UNGT FÓLK SPYR
Hversu þrautseigur er ég?
Hversu þrautseigur ert þú? Hefurðu þurft að þola ...
ástvinamissi?
langvinn veikindi?
náttúruhamfarir?
Rannsóknir sýna að það eru ekki bara meiri háttar erfiðleikar sem krefjast þrautseigju. Streita daglegs lífs getur haft áhrif á heilsuna. Þess vegna er mikilvægt að þroska með sér þrautseigju hversu smávægileg eða alvarleg sem vandamálin kunna að vera.
Hvað er þrautseigja?
Þrautseigja er hæfileikinn að geta tekist á við breytingar og mótlæti í lífinu. Þeir sem eru þrautseigir eru ekki ónæmir fyrir erfiðleikum. En þeir komast í gegnum þá – ef til vill með ör en samt sterkari.
Rétt eins og sum tré bogna í stormi en rétta sig síðan við þegar storminn hefur lægt getur þú jafnað þig eftir erfiðleika.
Hvers vegna þarftu á þrautseigju að halda?
Vegna þess að allir þurfa að takast á við erfiðleika. Í Biblíunni segir: „Enn sá ég undir sólinni að hinir fótfráu ráða ekki hlaupinu, né hetjurnar stríðinu, né eiga spekingarnir brauðið víst, né hinir hyggnu auðinn, né hinir vitru vinsældir því að tími og tilviljun hittir þá alla fyrir.“ (Prédikarinn 9:11) Hvaða lærdóm getum við dregið af þessu? Jafnvel gott fólk þjáist og oft er það ekki vegna þess að það hefur gert mistök.
Vegna þess að þrautseigja er þér til verndar. Námsráðgjafi við framhaldskóla segir: „Þeir hafa aldrei verið fleiri sem koma til mín niðurbrotnir einungis vegna lélegrar einkunnar eða vegna þess að einhver sagði eitthvað leiðinlegt um þá á samfélagsmiðlum.“ Þetta virðast smávægileg vandamál en hann segir að ef nemandinn getur ekki tekist á við þau „geti þau leitt til tilfinningalegra og geðrænna vandamála“.a
Vegna þess að þrautseigja kemur þér bæði að gagni núna og þegar þú ert orðinn fullorðinn. Doktor Richard Lerner skrifar um vonbrigði lífsins: „Hluti af því að ná árangri á fullorðinsárum er að horfast í augu við vonbrigði, setja sér ný markmið og finna aðrar leiðir til að gera það sem hugur manns stefnir til.“b
Hvernig geturðu þroskað með þér þrautseigju?
Sjáðu vandamálin í réttu ljósi. Aðgreindu alvarleg vandamál frá minni háttar vandamálum. Í Biblíunni segir: „Bræði afglapans birtist strax, greindur maður dylur gremju sína.“ (Orðskviðirnir 12:16) Það þurfa ekki öll vandamál að heltaka þig.
„Í skólanum kvörtuðu krakkarnir undan smávægilegum vandamálum eins og þau væru mjög alvarleg. Vinir á samfélagsmiðlum tóku síðan undir þetta en það jók enn frekar á óánægjuna og kom í veg fyrir að þeir sæju málin í réttu ljósi.“ – Joanne
Lærðu af öðrum. Orðskviður í Biblíunni segir: „Járn brýnir járn og maður brýnir mann.“ (Orðskviðirnir 27:17) Við getum lært ýmislegt að þeim sem hafa tekist á við erfið vandamál.
„Þegar þú talar við aðra kemstu að því að þeir hafa komist í gegnum alls konar erfiðleika en þeim gengur vel núna. Talaðu við þá og reyndu að komast að því hvað þeir gerðu eða gerðu ekki til að takast á við aðstæður sínar.“ – Julia
Vertu þolinmóður. Í Biblíunni segir: „Því að sjö sinnum fellur hinn réttláti og stendur upp aftur.“ (Orðskviðirnir 24:16) Það tekur tíma að sætta sig við suma erfiðleika í lífinu. Láttu það ekki koma þér á óvart þótt þú verðir stundum dapur. Það sem skiptir mestu máli er að ,standa upp aftur‘.
„Þegar þú ert að jafna þig eftir erfiðleika þurfa tilfinningaleg sár að gróa. Það tekur tíma. Ég hef komist að því að eftir því sem tíminn líður verður það auðveldara.“ – Andrea
Temdu þér þakklæti. Í Biblíunni erum við hvött til að vera þakklát. (Kólossubréfið 3:15) Það er alltaf eitthvað sem maður getur verið þakklátur fyrir, sama hversu miklir erfiðleikarnir eru. Hugsaðu um þrennt sem gerir lífið þess virði að lifa því.
„Þegar maður tekst á við erfiðleika er svo auðvelt að hugsa: ,Hvers vegna ég?‘ Að sýna þrautseigju þýðir að láta hugann ekki dvelja við vandamálin en velja að vera jákvæður og þakklátur fyrir það sem maður hefur og getur gert.“ – Samantha.
Veldu að vera ánægður. Páll postuli sagði: „Ég hef lært að vera ánægður með það sem ég hef, óháð aðstæðum.“ (Filippíbréfið 4:11, neðanmáls) Páll hafði ekki stjórn á erfiðleikunum sem hann gekk í gegnum. En það sem hann hafði stjórn á voru viðbrögð hans. Páll var staðráðinn í að vera ánægður.
„Eitt sem ég hef lært um sjálfan mig er að fyrstu viðbrögð mín við erfiðleikum eru ekki alltaf þau bestu. Markmið mitt er að þroska með mér jákvætt viðhorf til aðstæðna, hverjar sem þær eru. Það gagnast ekki bara mér heldur öllum í kringum mig.“ – Matthew
Biddu til Guðs. Í Biblíunni segir: „Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér, aldrei að eilífu lætur hann réttlátan mann hrasa.“ (Sálmur 55:23) Bæn er ekki sálfræðileg hækja. Hún er raunveruleg samskipti við skapara þinn sem „ber umhyggju“ fyrir þér. – 1. Pétursbréf 5:7.
„Ég þarf ekki að berjast einn. Með því að tala opinskátt og af hreinskilni við Jehóva um vandamálin og þakka honum síðan fyrir þá blessun sem hann hefur veitt mér get ég einbeitt mér að blessuninni og losað mig við neikvæðar tilfinningar. Bænin er svo mikilvæg!“ – Carlos.
a Úr bókinni Disconnected eftir Thomas Kersting.
b Úr bókinni The Good Teen—Rescuing Adolescence From the Myths of the Storm and Stress Years.