Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g95 8.7. bls. 7-10
  • Útbruni — hvað geturðu gert?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Útbruni — hvað geturðu gert?
  • Vaknið! – 1995
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Leiðin til afturbata
  • Stuðningur með tjáskiptum
  • Að breyta viðhorfum sínum
  • Útbruni — hverjir eru í hættu og hvers vegna?
    Vaknið! – 1995
  • Útbruni — ert þú næstur?
    Vaknið! – 1995
  • Útbruni – hvað er til ráða?
    Vaknið! – 2014
  • Hvernig get ég komið í veg fyrir útbruna?
    Ungt fólk spyr
Sjá meira
Vaknið! – 1995
g95 8.7. bls. 7-10

Útbruni — hvað geturðu gert?

MARGIR reyna að drekkja áhyggjum sínum, daglegum vonbrigðum og streitu í áfengi. Þeir grípa til mest misnotaða vímuefnis nútímans til að reyna að flýja óbilgjarnan veruleikann. Aðrir halla sér að vinsælum, lyfseðisskyldum lyfjum til að ráða við áhyggjurnar. Og sumir grípa til ávana- og fíkniefna svo sem hass, metamfetamína og kókaíns. Þess eru jafnvel dæmi að ung börn noti vímuefni til að flýja raunveruleikann. Sagt er að 95 af hundraði bandarískrar æsku hafi prófað eitt eða fleiri ólögleg efni fyrir lok almenns framhaldsskóla.

Svo eru það þeir sem reyna að flýja streitu hversdagslífsins með því að sleppa fram af sér beislinu með kunningjunum eða setja upp glaðværðargrímu þótt þeir séu niðurdregnir hið innra. Sumir leita af röngu tilefni ástúðar og blíðu hjá hinu kyninu. En slíkur flótti eykur bara á gremjuna og vonbrigðin. Þegar fólk reynir að útþynna streituna með áfengi eða fíkniefnum, í stað þess að glæða krafta sína, eldmóð og áhuga, er það bara að flýta útbrunanum. Hvað getur maður þá gert ef maður finnur eldinn hið innra með sér vera að kulna hægt og hægt?

Leiðin til afturbata

Vaknið! er ekki talsmaður neinnar vissrar meðferðar eða lyfja. Engu að síður viljum við koma með nokkrar góðar tillögur byggðar á meginreglum Biblíunnar sem geta hjálpað þér að blása aftur lífi í glæðurnar sem eru að kulna innra með þér. Dr. Yutaka Ono, forstöðumaður læknadeildar Keio-háskóla í Japan, mælir með „stjórn, tjáskiptum og hugarstarfi“ til að takast á við útbruna.

Til að sigrast á vanmáttarkennd þarf maður að geta fundið að maður stjórni tilfinningum sínum og hegðun. Ef gremja og vonbrigði drottna daglega yfir tilfinningum manns og gera mann ófæran um að leysa vandamál, þá er auðvelt að trúa því að maður sé búin að missa tökin á hlutunum. En leggðu ekki bara árar í bát og hugsaðu um það sem á þér hvílir. Reyndu að leysa vandamálið skref fyrir skref. (Sjá rammann á bls. 8.) Frestaðu því ekki. Um leið og maður fer að gera jákvæðar ráðstafanir fer manni strax að líða betur og finnst maður halda um stjórnvölinn.

Reyndu að draga úr því sem ertir þig og vekur uppgjafartilfinningu með þér. Sumir láta hverja einustu smámuni ergja sig. Þeim finnst eiga að gera hlutina á ákveðinn hátt og það fer í taugarnar á þeim þegar aðrir gera það ekki, eða verða vonsviknir og gramir þegar þeim mistekst sjálfum. „Ver þú ekki of réttlátur,“ sagði vitur maður til forna, „og sýn þig ekki frábærlega vitran — hví vilt þú tortíma sjálfum þér?“ (Prédikarinn 7:16) Að ríghalda í of há markmið og finna í sífellu að maður nær þeim ekki er næsta örugg leið til að brenna út.

Biblían ráðleggur okkur líka að „fram ganga í lítillæti fyrir Guði.“ (Míka 6:8) Að vera lítillátur merkir að þekkja takmörk sín eða vera „hógvær í mati á hæfileikum sínum.“ Það merkir að sætta sig ekki við að gerðar séu ósanngjarnar kröfur á vinnustað.

Þeir sem þekkja takmörk sín þiggja gjarnan hjálp annarra. Framkvæmdastjóri, kona sem brann út, sagði að ein helsta leiðin til að forðast það væri sú að biðja um aðstoð. En eins og hún segir eru „margir hræddir við að biðja um aðstoð af því að þeir vilja ekki láta aðra halda að þeir valdi ekki starfi sínu.“ Deildu út vinnu til annarra þar sem því verður komið — öllum störfum sem geta ofgert þér — hvort sem það eru heimilisstörf, skólaverkefni eða veraldleg vinna. Það á eftir að koma þér á óvart hverju hægt er að áorka án þess að þú hafir beina umsjón með öllu. — Samanber 2. Mósebók 18:13-27.

Kannski ertu hvíldarþurfi. Frí getur gert kraftaverk á þeim sem er í útbrunahættu. Leyfi aðstæður ekki frí „er mikils virði að vera glaður ef maður getur,“ að sögn rannsóknarmannsins Ann McGee-Cooper. Stutt hvíld áður en maður snýr sér að nýjum verkefnum getur jafnvel aukið afköst og örvað sköpunargleði hugans. Ráð Salómons konungs endur fyrir löngu er enn í fullu gildi: „Betri er hnefafylli af ró en báðar hendur fullar af striti og eftirsókn eftir vindi.“ — Prédikarinn 4:6.

Stuðningur með tjáskiptum

Tjáskipti voru annað atriðið sem dr. Ono nefndi. Það er athyglisvert að slökkviliðsmenn brenna sjaldan út. Ástæðan kann að vera sú að bæði er litið á þá sem hetjur og eins að þeir tengjast sterkum böndum sem vinir og félagar. Þegar maður hefur stuðningshóp til að halla sér að er hægt að leita hjálpar hjá honum. Hvar er hægt að leita hughreystingar og stuðnings nú á dögum? Bókin Moetsukishokogun (Útbrunaheilkenni) lýsir því hvernig læknar geta spornað gegn útbruna: „Læknir finnur áhrifaríkasta og raunhæfasta tilfinningastuðninginn hjá fjölskyldunni, einkum maka sínum.“ Allir þurfa að eiga einhvern að til að trúa fyrir tilfinningum sínum. Biblían gefur góð ráð um tjáskipti. Hún hvetur hjón til að halda ástinni lifandi og hvetur alla til að eiga vini sem geta veitt þeim holl og skynsamleg ráð. — Orðskviðirnir 5:18, 19; 11:14.

„Við verðum að byggja upp okkar eigin stuðningshóp náinna vina og ættingja,“ segir blaðið USA Today. Það bætir við: „Við verðum líka að finna að við getum óhindað notfært okkur þau úrræði sem trúarmiðstöðvar okkar og geðverndarþjónusta bjóða upp á.“ Um það að nota sér trúarúrræðin til hjálpar skrifaði Jakob, hálfbróðir Jesú: „Sé einhver sjúkur yðar á meðal, þá kalli hann til sín öldunga safnaðarins og þeir skulu smyrja hann með olíu í nafni [Jehóva] og biðjast fyrir yfir honum.“ (Jakobsbréfið 5:14) Það getur verið hressandi fyrir kristna menn, sem eiga við vandamál að stríða, geta sótt stuðning til öldunganna í söfnuðum votta Jehóva. Enda þótt öldungarnir séu ekki sérfræðingar í útbrunameðferð getur andlegur stuðningur þeirra verið ómetanlegur.

Stuðningur annarra getur kannski haldið okkur gangandi einn dag enn, en stundum nægir það ekki. Í inngangsorðum bókarinnar Helplessness benti Martin E. P. Seligman á að vaxandi þunglyndi nútímans megi meðal annars rekja til hinnar taumlausu einstaklingshyggju sem er algeng á Vesturlöndum, og talaði um nauðsyn þess að finna tilgang í lífinu. Síðan benti hann á að „eitt skilyrði fyrir því að finna tilgang í lífinu sé það að tengjast einhverju sjálfum manni æðra.“ Margir taka ekki samband sitt við Guð alvarlega nú orðið, en eigi að síður geta samskipti við Guð — sem er vissulega ‚sjálfum manni æðri‘ — hjálpað manni að takast á við vanmáttarkennd.

Davíð konungur, sem oft var aðþrengdur, hvatti þegna sína: „Treyst honum, allur þjóðsöfnuðurinn, úthellið hjörtum yðar fyrir honum, Guð er vort hæli.“ (Sálmur 62:9) Guð er reiðubúinn að ljá eyra jafnvel „andvörpum, sem ekki verður orðum að komið.“ (Rómverjabréfið 8:26) Innileg bæn til hans hefur frið í för með sér sem getur ‚varðveitt hjörtu okkar og hugsanir‘ gegn útbruna. — Filippíbréfið 4:6, 7.

Að breyta viðhorfum sínum

Að síðustu geturðu þurft að breyta viðhorfum þínum til þeirrar aðstöðu sem þú ert í. Hugarstarf var þriðja og síðasta atriðið er dr. Ono mælti með sem leið til að berjast gegn útbruna. Undir miklu álagi hættir okkur til að hafa neikvæð viðhorf til allra hluta og hneppa okkur í bölsýnisfjötra. En við verðum að vera raunsæ. Brjóttu til mergjar hvort það sé raunverulega ástæða til að vera svona neikvæður í hugsun. Verða málalokin jafnslæm og þú óttast? Reyndu að sjá hlutina frá öðru sjónarhorni.

„Ef þú ert útbrunninn geturðu byrjað á því að gefa þér að það sé sennilega af því að þú sért ‚dugandi‘ en ekki ‚duglaus,‘“ segir tímaritið Parade. Mundu að sú manngerð, sem hættir til að brenna út, gerir miklar kröfur og lætur sér annt um aðra. Viðurkenningarorð eru sérlega mikils virði fyrir þann sem brennur út. Það er mikils virði fyrir húsmóður að eiginmaður hennar og börn sýni í orði og verki að þau kunni að meta alla þá vinnu sem fylgir húsmóðursstarfinu. Ef millistjórnandi brennur út geta hvetjandi orð og klapp á öxlina breytt viðhorfum hans til hins betra.

Biblían sýnir að dugandi eiginkona á hrós skilið: „Synir hennar ganga fram og segja hana sæla, maður hennar gengur fram og hrósar henni: ‚Margar konur hafa sýnt dugnað, en þú tekur þeim öllum fram!‘“ (Orðskviðirnir 31:10, 28, 29) Já, svo sannarlega eru „vingjarnleg orð . . . hunangsseimur, sæt fyrir sálina, lækning fyrir beinin.“ — Orðskviðirnir 16:24.

Shinzo, kristni safnaðaröldungurinn sem nefndur var í fyrstu greininni, náði sér allvel af útbrunanum. Þótt hann fengi sérfræðihjálp voru það bænirnar til Jehóva sem hjálpuðu honum mest. Eftir innilegar bænir sínar um hjálp hitti hann af tilviljun öldunginn sem hafði numið orð Guðs með honum á sínum tíma. Sá öldungur og fleiri studdu hann með því að hlusta á hann segja frá áhyggjum sínum. Konan hans las fyrir hann greinar um það hvernig sigrast mætti á neikvæðum tilfinningum, sem birtust í þessu blaði fyrir nokkru. (8. október 1992 á ensku) Smám saman gerði hann sér ljóst að hann var að reyna að gera allt sjálfur. Það breytti afstöðu hans til umhverfisins. Þótt honum fyndist í fyrstu að hann sæti fastur í endalausri örvæntingu fór hann nú að sjá ljósglætu í fjarska sem varð smám saman skærari uns hann komst loksins út úr myrkrinu.

Þú getur líka unnið bug á útbruna eins og Shinzo, og horfst í augu við lífið á nýjan leik.

[Rammi á blaðsíðu 8]

Tólf leiðir til að koma í veg fyrir útbruna

Eftirfarandi er byggt á fáeinum af tillögum geðhjúkrunarfræðinga.

1. Hafðu stjórn á hugsunum þínum, tilfinningum og hegðun — bæn er mikil hjálp.

2. Neyddu sjálfan þig til að hugsa jákvætt og skynsamlega um leið og þú byrjar að hafa áhyggjur.

3. Dragðu djúpt andann þegar þú kemst úr jafnvægi og reyndu vísvitandi að slaka á.

4. Reyndu að sjá málið frá frá bæjardyrum hins aðilans til að skilja hvernig spennan hefur myndast.

5. Einbeittu þér að því sem þú kannt að meta í fari annarra og hrósaðu þeim. Smjaðraðu ekki heldur hrósaðu í einlægni.

6. Komdu auga á og berstu gegn neikvæðum, niðurdrepandi hugsunum.

7. Lærðu að segja nei þegar kraftar þínir og tími útheimta það.

8. Hreyfðu þig á hverjum degi — hraustlegur göngutúr er fyrirtak.

9. Sýndu öðrum virðingu og leitastu við að draga fram það besta hjá þeim.

10. Varðveittu skopskynið og vertu glaðlyndur og bjartsýnn.

11. Skildu vandamál vinnunnar eftir á vinnustaðnum.

12. Gerðu það sem þarf að gera í dag — trassaðu það ekki.

(Unnið upp úr „Dealing With Feelings, Beating Burnout“ eftir Ruth Dailey Grainger, American Journal of Nursing, janúar 1992.)

[Mynd á blaðsíðu 8, 9]

Oft eru það hinir atorkusömu og óþreytandi sem brenna út.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila