Námskafli 17
Rétt notkun hljóðnema
BRÆÐUR okkar og systur verja miklum tíma og kröftum í að sækja safnaðarsamkomur. Þau þurfa að heyra skýrt og greinilega það sem sagt er til að hafa gagn af því.
Rafknúin magnarakerfi voru auðvitað ekki til í Ísrael forðum daga þegar Móse ávarpaði þjóðina á Móabsvöllum áður en hún gekk inn í fyrirheitna landið. Og Ísraelsmenn voru milljónaþjóð. Hvernig heyrði allur þessi fjöldi til hans? Hugsanlegt er að Móse hafi raðað aðstoðarmönnum með hæfilegu millibili út um búðirnar sem endurtóku orð hans hver af öðrum. (5. Mós. 1:1; 31:1) Skömmu eftir að Ísraelsmenn tóku að leggja undir sig landið vestan Jórdanar safnaði Jósúa þeim saman utan í Garísímfjalli og Ebalfjalli en levítarnir stóðu í dalnum milli fjallanna. Þar heyrðu Ísraelsmenn lesna upp blessun og bannfæringu og svöruðu í samræmi við það. (Jós. 8:33-35) Hugsanlegt er að þar hafi einnig verið notaðir aðstoðarmenn sem endurtóku orð levítanna en eflaust hefur það einnig hjálpað að hljómburður er framúrskarandi á staðnum.
Um 1500 árum síðar safnaðist „mikill mannfjöldi“ við Galíleuvatn til að hlýða á Jesú. Hann steig þá út í bát, ýtti frá landi, settist niður og talaði til mannfjöldans. (Mark. 4:1, 2) Hvers vegna talaði Jesús frá báti? Eflaust vegna þess að mannsröddin berst ótrúlega skýrt og vel yfir sléttan vatnsflöt.
Þar til snemma á 20. öld réðst það oft af skýrmæli ræðumanns hve margir af áheyrendum heyrðu til hans. En á þriðja áratugnum gátu þjónar Jehóva farið að nýta sér raftæki til að magna upp mannsröddina þegar þeir héldu mót.
Magnarakerfi. Með magnarakerfi er hægt að margfalda styrk mannsraddarinnar án þess að það komi niður á blæ hennar og gæðum. Ræðumaður þarf ekki að þenja raddböndin. Áheyrendur þurfa ekki að beita sér til hins ítrasta til að heyra hið talaða orð heldur geta þeir einbeitt sér að inntakinu.
Lögð er áhersla á góð hljóðkerfi á mótum Votta Jehóva. Margir ríkissalir eru einnig búnir magnarakerfi til að magna upp raddir þeirra sem flytja ræður, stjórna samkomum eða lesa upp frá ræðupallinum. Og sumir salir eru jafnframt búnir hljóðnemum sem áheyrendur nota þegar þeir svara á samkomunum. Ef slíkur búnaður er í ríkissalnum þar sem þú sækir samkomur skaltu læra að nota hann vel.
Nokkur grundvallaratriði. Til að nota búnaðinn rétt þarftu að hafa eftirfarandi í huga: (1) Hljóðneminn á að jafnaði að vera um 10 til 15 sentímetra frá munninum. Ef hann er of nærri geta orðin bjagast en ef hann er of fjarri verður röddin óskýr. (2) Hljóðneminn ætti að vera beint fyrir framan þig en ekki til hliðar. Ef þú hreyfir höfuðið til hægri eða vinstri skaltu samt gæta þess að snúa að hljóðnemanum þegar þú talar. (3) Talaðu örlítið hærra en þú gerir í venjulegum samræðum. En það er óþarfi að hrópa. Magnarakerfið sér um að flytja röddina út í ystu horn salarins. (4) Snúðu andlitinu fyrir alla muni frá hljóðnemanum ef þú þarft að ræskja þig, hósta eða hnerra.
Þegar þú flytur ræðu. Bróðir stillir yfirleitt hljóðnemann fyrir þig þegar þú stígur upp á ræðupallinn. Stattu eðlilega og snúðu andlitinu að áheyrendum á meðan hann er að stilla. Leggðu minnisblöðin á ræðupúltið og gættu þess að hljóðneminn skyggi ekki á þau.
