og systur á staðnum andlega.

Matarundirbúningur á heimili Waiswa-fjölskyldunnar.

Við Heinz komum til Kampala höfuðborgar Úganda árið 1982. Fyrstu fimm mánuðina vorum við á heimili Sams og Christinu Waisawa ásamt börnunum þeirra fimm og fjórum skyldmennum. Bróðir og systir Waisawa og fjölskylda þeirra borðaði oft aðeins eina máltíð á dag sem gerir gestrisni þeirra enn þá markverðari. Meðan við dvöldum hjá þeim lærðum við Heinz margar hagnýtar lexíur sem áttu eftir að hjálpa okkur í trúboðsstarfinu síðar meir. Við lærðum til dæmis að fara sparlega með vatn með því að nota bara nokkra lítra til að þvo okkur og nota síðan skolvatnið til að sturta niður. Árið 1983 fluttum við Heinz í hús í tiltölulega öruggu hverfi í Kampala.

Við höfðum yndi af þjónustunni. Ég minnist þess að einn mánuðinn dreifðum við meira en 4.000 blöðum. En best af öllu var fólkið sjálft. Það bar virðingu fyrir Guði og langaði til að tala um Biblíuna. Við Heinz stjórnuðum hvort okkar að jafnaði 10 til 15 biblíunámskeiðum. Og við lærðum heilmargt af nemendum okkar. Við kunnum til dæmis að meta jákvætt viðhorf þeirra þegar þeir fóru fótgangandi á samkomu án þess að kvarta og voru síbrosandi.

Tvisvar sinnum á árunum 1985 og 1986 voru aftur hernaðarátök í Úganda. Við sáum oft börn sem voru hermenn vopnuð rifflum standa vörð á eftirlitsstöðvum. Á þessum tímum báðum við Guð að gefa okkur dómgreind og innri ró meðan við leituðum þeirra sem myndu sýna boðskapnum áhuga. Og Jehóva svaraði bænum okkar. Við gleymdum oft óttanum um leið og við hittum fólk sem brást jákvætt við boðskapnum um ríkið.

Við Heinz með Tetjönu. (fyrir miðju)

Við nutum þess líka að vitna fyrir útlendingum. Við hittum til dæmis Murat Ibatullin sem var læknir og konu hans Dilbar, en þau eru frá Tatarstan (í Mið-Rússlandi). Við hófum biblíunámskeið með þeim og þau tóku við sannleikanum og hafa verið virk í þjónustunni síðan. Ég naut líka þeirrar ánægju að hitta Tetjönu Vílejsku frá Úkraínu. Hún var svo niðurdregin að hún hugleiddi sjálfsvíg. Eftir skírnina flutti hún aftur til Úkraínu og vann við þýðingar á ritum okkar.a

NÝJAR ÁSKORANIR

Árið 1991 þegar við Heinz vorum í fríi í Austurríki fengum við skilaboð frá deildarskrifstofunni um að okkur hefði verið úthlutað nýju verkefni. Við vorum send til Búlgaríu. Eftir fall kommúnismans í Austur-Evrópu var starfsemi Votta Jehóva leyfð í Búlgaríu. Eins og áður hefur verið nefnt smygluðum við Heinz ritum inn í landið meðan starfsemi okkar var bönnuð þar. En nú vorum við send þangað til að boða trúna.

Okkur var sagt að snúa ekki aftur til Úganda. Við fórum því aldrei til baka á trúboðsheimilið að sækja eigur okkar eða til að kveðja bræður og systur þar. Þess í stað fórum við til Betel í Þýskalandi, fengum bíl og héldum af stað til Búlgaríu. Verkefni okkar var að sjá um hóp 20 boðbera í Sofíu.

Í Búlgaríu mættum við mörgum nýjum áskorunum. Fyrir það fyrsta kunnum við ekki tungumálið. Auk þess voru einu auðfáanlegu ritin á búlgörsku Sannleikurinn sem leiðir til eilífs lífs og Biblíusögubókin mín. Og okkur fannst erfitt að hefja biblíunámskeið. Þrátt fyrir þessar áskoranir tók litli kappsami hópurinn okkar góðum framförum í boðuninni. En búlgarska rétttrúnaðarkirkjan veitti því eftirtekt og þá hófst andstaðan.

Árið 1994 voru Vottar Jehóva teknir af skrá sem löglegt trúfélag og voru meðhöndlaðir sem hættulegur sértrúarsöfnuður. Sumir bræðra okkar voru handteknir. Fjölmiðlar dreifðu hræðilegum lygum um okkur. Þeir héldu því fram að vottar dræpu börnin sín og hvettu fólk í söfnuðinum til að svipta sig lífi. Okkur Heinz fannst erfitt að boða trúna. Við hittum oft heiftúðugt fólk sem öskraði á okkur, sigaði lögreglunni á okkur og henti hlutum í okkur. Það var ekki hægt að koma ritum inn í landið og mjög erfitt að fá sali leigða fyrir safnaðarsamkomur. Lögreglan leysti jafnvel upp eitt af mótum okkar. Við Heinz vorum ekki vön slíku hatri. Þetta var svo ólíkt því sem við höfðum vanist í Úganda þar sem fólkið var svo vingjarnlegt og móttækilegt. Hvað hjálpaði okkur að takast á við þessar breytingar?

Samvera með bræðrum og systrum á svæðinu gerði okkur mjög gott. Þau voru ánægð að hafa fundið sannleikann og þakklát fyrir þá aðstoð sem við veittum þeim. Við stóðum öll saman og hjálpuðumst að. Við lærðum að við getum verið ánægð með verkefni okkar þegar áhugi okkar beinist fyrst og fremst að fólki.

Marianne og Heinz Wertholz.

Við deildarskrifstofuna í Búlgaríu árið 2007.

En með tímanum varð boðunin auðveldari. Söfnuðurinn okkar var lögskráður á ný árið 1998 og fljótlega urðu mörg af ritum okkar fáanleg á búlgörsku. Árið 2004 var ný deildarskrifstofa vígð. Nú eru 57 söfnuðir í Búlgaríu með 2.953 boðberum. Á síðasta þjónustuári sóttu 6.475 minningarhátíðina. Í Sofíu voru eitt sinn aðeins fimm systur en nú eru þar níu söfnuðir. Við höfum sannarlega séð ‚hinn minnsta verða að þúsund‘. – Jes. 60:22.

PERSÓNULEGIR ERFIÐLEIKAR

Ég hef fengið minn skerf af heilsufarsvandamálum. Ég hef í gegnum tíðina fengið nokkur æxli og þar á meðal heilaæxli. Ég fór í geislameðferð og 12 klukkustunda skurðaðgerð á Indlandi þar sem stærsti hluti æxlisins var fjarlægður. Eftir aðgerðina dvöldum við um tíma á Betel á Indlandi svo að ég gæti jafnað mig en snerum síðan aftur til Búlgaríu.

Meðan á þessu stóð fór Heinz að finna fyrir einkennum arfgengs sjúkdóms sem kallast Huntingtonssjúkdómur. Hann átti í erfiðleikum með að ganga, tala og stjórna hreyfingum. Eftir því sem sjúkdómurinn ágerðist varð hann smám saman háðari mér. Ég var stundum örmagna og hafði áhyggjur af því að ég myndi ekki geta annast hann. En þá kom Bobi, ungur bróðir, og bauð Heinz reglulega í boðunina með sér. Bobi skammaðist sín ekki fyrir það hvernig Heinz talaði og gat ekki stjórnað hreyfingunum. Ég gat alltaf reitt mig á Bobi þegar ég gat ekki aðstoðað Heinz. Þótt við hefðum ákveðið að eignast ekki börn í núverandi heimi fannst okkur eins og Jehóva hefði gefið okkur Bobi sem son. – Mark. 10:29, 30.

Heinz barðist líka við krabbamein. Ég missti því miður elsku manninn minn árið 2015. Ég fann fyrir miklu óöryggi eftir að hann dó, það var svo óraunverulegt að hann væri farinn. En í minningunni er hann sannarlega lifandi! (Lúk. 20:38) Ég hugsa oft til þess sem hann sagði, þar á meðal góðu ráðanna sem hann gaf mér. Ég er innilega þakklát fyrir árin okkar saman í þjónustu Jehóva.

ÞAKKLÁT FYRIR STUÐNING JEHÓVA

Jehóva hefur sannarlega stutt mig í öllum erfiðleikum mínum. Hann hefur líka hjálpað mér að sigrast á feimninni og verða trúboði sem lætur sér annt um aðra. (2. Tím. 1:7) Það er Jehóva að þakka að ég og yngri systir mín erum báðar í fullu starfi í þjónustu Jehóva. Hún og eiginmaður hennar starfa nú á serbneska farandsvæðinu í Evrópu. Jehóva svaraði bænunum sem pabbi bar fram þegar við vorum stelpur.

Það gefur mér hugarró að lesa og rannsaka Biblíuna. Þegar erfiðleikar steðja að hef ég lært að biðja „enn heitar“ eins og Jesús. (Lúk. 22:44) Jehóva hefur meðal annars svarað bænum mínum með kærleika og góðvild trúsystkina í söfnuðinum í Nadezhda í Sofíu. Þau veita mér oft félagsskap og segja mér að þau elski mig. Það gleður mig mjög mikið.

Ég hugsa oft um upprisuna. Ég sé foreldra mína fyrir mér fyrir framan húsið okkar, jafnfalleg eins og þegar þau giftu sig. Ég sé systur mína elda mat og Heinz með hestinum sínum. Þetta hjálpar mér að hafa stjórn á neikvæðum tilfinningum og fylla hjartað þakklæti til Jehóva.

Þegar ég lít um öxl og til framtíðarinnar tek ég heilshugar undir orð Davíðs í Sálmi 27:13, 14: „Hvar væri ég ef ég tryði ekki að ég fengi að njóta góðvildar Jehóva eins lengi og ég lifi? Vonaðu á Jehóva, vertu hugrakkur og sterkur. Já, vonaðu á Jehóva.“

a Sjá ævisögu Tetjönu Vílejsku í Vaknið á ensku 22. desember 2000, bls. 20–24.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila