Eyðimerkur sækja á — en eiga þær eftir að blómgast sem lilja?
SANDUR, sandur, sandur! Svo langt sem augað eygir er ekkert nema brennheitur sandur. Vindurinn feykir honum með sé líkt og snjó að vetri. Í fjarlægð ber við heiðan himin risastórar, píramídalaga sandöldur, 200 metra háar, meira en kílómetri að grunnfleti. Stöðugur vindur grefur bugðóttar rákir í sandinn. Sólarhitinn er steikjandi. Jafnvel snákar og froskar leita skjóls fyrir honum með því að grafa sig niður í sandinn. Endurkast sólarinnar frá sandinum er blindandi. Tíbrá loftsins gerir auganu grikk — það sér í hillingum vatnstjarnir þar sem engar eru og endurspeglun fjarlægra hluta sem renna saman í eitt en eru allt annað.
Þá hvessir upp í sjö til tíu vindstig. Sandurinn þyrlast upp í loftið í ský svo þykk og stór að myrkt getur verið um hábjartan dag. Foksandurinn smýgur í gegnum fötin og stingur hörundið eins og nálaroddar. Hann getur barið lakkið af bifreið og sandblásið rúðurnar svo að þær verði skjannahvítar. Hann getur sorfið steina í ólíklegustu kynjamyndir og grafið símastaura til hálfs.
Um miðjan dag getur hiti komist í 50 til 55 gráður svo að gestir og gangandi stikna úr hita. Að nóttu getur hiti hrapað niður í fimm gráður eða minna. Ef menn klæðast þykkum, margföldum ullarfatnaði geta þeir klætt af sér hitann; séu þeir fáklæddir er hann þjakandi. Sitji menn í 30 sentimetra hæð frá jörðu getur hitastig verið rúmlega 15 gráðum lægra en sitji þeir á jörðinni sjálfri. Við það bætast svo skraufþurrar kverkar, leitin að vatni, óttinn við snáka og höggorma, stungur sporðdreka, hættan á skyndiflóði, óttinn við að villast — þegar allt er talið er þessi þögula, gróðursnauða sandveröld fremur óhugnanleg.
Enginn virðist hafa örugga tölu á hinum smáu og stóru eyðimörkum veraldar. Ástæðan er augljós — enginn virðist hafa talið þær. „Ég hef fundið yfir 125,“ sagði kunnur eyðimerkurkönnuður. „Kannski eru þær tvöfalt fleiri.“ En hvað sem tölunni líður eiga öll meginlönd veraldar sínar eyðimerkur. Þær nema næstum fimmtungi alls þurrlendis.
Stærst allra er Saharaeyðimörkin í Afríku, um helmingur af flatarmáli allra eyðimarka veraldar samanlagt — um 9,1 milljón ferkílómetra. Arabíueyðimörk á Arabíuskaga og Kalaharieyðimörk í Suðvestur-Afríku eru 1,3 milljónir ferkílómetra sú fyrrnefnda og 520.000 sú síðarnefnda. Ástralíueyðimörkin, sú næststærsta í heiminum, er um 3,4 milljónir ferkílómetra að flatarmáli — nánast helmingur meginlandsins. Góbíeyðimörkin í Kína er um 1,3 milljónir ferkílómetra að flatarmáli, ívið stærri en samanlagt flatarmál Finnlands, Svíþjóðar, Noregs, Danmerkur og Íslands.
Norður-Ameríka hefur sínar eyðimerkur. Fjórðungur Kaliforníuríkis er eyðimörk. Eyðimerkurnar í Arizona, Oregon, Útah, Nevada og Mexikó eru jafnþurrar og jafnheitar. Dauðadalur í Kaliforníu er sagður næstheitasta eyðimörk veraldar. Suður-Ameríka státar af þurrustu eyðimörk jarðar, Atakama, sem teygir sig 970 kílómetra suður frá landamærum Perú inn í norðuhluta Chíle. Allar þessar eyðimerkur eiga eitt sameiginlegt — þær eru heitar og úrkomusnauðar.
Til dæmis eru staðir í Atakamaeyðimörkinni í Chíle þar sem regn er svo sjaldgjæft að einn íbúa þess landsvæðis sagði: „Á nokkurra ára fresti kemur smá súld — en droparnir eru ósköp smáir.“ Annars staðar í sömu eyðimörk hefur hvorki rignt né snjóað í fjórtán ár samkvæmt opinberum skýrslum. Óopinberar heimildir herma að sums staðar í Atakama hafa ekki rignt í hálfa öld, og að á þurrustu stöðum sé ekki vitað til að nokkurn tíma hafi komið dropi úr lofti. Í Namibíueyðimörk í Suðvestur-Afríku liggur ársúrkoma á bilinu 3 til 150 millimetrar. Sums staðar í Sahara mældist engin úrkoma á tveggja ára tímabili. Úrkoma getur verið óútreiknanleg. „Einu sinni gerðist það í Góbíeyðimörk,“ sagði fyrrverandi eyðimerkurkönnuður, „að sauðfé var að deyja úr vatnsskorti. Næsta dag drekkti úrfelli mönnum og skepnum.“
Eyðimerkur sækja á
Áhyggjur heimsins af eyðimörkum veraldar birtast í endalausu prentuðu máli í blöðum, tímaritum og skýrslum. Hvers vegna fá eyðimerkur svona mikla athygli núna eftir árþúsunda tilveru? Stærstu vötnin og árnar eru mengaðar af mannavöldum. Fiskurinn í þeim er fullur af eiturefnum sem menn hafa af skeytingar- og ábyrgðarleysi hellt í árnar. Jafnvel himinninn yfir höfðum okkar er fullur af ýmiss konar drasli á braut um jörð sem menn hafa skilið þar eftir. En eyðimerkurnar halda enn, þótt maðurinn hafi lagt undir sig hluta þeirra, sérkennum sínum að verulegu leyti, ásamt jurta- og dýraríki sem hefur tilheyrt þeim um þúsundir ára.
En nánast vikulega segja fyrirsagnir dagblaða váleg tíðindi — „ásókn eyðimarka álitin orsök hungursneyða,“ segir The New York Times. „Miklir þurrkar yfir Afríku þvera gera Sahel að nýrri Sahara,“ sagði í The Atlanta Journal and Constitution. „Eyðimerkur halda áfram að stækka,“ sagði The Boston Globe. „Ræktanlegt land í heiminum rýrnar,“ var sagt í The Toronto Star. „Á einu ári svelgir Sahara í sig stóran hluta af Chad,“ sagði í öðru blaði. Ósköpin öll eru skrifuð um þá ógn sem heiminum stafar af ásókn eyðimarka.
Lesum nú það sem stendur undir fyrirsögnunum. „Saharaeyðimörk hefur sótt til suðurs með hraða sem nemur tíu til tólf kílómetrum á ári í meira en áratug, og smám saman lagt undir sig Sahel, þurrviðrasamt og fremur ófrjótt belti við suðurjaðar sinn,“ segir The New York Times, þann 2. janúar 1985.
„Um 52 milljónir ekra [21 milljón hektara] lands breytist í eyðimörk ár hvert . . . Það á sér einkum stað í Afríku, Indlandi og Suður-Ameríku,“ segir í The Boston Globe þann 11. júní 1984.
„Framsókn eyðimerkurinnar ógnar tilveru sumra landa, þeirra á meðal Máritaníu, þar sem stjórnvöld segja Saharaeyðimörk sækja fram sem nemur fjórum mílum [6 kílómetrum] á ári. Máritaníumenn tala um þá tíð þegar ljón áttu heimkynni á skógivöxnum svæðum landsins þar sem nú eru aðeins dauð tré og fjúkandi sandur,“ segir dagblaðið The Atlanta Journal and Constitution þann 20. janúar 1985.
Það er ekkert nýtt fyrirbæri í heiminum að eyðimerkur skuli færa út landamæri sín. Hins vegar þykir mönnum sem slík ógn stafi af að nýtt orð hefur verið myndað til að lýsa landeyðingu af þessu tagi. Hún ógnar um hundrað löndum, einkanlega hinum vanþróuðu löndum Afríku sem eru bókstaflega umkringd eyðimörkum.
Sameinuðu þjóðirnar leita nú lausnar á þessum vanda. „Við verðum að beina athygli okkar að þessu hrikalega vandamáli,“ segir Gaafar Karrar, yfirmaður þeirrar deildar umhverfisáætlunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) sem lætur sig varða ásókn eyðimarka. „Við gætum tapað þriðjungi þess ræktanlega lands, sem nú er, fram til aldamóta,“ segir hann. Í skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum segir að ásókn eyðimarka ógni 35 af hundraði þurrlendis, um 117 milljónum ferkílómetra, og 20 af hundraði jarðarbúa — um 850 milljónum manna. „Hvergi í heiminum eru menn óhultir fyrir landeyðingu,“ segir Karrar.
Árið 1977 komu fulltrúar 94 þjóða saman í Nairóbí í Kenýa og sömdu „framkvæmdaáætlun“ með það að markmiði að stöðva framsókn eyðimarka fyrir aldamót. Sökum almenns skeytingarleysis af hálfu þjóða og skorts á fjármagni var horfið frá þessari áætlun og hún ekki lengur talin vænleg til árangurs. Árið 1980 áætlaði UNEP að það myndi kosta um 90 milljarða bandaríkjadollara á 20 ára tímabili, um 4,5 milljarða dollara á ári, að stöðva framsókn eyðimarka fyrir árið 2000. En hve alvarlega telja sérfræðingar ásókn sandauðnanna? „Ef landeyðing heldur áfram,“ sagði fulltrúi UNEP, „horfir til stórhörmunga í heiminum árið 2000.“
Þegar litið er á eðli landeyðingar af þessu tagi koma upp í hugann ýmsar athyglisverðar spurningar: Hvers konar framkvæmdaáætlun gætu Sameinuðu þjóðirnar hrundið af stað sem gæti örugglega stöðvað þessa miskunnarlausu framsókn eyðimarka? Geta Sameinuðu þjóðirnar beislað hugsun mannsins og stýrt til fulls í samræmis við hugsun framsýnna, velviljaðra manna sem gera sér grein fyrir hvílík stórhörmung það verður fyrir heiminn ef heldur fram sem horfir? Orðið „landeyðing,“ notað um umbreytingu lands í eyðimörk, „felur í sér að eyðimerkur fari stækkandi af mannavöldum,“ segir maður sem skrifað hefur um þessi mál. Dr. Mostafa K. Tolba, framkvæmdastjóri UNEP, undirstrikar að sú sé meginorsök þess hve hratt eyðimerkur sækja fram: „Meginorsökin er ekki þurrkar, eins og margir halda enn, heldur landníðsla í mynd rányrkju, ofbeitar, lélegrar áveitu og skógareyðingar.“
Slík landníðsla vex samhliða því að fólki fjölgar og nýtt land er tekið til búsetu sem ber ekki mannfjölgunina. Í því skyni að rækta landið til að metta fleiri munna, reisa hús og fá eldivið er hvert einasta tré í sjónmáli höggvið. „Núna er líka skortur á timbri og viðarkolum,“ segir framkvæmdastjóri náttúruverndarstofnunar í Máritaníu í Afríku. „Enn heldur fólk áfram að höggva og höggva. Það heldur að Allah muni gefa því regn og tré.“ Til að halda lífi bíta nautgripir hvert blað og strá, svo langt sem þeir komast. Síðan bakar sólin bera jörðina og drepur örverurnar sem þar þurfa að vera til að plöntur geti vaxið. Þegar gróðurinn minnkar stækkar eyðimörkin.
Þar næst kemur vindurinn. Hann ber með sér sand frá eyðimörkum og ófrjóum svæðum í grenndinni og leggur undir sig nýtt land án þess að nokkuð fái heft för hans. Hann hleðst upp á götunum og fýkur inn í húsin svo að fólkið neyðist til að flýja og setjast að annars staðar þar sem hinn endalausi vítahringur endurtekur sig.
Þar sem áður var nægjanlegt regn endurkastar ber jörðin sólarhitanum og breytir, að sögn sérfræðinga, hitafari andrúmsloftsins með þeim hætti að það dregur úr úrkomu sem flýtir enn fyrir eyðingu landsins. Fólkið byltir þurrum jarðveginum og sáir í hann en ekkert vex. Hungursneyð ríður yfir. Hvenær tekur þetta enda?
Á eyðimörkin eftir að blómgast sem lilja?
Fyrir meira en tveim árþúsundum var spámanninum Jesaja blásið í brjóst að skrifa um eyðimerkur jarðar og undraverða umbreytingu þeirra — ekki vegna „framkvæmdaáætlunar“ Sameinuðu þjóðanna heldur stjórnar Guðsríkis í höndum Krists Jesú. Og þessi mikli spádómur, sem nálgast uppfyllingu, ómar af von, ekki örvæntingu. „Eyðimörkin og hið þurra landið skulu gleðjast, öræfin skulu fagna og blómgast sem lilja. Þau skulu blómgast ríkulega og fagna af unaði og gleði. Vegsemd Líbanons skal veitast þeim, prýði Karmels og Sarons. Þau skulu fá að sjá vegsemd Drottins og prýði Guðs vors. . . . Vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni og lækir á öræfunum. Sólbrunnar auðnir skulu verða að tjörnum og þurrar lendur að uppsprettum. Þar sem sjakalar höfðust áður við, í bælum þeirra, skal verða gróðrarreitur fyrir sef og reyr.“ — Jesaja 35:1-7.
Þetta er sú framtíð sem innblásið orð Guðs segir skrælnaðar sandauðnir veraldar eiga fyrir sér.
[Innskot á blaðsíðu 25]
„Á nokkurra ára fresti kemur smá súld — en droparnir eru ósköp smáir.“
[Kort á blaðsíðu 26]
(Sjá uppraðaðan texta í blaðinu)
Eyðimerkursvæði veraldar auðkennd með hvítu.