Hlustaðu eftir því, þegar þú byrjar að tala, hvernig röddin hljómar í hátölurunum. Virkar hún of sterk eða heyrist blásturshljóð þegar þú segir ákveðin orð? Þá þarftu kannski að færa þig örfáa sentímetra frá hljóðnemanum. Þegar þú lítur á minnisblöðin þarftu að muna að tala ekki nema þú snúir andlitinu að hljóðnemanum og munnurinn sé beint á móti honum eða rétt ofan við hann, ekki fyrir neðan.
Þegar þú lest upphátt af ræðupallinum. Heppilegast er að halda Biblíunni eða ritinu, sem þú lest úr, þannig að þú snúir andlitinu að áheyrendum. Þar sem hljóðneminn er sennilega beint fyrir framan þig þarftu kannski að halda lesefninu aðeins til hliðar. Höfuðið verður þá aðeins á ská við hljóðnemann en röddin fer rakleiðis inn í hann þegar þú lest.
Flestir bræður, sem lesa í Varðturnsnáminu, standa og lesa í hljóðnema á standi. Það auðveldar öndun og lesturinn verður kröftugri. Hafa ber hugfast að upplestur námsefnisins er töluverður hluti samkomunnar og áheyrendur þurfa að heyra hið upplesna til að hafa fullt gagn af henni.
Þegar þú svarar á samkomum. Þó að þátttakendur úti í sal noti hljóðnema er eftir sem áður nauðsynlegt að tala skýrt og nægilega hátt. Reyndu að halda á námsritinu eða Biblíunni í hendinni þegar þú svarar. Þá sérðu efnið greinilega meðan þú ert að tala í hljóðnemann.
Í sumum söfnuðum er bræðrum falið að rétta þátttakendum í sal hljóðnema. Ef það er gert í söfnuðinum þínum skaltu halda hendinni á lofti eftir að nafnið þitt er nefnt, þannig að bróðirinn, sem ber hljóðnemann, sjái hvar þú situr og sé fljótur til þín. Ef handhljóðnemi er notaður skaltu vera tilbúinn að taka við honum. Byrjaðu ekki að svara fyrr en hljóðneminn er kominn á réttan stað og skilaðu honum strax og þú ert búinn að svara.
Þegar þú tekur þátt í samræðum uppi á ræðupallinum. Þegar hljóðnemi er notaður í samtali þarf að huga að ýmsu fyrir fram. Ef hljóðneminn er festur á stand hefurðu báðar hendur lausar til að halda á Biblíunni og minnisblöðum. Þú getur verið frjálsari í hreyfingum með handhljóðnema en þú gætir þurft að biðja viðmælandann að halda á honum. Þá hefurðu báðar hendur lausar til að fletta upp í Biblíunni. Þið ættuð að æfa þetta þannig að viðmælandi þinn kunni að fara með hljóðnemann. Og mundu að þegar þú ert uppi á sviðinu ættirðu ekki að snúa baki í áheyrendur og alls ekki þegar þú talar.
Í sýnikennslu á þjónustusamkomu geta verið nokkrir þátttakendur sem eru á ferð um ræðupallinn. Þá getur þurft að nota nokkra hljóðnema. Það ætti að stilla þeim upp fyrir fram eða afhenda þátttakendum þá um leið og þeir ganga upp á sviðið. Það þarf ákveðna fyrirhyggju til að hljóðnemarnir séu tiltækir á réttum stað og á réttum tíma. Sé sýnikennsla æfð fyrir fram er hægt að leiðbeina þátttakendum um rétta notkun hljóðnemanna. Ef ekki er hægt að æfa uppi á ræðupallinum gæti verið gott fyrir þátttakendur að halda á litlum hlut á stærð við hljóðnema til að æfa sig í að meðhöndla hljóðnema rétt. Eftir sýnikennsluna ættu þátttakendur að leggja hljóðnemana varlega frá sér og gæta þess að hrasa ekki um snúrur annarra hljóðnema þegar þeir fara af sviðinu.
Markmiðið með samkomunum er að gera hvert öðru gott með umræðum um orð Guðs. (Hebr. 10:24, 25) Rétt notkun hljóðnema er nátengd þessu markmiði. Með því að læra að nota hljóðnema vel getum við hvert og eitt stuðlað að því að þetta markmið náist.