Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g95 8.7. bls. 5-6
  • Útbruni — hverjir eru í hættu og hvers vegna?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Útbruni — hverjir eru í hættu og hvers vegna?
  • Vaknið! – 1995
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Áhættuhópurinn
  • Hvers vegna fólk brennur út
  • Útbruni — hvað geturðu gert?
    Vaknið! – 1995
  • Útbruni — ert þú næstur?
    Vaknið! – 1995
  • Útbruni – hvað er til ráða?
    Vaknið! – 2014
  • Hvernig get ég komið í veg fyrir útbruna?
    Ungt fólk spyr
Sjá meira
Vaknið! – 1995
g95 8.7. bls. 5-6

Útbruni — hverjir eru í hættu og hvers vegna?

HUGSAÐU þér að þú sért skrifstofumaður og eigir fyrir fjölskyldu að sjá — eða kannski ertu það. Verkefnin hlaðast upp á skrifborðinu þínu. Síminn hringir látlaust og það er næstum ógerlegt að uppfylla kröfur viðskiptavinanna. Yfirmaður þinn er óánægður með afköst þín. Sonur þinn á í erfiðleikum í skólanum. Kennarinn hans vill hitta þig þegar í stað. Þú hefur reynt að tala við maka þinn en hann lætur sér fátt um finnast. Þér finnst þú hafa misst tökin á hlutunum, streitan verður þjakandi og útbruni er á næsta leiti.

Stafar útbruni af of miklu vinnuálagi? Ann McGee-Cooper er vísindamaður sem vinnur við rannsóknir á mannsheilanum. Hún segir að útbruni „stafi af ójafnvægi í tilverunni, mjög oft óhóflegri vinnu og engum frítíma.“ En of mikil vinna er ekki eina orsökin. Við sama álag og sömu aðstæður brenna sumir út en aðrir ekki.

Áhættuhópurinn

Á sama hátt og menn eru mislíklegir til að smitast af ákveðnum sjúkdómi, eins eru sumir líklegri til að brenna út en aðrir. „Til að brenna út verður maður fyrst að vera brennandi,“ segir Elliot Aronson, prófessor í félagssálarfræði við University of California. Þeim sem hafa „brennandi“ hugsjónir og háleit markmið hættir því til að brenna út. Sagt er að það séu oft bestu starfsmennirnir sem brenna út.

Í bók sinni Moetsukishokogun (Útbrunaheilkenni) dró prófessor Fumiaki Inaoka við hjúkrunarháskóla Rauða krossins í Japan saman persónueinkenni þeirra sem eru líklegir til að brenna út: „Þeir sem hafa tilhneigingu til að brenna út hafa að jafnaði sterka samkennd með fólki, háleitar hugsjónir, eru skilningsríkir, viðkvæmir og dyggir. Þeir vilja frekar eiga samskipti við fólk en vinna við vélar.“

Sérfræðingur var beðinn að útbúa próf til að skilja frá þá sem væru líklegir til að brenna út. Hann sagði að það ætti frekar að nota prófið sem viðmiðun við mannaráðningar. „Fyrirtæki þurfa að finna það fólk sem er nógu umhyggjusamt til að brenna út,“ sagði hann, „og gera síðan áætlanir til að vinna gegn útbruna.“

Þeim sem starfa við félagslega þjónustu, svo sem félagsráðgjöfum, læknum, hjúkrunarfræðingum og kennurum, er sérlega hætt við útbruna. Þeir leggja sig fram við að reyna að hjálpa fólki, gefa af sjálfum sér til að bæta líf annarra, og geta brunnið út þegar það rennur upp fyrir þeim að þeir ná ekki þeim markmiðum sem þeir hafa sett sér og stundum verður ekki náð. Umhyggjusamar mæður geta líka brunnið út af sömu ástæðu.

Hvers vegna fólk brennur út

Könnun meðal hjúkrunarfræðinga leiddi í ljós að það var þrennt sem leiddi til útbruna. Hið fyrsta voru þau vonbrigði og gremja sem fylgir hinu daglega álagi og amstri. Til dæmis þurftu flestir hjúkunarfræðingar að axla þunga ábyrgð, leysa vandamál í samskiptum við sjúklinga, aðlaga sig nýjum tækjabúnaði, mæta vaxandi útgjöldum og sætta sig við óreglulegt líferni. „Þetta daglega amstur átti stærstan þátt í útbruna þeirra, segir bókin Moetsukishokogun. Þegar vandamál eru látin óleyst hrannast hreinlega upp vonbrigði og gremja sem leiðir til útbruna.

Annað atriðið var skortur á stuðningi, að eiga ekki trúnaðarvin. Þannig er líklegra að móðir, sem einangrar sig frá öðrum mæðrum, brenni út. Í áðurnefndri könnun kom í ljós að einhleypum hjúkrunarfræðingum var hættara við að brenna út en þeim sem voru í hjónabandi. En hjónaband getur líka aukið á hið daglega álag ef ekki eru opinská tjáskipti milli hjóna. Jafnvel heima fyrir er hægt að vera einmana ef hinir í fjölskyldunni eru niðursokknir í að horfa á sjónvarpið.

Þriðja atriðið var vanmáttarkennd. Hjúkrunarfræðingum er til dæmis hættara við vanmáttarkennd en læknum af því að þeir hafa síður vald til að breyta aðstæðum. Millistjórnendur brenna kannski út þegar þeim finnst þeir engu fá áorkað þrátt fyrir að þeir leggi sig alla fram. Eins og starfsmannastjóri komst að orði stafar útbruni af „gremju og vonbrigðum með það að ekki skuli vera tekið mark á manni þegar maður reynir að gera gagn.“

Vanmáttarkenndin fellur í frjóa jörð þar sem vanþakklæti ræður ferðinni, og ávöxturinn er útbruni. Eiginkonur brenna út þegar eiginmennirnir kunna ekki að meta alla þá vinnu sem fylgir því að halda heimili og annast börnin. Millistjórnendur brenna út þegar forstjórinn lætur sem hann sjái ekki vel unnið verk og nöldrar yfir smámistökum sem þeim hafa orðið á. „Kjarni málsins er sá að við þurfum öll að finna að viðleitni okkar sé einhvers metin og viðurkennd,“ segir tímaritið Parade, „og ef við njótum ekki umbunar erfiðis okkar á vinnustað — hvort sem það er heimilið eða skrifstofan — þá er okkur hættara við að brenna út.“

Það er athyglisvert að útbruni er töluvert algengur meðal hjúkrunarfræðinga en aftur á móti talsvert fátíðari meðal fæðingarlækna. Almennt séð er starf fæðingarlæknisins fólgið í því að hjálpa nýju lífi að komast í heiminn. Foreldrar þakka honum fyrir starf hans. Þegar fólk er metið fyrir verk sitt finnst því það gera gagn og hefur áhuga á því.

Það er auðveldara að fyrirbyggja útbruna þegar maður veit hverjir eru í hættu og hvers vegna. Í greininni á eftir er að finna holl ráð handa þeim sem hafa orðið útbruna að bráð.

[Innskot á bls. 6]

Sívaxandi vinna og síminnkandi frítími stuðla að útbruna.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila