UNGT FÓLK SPYR
Hvernig ætti ég að bregðast við uppbyggilegri gagnrýni?
Gerðu sjálfsrannsókn
Við þurfum öll á uppbyggilegri gagnrýni að halda af og til, það er að segja ráðum sem hjálpa okkur að bæta okkur. Með það í huga skaltu hugleiða eftirfarandi aðstæður.
● Kennari þinn segir að þú virðist ekki hafa gefið þér nægan tíma í síðasta verkefni þitt. Hann segir: „Þú verður að gefa þér meiri tíma í að rannsaka efnið.“
Hvernig bregstu við þessari uppbyggilegu gagnrýni?
Hafnar henni. („Kennaranum líkar bara ekki við mig.“)
Tekur við henni. („Ég skal fylgja ráðum hans þegar ég vinn næsta verkefni.“)
● Mamma þín segir að herbergið þitt sé í drasli – en þú varst að laga til.
Hvernig bregstu við þessari uppbyggilegu gagnrýni?
Hafnar henni. („Hún er aldrei ánægð.“)
Tekur við henni. („Ég viðurkenni að ég hefði getað gert betur.“)
● Litla systir þín segir að hún þoli ekki hvað þú sért stjórnsamur.
Hvernig bregstu við þessari uppbyggilegu gagnrýni?
Hafnar henni. („Hvernig getur hún talað um stjórnsemi?“)
Tekur við henni. („Ég býst við að ég gæti komið betur fram við hana.“)
Sumt ungt fólk er svo viðkvæmt að það bregst illa við minnstu uppbyggilegu gagnrýni. Ert þú þannig? Ef svo er ferðu á mis við margt! Hvers vegna? Vegna þess að það er mikilvægt að læra að taka við uppbyggilegri gagnrýni og það á eftir að hjálpa þér mikið bæði núna og seinna.
Ekki hafna því sem þú þarft að heyra bara að því að þú vilt ekki heyra það.
Af hverju þarf ég á uppbyggilegri gagnrýni að halda?
Af því að þú ert ekki fullkominn. Í Biblíunni segir: „Við gerum allir mistök margsinnis.“ (Jakobsbréfið 3:2, neðanmáls) Þess vegna þurfa allir á uppbyggilegri gagnrýni að halda.
„Ég reyni að muna að við erum öll ófullkomin og að mistök séu hluti af lífinu. Þegar ég er leiðréttur reyni ég þess vegna að læra af því og forðast að gera sömu mistök aftur.“ – David.
Af því að þú getur bætt þig. Í Biblíunni segir: „Gefðu hinum vitra, þá verður hann að vitrari.“ (Orðskviðirnir 9:9) Uppbyggileg gagnrýni getur gagnast þér ef þú tekur við henni.
„Ég hafði áður rangt viðhorf til gagnrýni. Mér fannst hún láta mig líta illa út. En núna tek ég við henni og bið meira að segja um hana. Mig langar að vita hvernig ég get bætt mig.“ – Selena.
Það er eitt að biðja um uppbyggilega gagnrýni en getur verið allt annað að fá hana óumbeðið. „Ég var hneyksluð og döpur,“ segir Natalie þegar hún rifjar upp að hafa fengið kort með ráðum sem hún hafði ekki beðið um. „Ég lagði svo mikið á mig og allt sem ég fékk voru ráðleggingar!“
Hefur þú lent í einhverju svipuðu? Ef svo er, hvernig geturðu þá tekist á við það?
Hvernig get ég brugðist vel við uppbyggilegri gagnrýni?
Hlustaðu.
Í Biblíunni segir: „Hygginn maður er orðvar og skynsamur maður er fáorður.“ (Orðskviðirnir 17:27) Ekki grípa fram í fyrir þeim sem er að tala við þig. Og forðastu að svara í fljótfærni og segja eitthvað sem þú munt sjá eftir seinna.
„Ég á það til að fara í vörn þegar ég fæ gagnrýni. En ég ætti að taka til mín leiðréttinguna og gera betur næst.“ – Sara.
Einbeittu þér að því sem sagt er en ekki þeim sem segir það.
Það gæti verið freistandi að benda á galla þess sem gagnrýnir þig. En það er miklu betra að fylgja ráðum Biblíunnar og „vera fljótur til að heyra, seinn til að tala og seinn til að reiðast“. (Jakobsbréfið 1:19) Yfirleitt er eitthvað til í gagnrýninni. Ekki missa af því sem þú þarft að heyra bara að því að þú vilt ekki heyra það.
„Ég var vanur að reiðast og segja ,ég veit, ég veit‘ þegar foreldrar mínir leiðréttu mig. En þegar ég hlusta á þau og fylgi ráðum þeirra gengur alltaf betur.“ – Edward.
Sjáðu sjálfan þig í réttu ljósi.
Þú ert ekki misheppnaður þó að þú hafir fengið uppbyggilega gagnrýni. Það þýðir bara að þú hafir galla eins og allir aðrir. Sá sem leiðréttir þig þarf sjálfur á uppbyggilegri gagnrýni að halda af og til. Í Biblíunni segir reyndar: „Enginn réttlátur maður er til á jörðinni sem gert hefur gott eitt.“ – Prédikarinn 7:20.
„Vinkona mín veitti mér uppbyggilega gagnrýni sem mér fannst ég ekki þurfa á að halda. Ég þakkaði henni fyrir heiðarleikann en var samt móðguð. En með tímanum skildi ég að gangrýnin átti rétt á sér. Þökk sé ráðum hennar gat ég komið auga á það sem ég þurfti að bæta mig í, eitthvað sem hefði örugglega annars farið fram hjá mér.“ – Sophia.
Settu þér markmið til að taka framförum.
Í Biblíunni segir: „Sá sem tekur umvöndun verður hygginn“. (Orðskviðirnir 15:5) Þegar þú tekur við gagnrýni geturðu hætt að hugsa um særðar tilfinningar og einbeitt þér að því að bæta þig í því sem þér var bent á. Gerðu áætlun um hvernig þú ætlar að gera það og fylgstu með því hvernig þér miðar áfram á næstu mánuðum.
„Að taka við gagnrýni tengist heiðarleika af því að þú þarft að vera heiðarlegur við sjálfan þig til að viðurkenna mistök þín, biðjast afsökunar og læra að bæta þig.“ – Emma.
Kjarni málsins: Í Biblíunni segir: „Járn brýnir járn og maður brýnir mann.“ (Orðskviðirnir 27:17) Uppbyggileg gagnrýni getur brýnt þig, bæði núna og á fullorðinsárunum.