Þar sem foreldrar og börn hlusta og læra saman
Eftir fréttaritara Vaknið! í Japan
„SEM hreingerningafyrirtæki ættum við að skammast okkar, en það lítur út fyrir að vera hreinna hérna þegar þið þrífið.“ Þetta sagði yfirmaður hreingerningafyrirtækisins sem þrífur Fukuoka-leikvanginn í Japan sumarið 1993 um undirbúning votta Jehóva fyrir umdæmismót sitt, „Kennsla Guðs.“ Árið áður hafði hann átt viðskipti við leikvang í Tókíó þegar umdæmismót votta Jehóva, „Ljósberar,“ var haldið þar og hrifist mjög. Eftir lok mótsins var leikvangurinn hreinni en hann hafði verið áður en hann var leigður út. Hann bætti við: „Hegðun barnanna var einstök. Ég get ekki annað en sagt: ‚Frábært!‘“
Mótið „Kennsla Guðs“ var einnig haldið í Takamatsu árið 1993. Miðaldra maður, sem hafði gefið mótsgestum auga, spurði þá: „Eruð þið kristin?“ og hélt svo áfram: „Voruð þið ekki líka með mót á síðasta ári? Hvar hafið þið börnin meðan á mótinu stendur?“ Þegar mótsgestirnir svöruðu: „Þau hlusta á ræðurnar og opna sínar eigin biblíur með foreldrum sínum,“ sagði maðurinn: „Það er gott! Ég sé ykkur á hverju sumri og ég er alltaf jafnhrifinn af því hve börnin ykkar eru vel siðuð.“ Síðan nefndi hann að enda þótt hann heyri mikið talað um kynslóðabilið milli foreldra og barna sjái hann af hegðun barna votta Jehóva að hjá þeim sé gott samband milli foreldra og barna.
Grunnskólakennari, kona, sem sótti mót votta Jehóva í Makuhari Messe árið 1993, var agndofa yfir viðhorfum barnanna á mótsstaðnum. Í skólanum, þar sem nemendur eiga að læra með því að hlusta á aðra tala, fannst henni börnin ekki vilja hlusta. En hún sá eitthvað annað á mótinu. „Þessi börn sátu upprétt og fylgdust með tímunum saman. Og það sem meira er, þau voru með blýanta í höndunum og skrifuðu niður minnisatriði, og þau skrifuðu rittáknin rétt þótt þau yrðu að hafa minnisbókina í kjöltu sér. Vottabörnin eru ólík öðrum börnum, jafnvel í skólanum, bæði í klæðnaði og snyrtingu og í því hvernig þau tala og hlusta.“ Síðan bætti hún við: „Ég held að það sé vegna daglegrar þjálfunar þeirra, vegna þess að þau lofa Jehóva og vegna þess að fjölskyldan vinnur saman að sameiginlegu markmiði.“
Á sama hátt og Ísraelsmenn fylgdu lögmáli Guðs sem sagði: „Safna þú saman lýðnum, bæði körlum, konum og börnum, . . . til þess að þeir hlýði á og til þess að þeir læri,“ eins koma vottar Jehóva nú á tímum, bæði ungir og gamlir, saman og fá sömu kennsluna. Ritningarstaðurinn hér að ofan heldur áfram og tilgreinir ástæðuna: „Til þess að þeir læri að óttast [Jehóva] Guð yðar og gæti þess að halda öll orð þessa lögmáls.“ — 5. Mósebók 31:12.