SAGA 21
Tíunda plágan
Móse lofaði faraó að hann myndi ekki koma til hans aftur. En áður en hann fór sagði hann faraó: ‚Um miðnætti munu allir elstu synirnir í Egyptalandi deyja, allt frá syni faraós til sona þrælanna.‘
Jehóva sagði Ísraelsmönnum að búa til sérstaka máltíð. Hann sagði: ‚Slátrið eins árs gömlu hrútlambi eða geithafri og setjið hluta af blóðinu á dyrastafina. Steikið kjötið og borðið það með ósýrðu brauði. Verið tilbúin að fara, fullklædd og í sandölunum. Í nótt mun ég frelsa ykkur.‘ Hugsaðu þér hversu spenntir Ísraelsmenn hljóta að hafa verið!
Um miðnætti fór engill Jehóva í öll húsin í Egyptalandi. Í húsunum sem voru ekki merkt með blóði á dyrastöfunum dó elsti sonurinn. En engillinn fór fram hjá húsunum sem voru merkt með blóði. Það dó barn í öllum fjölskyldum í Egyptalandi, bæði ríkum og fátækum. En ekkert barn Ísraelsmanna dó.
Meira að segja dó sonur faraós. Faraó þoldi þetta ekki lengur og sagði við Móse og Aron: ‚Farið! Farið burt héðan! Farið og tilbiðjið Guð ykkar. Takið dýrin ykkar og farið!‘
Það var fullt tungl og Ísraelsmenn örkuðu af stað út úr Egyptalandi, hver ætt og fjölskylda saman. Það voru 600.000 ísraelskir karlar og margar konur og börn. Margir aðrir fóru líka með þeim til að þeir gætu líka tilbeðið Jehóva. Ísraelsmenn voru loksins frjálsir!
Þeir borðuðu sömu sérstöku máltíðina á hverju ári til að minna sig á hvernig Jehóva bjargaði þeim. Þetta voru kallaðir páskar.
„Ég hef látið þig halda lífi af þessari ástæðu: að nota þig sem dæmi til að sýna mátt minn og láta boða nafn mitt um alla jörðina.“ – Rómverjabréfið 9:17.