Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g95 8.7. bls. 3-4
  • Útbruni — ert þú næstur?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Útbruni — ert þú næstur?
  • Vaknið! – 1995
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Hvað er útbruni?
  • Útbruni — hvað geturðu gert?
    Vaknið! – 1995
  • Útbruni — hverjir eru í hættu og hvers vegna?
    Vaknið! – 1995
  • Útbruni – hvað er til ráða?
    Vaknið! – 2014
  • Hvernig get ég komið í veg fyrir útbruna?
    Ungt fólk spyr
Sjá meira
Vaknið! – 1995
g95 8.7. bls. 3-4

Útbruni — ert þú næstur?

EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í JAPAN

„Framreiðslustúlkur í Svíþjóð, kennarar í Japan, póstmenn í Bandaríkjunum, strætisvagnastjórar í Evrópu og starfsmenn við færibandavinnu út um allan heim sýna í auknum mæli merki um vinnustreitu.“ — MAINICHI DAILY NEWS.

NOBUAKI var útkeyrður. Hann hafði lagt nótt við dag í fjóra mánuði til að ráða 130 starfsmenn til vinnu. Hann var sölustjóri nýrrar deildar stórverslanakeðju í Japan, og undir öllu álaginu hafði hann ráðið fólk sem reyndist ekki uppfylla þær kröfur sem hann gerði. Það reifst hvert við annað og kvartaði undan hlutskipti sínu. Og til að bæta gráu ofan á svart stungu tveir starfsmenn, karl og kona, af saman. Nobuaki var með höfuðverk hvern einasta dag. Áður en langt um leið hafði hann ekki krafta til að mæta í vinnuna, og þá daga sem hann neyddi sig til að fara kom hann strax heim aftur. Hann var útbrunninn eins og eldspýta sem slokknað er á.

Heimavinnandi húsmæðrum getur líka fundist þær útbrunnar. Eftir að Sara hafði verið heimavinnandi með þrjú börn í tvö ár gerðist hún mjög óþolinmóð við þau. „Mér fannst ég sífellt vera að gera eitthvað fyrir börnin en það var eins og botnlaus hít,“ sagði hún. Þegar kona þarf bæði að hugsa um börn og vinna úti aukast líkurnar á útbruna. Betty, rúmlega fertug, þurfti að finna jafnvægið milli móðurhlutverksins og vinnunnar og reyna að vera fullkomin á báðum sviðum. Hún reyndi að þóknast öllum — eiginmanninum, börnunum, vinnuveitandanum og samstarfsmönnunum. Hún var með háan blóðþrýsting og smáatriði fóru í taugarnar á henni. Hún var útbrunnin.

Ólíklegasta fólk getur brunnið út. Shinzo var dugmikill, kristinn prédikari, fullur af lífsorku og háleitum markmiðum. Hann fluttist til svæðis þar sem mikil þörf var á kristnum kennurum til að hjálpa þar. Eftir fáeina mánuði var hann orðinn útkeyrður og lokaði sig inni í svefnherbergi allan daginn. Honum leið eins og hann væri staddur í jarðgöngum og það væri engin útgönguleið. Hann átti erfitt með að taka ákvarðanir, jafnvel hvað hann ætti að borða í hádeginu. Hann langaði ekki til neins. Hann var algerlega útbrunninn.

Hvað er útbruni?

Hvað er annars útbruni? Herbert Freudenberger og fleiri vísindamenn tóku að nota þetta hugtak um miðjan áttunda áratuginn til að lýsa „örmögnun af völdum tilfinningaálags vegna samskipta við fólk.“ Það er einnig notað um „líkamlega eða tilfinningalega örmögnun, einkum af völdum langvarandi streitu eða slarks.“ (American Heritage Dictionary) En skilgreining þessa hugtaks er eilítið breytileg eftir heimildarmönnum.

Enda þótt útbruni eigi sér enga nákvæma læknisfræðilega skilgreiningu þekkjast fórnarlömbin á einkennum svo sem þreytu, áhugleysi, vanmáttarkennd, vonleysiskennd og lasleika. Þeim finnst þau örþreytt og minnstu óþægindi fara í taugarnar á þeim. Ekkert getur örvað þau til athafna. Allt vex þeim í augum og þau reyna kannski í örvæntingu að leita hjálpar hvers sem á vegi þeirra verður. Þeim finnst allt sem þau gera á vinnustað eða heima fyrir til einskis. Þau eru gagntekin vonleysiskennd. Ef þú hefur þessi einkenni, og finnur jafnfram til lasleika og hefur ekki ánægju af neinu, þá má vel vera að þú sért útbrunninn.

Útbruni getur haft áhrif á vinnu og fjölskyldulíf. En hvernig er hægt að forðast þetta vandamál? Til að kanna það skulum við byrja á að skoða hverjir séu líklegir til að brenna út og hvers vegna.

[Rammi á bls. 4]

Einkenni útbruna

„Útbruni vegna vinnu er lamandi sálfræðilegt ástand af völdum látlausrar vinnustreitu sem hefur í för með sér

1. Stórskert vinnuþrek

2. Skertan viðnámsþrótt gegn sjúkdómum

3. Aukna óánægju og svartsýni

4. Tíðari fjarvistir og lítil afköst við vinnu.

Þetta ástand er lamandi vegna þess að það getur veiklað og jafnvel brotið niður dugmikið, atorkusamt og að öðru leyti heilbrigt fólk. Meginorsök þess er látlaus streita dag eftir dag, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár.“ — The Work/Stress Connection: How to Cope With Job Burnout eftir Robert L. Veninga og James P. Spradley.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila