Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w19 júlí bls. 20-24
  • Að ná til hjartna fólks sem trúir ekki á Guð

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Að ná til hjartna fólks sem trúir ekki á Guð
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2019
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • VERTU JÁKVÆÐUR
  • NÁÐU TIL HJARTANS
  • AÐ KYNNA SANNLEIKANN FYRIR FÓLKI FRÁ ASÍU
  • Hjálpaðu trúlausu fólki að kynnast skapara sínum
    Líf okkar og boðun - vinnubók fyrir samkomur – 2023
  • Viðhöldum jákvæðu viðhorfi til boðunarinnar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2021
  • Hjálpum þeim sem eru ekki tilbúnir til að fara yfir bókina Hvað kennir Biblían?
    Ríkisþjónusta okkar – 2013
  • Þið unga fólk, styrkið trú ykkar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2016
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2019
w19 júlí bls. 20-24

NÁMSGREIN 30

Að ná til hjartna fólks sem trúir ekki á Guð

„Ég hef verið öllum allt til þess að ég geti að minnsta kosti frelsað nokkra.“ – 1. KOR. 9:22.

SÖNGUR 82 Látið ljós ykkar lýsa

YFIRLITa

1. Hvaða breyting hefur orðið sums staðar á síðustu áratugum?

UM ÞÚSUNDIR ára virðast flestir jarðarbúar hafa haft einhvers konar trú. Þetta hefur þó gerbreyst á síðustu áratugum. Þeim fjölgar sífellt sem standa utan trúfélaga eða segjast ekki vera trúaðir. Svo er komið að meirihluti fólks víða um lönd kallar sig trúlaust.b – Matt. 24:12.

2. Hver getur verið ástæðan fyrir því að margir standa utan trúfélaga eða líta á sig sem trúleysingja?

2 Hvers vegna fjölgar þeim sem standa utan trúfélaga eða líta á sig sem trúleysingja? Sumir eru uppteknir af áhyggjum sínum eða af því að njóta lífsins. (Lúk. 8:14) Sumir trúa ekki að Guð sé til. Aðrir trúa á Guð en finnst trúarbrögð gamaldags og óþörf og telja guðstrú stangast á við vísindi og rökhyggju. Þeir heyra vini, kennara og fjölmiðlafólk halda því fram að lífið hafi þróast en heyra sjaldan nein rök fyrir því að trúa á Guð. Sumir hafa andúð á prestum sem sækjast eftir fé og völdum. Og sums staðar hafa stjórnvöld sett skorður við trúarlegri starfsemi.

3. Hvert er markmiðið með þessari grein?

3 Jesús ætlast til þess að við ,gerum allar þjóðir að lærisveinum‘. (Matt. 28:19) Hvernig getum við kennt fólki sem telur sig vera trúlaust að elska Guð og verða lærisveinar Krists? Við þurfum að átta okkur á að viðbrögð fólks við boðskapnum geta verið breytileg eftir því hvar það ólst upp. Til dæmis má búast við að fólk af evrópskum uppruna bregðist öðruvísi við en fólk af asískum uppruna. Af hverju? Í Evrópu þekkja margir eitthvað til Biblíunnar og eru kunnugir þeirri hugmynd að Guð hafi skapað alla hluti. En í Asíu vita flestir lítið eða ekkert um Biblíuna og hugmyndin um skapara getur verið þeim framandi. Markmiðið með þessari grein er að hjálpa okkur að ná til hjartna allra sem við hittum í boðuninni, óháð uppruna þeirra.

VERTU JÁKVÆÐUR

4. Hvers vegna getum við verið jákvæð?

4 Vertu jákvæður. Á hverju ári bætist fólk við söfnuðinn sem taldi sig trúlaust áður. Margir þeirra aðhylltust þá þegar gott siðferði og höfðu andstyggð á trúarhræsni. Aðrir kærðu sig kollótta um gott siðferði og sumir þeirra þurftu að losa sig við slæma ávana. Við getum treyst að með hjálp Jehóva finnum við þá sem hafa rétta hugarfarið til að hljóta eilíft líf. – Post. 13:48; 1. Tím. 2:3, 4.

Bróðir vitnar fyrir samstarfsmanni á spítala en maðurinn skoðar síðan vefinn jw.org.

Lagaðu kynninguna að þeim sem hafa efasemdir um Biblíuna. (Sjá 5. og 6. grein.)c

5. Hver er oft ástæðan fyrir því að fólk tekur boðskap okkar vel?

5 Vertu hlýlegur og nærgætinn. Þegar fólk tekur boðskap okkar vel er það ekki endilega vegna þess hvað við segjum heldur oft hvernig við segjum það. Fólk kann að meta að við séum hlýleg og nærgætin og sýnum einlægan áhuga. Við neyðum það ekki til að hlusta á sjónarmið okkar heldur reynum að skilja ástæðuna fyrir afstöðu þess til trúarbragða. Sumir vilja til dæmis ekki ræða trúmál við ókunnuga. Sumum finnst ekki kurteisi að spyrja aðra manneskju hvaða hugmynd hún geri sér um Guð. Og öðrum finnst vandræðalegt að láta sjá til sín lesa í Biblíunni, sérstaklega með votti Jehóva. Hvernig sem menn hugsa reynum við að vera næm á skoðanir þeirra. – 2. Tím. 2:24.

6. Hvernig lagaði Páll postuli sig að áheyrendum og hvernig getum við líkt eftir honum?

6 Hvað er til ráða ef einhverjum líkar ekki að heyra orð eins og Biblían, sköpun, Guð eða trú? Við getum líkt eftir Páli postula og lagað kynninguna að viðmælandanum. Páll rökræddi út af Ritningunni þegar hann talaði við Gyðinga. En þegar hann ræddi við gríska heimspekinga á Areopagushæð vísaði hann aldrei beint í Biblíuna. (Post. 17:2, 3, 22–31) Hvernig getum við líkt eftir Páli? Ef þú hittir manneskju sem er ekki hrifin af Biblíunni er kannski best að vísa ekki beint til hennar. Ef þú skynjar að viðmælandanum finnst óþægilegt að aðrir sjái þig lesa fyrir hann í Biblíunni geturðu reynt að sýna honum ritningarstað svo minna beri á, til dæmis í snjalltæki.

7. Hvað gætum við þurft að gera til að líkja eftir Páli, samanber 1. Korintubréf 9:20–23?

7 Vertu skilningsríkur og hlustaðu vel. Við þurfum að reyna að skilja hvað hefur mótað hugsunarhátt fólks sem við hittum. (Orðskv. 20:5) Lítum aftur til Páls. Hann ólst upp meðal Gyðinga. En hann þurfti að laga boðun sína að fólki af þjóðunum sem vissi lítið eða ekkert um Jehóva og Ritninguna. Við þurfum ef til vill að leita okkur upplýsinga eða spyrja reynda boðbera í söfnuðinum ráða til að geta skilið fólkið á svæðinu og sett okkur í spor þess. – Lestu 1. Korintubréf 9:20–23.

8. Hvernig er meðal annars hægt að hefja samræður um Biblíuna?

8 Það er markmið okkar að finna þá sem eru ,verðugir‘. (Matt. 10:11) Til að ná árangri þurfum við að hvetja fólk til að tjá skoðanir sínar og hlusta síðan vel. Bróðir á Englandi spyr fólk hvernig það haldi að hægt sé að eiga hamingjuríkt hjónaband, hvernig sé gott að ala upp börn eða hvernig sé best að bregðast við óréttlæti. Eftir að hafa hlustað á svörin spyr hann: „Hvað finnst þér um þetta ráð sem var gefið fyrir næstum 2.000 árum?“ Síðan sýnir hann vel valið vers í farsímanum sínum án þess að nefna Biblíuna á nafn.

NÁÐU TIL HJARTANS

9. Hvernig getum við ef til vill hjálpað fólki sem forðast yfirleitt að ræða um Guð?

9 Við getum náð til hjartna þeirra sem forðast yfirleitt umræður um Guð með því að hefja máls á einhverju sem snertir þá. Margir eru til dæmis hugfangnir af náttúrunni. Við gætum kannski sagt eitthvað í þessa áttina: „Þú veist sennilega að margar uppfinningar urðu til með þeim hætti að vísindamenn líktu eftir fyrirbærum í náttúrunni. Þeir sem hanna hljóðnema reyna til dæmis að líkja eftir eyranu og þeir sem hanna myndavélar læra af auganu. Hvað heldurðu að standi að baki náttúrunni? Heldurðu að það sé ópersónulegur kraftur, persóna eða eitthvað annað?“ Eftir að hafa hlustað vel á svarið gætirðu bætt við: „Þegar verkfræðingar læra af hönnun eyrans og augans má velta fyrir sér af hverjum þeir eru að læra. Mér finnst athyglisvert það sem ljóðskáld orti endur fyrir löngu: ,Mun sá eigi heyra sem eyranu hefur plantað og sá eigi sjá sem augað hefur til búið ... hann, sem kennir manninum visku?‘ Sumir vísindamenn hafa komist að svipaðri niðurstöðu og skáldið.“ (Sálm. 94:9, 10) Síðan geturðu sýnt myndband á jw.org® undir „Viðtöl og frásögur“ í flokknum „Það sem sumir segja um uppruna lífsins“. (Þau er að finna undir ÚTGÁFA > MYNDBÖND.) Eins gætirðu gefið viðmælandanum bæklinginn Var lífið skapað?

10. Hvernig mætti hefja samræður við manneskju sem vill síður tala um Guð?

10 Flestir þrá bjarta framtíð. Margir óttast hins vegar að jörðin verði eyðilögð eða gerð óbyggileg. Farandumsjónarmaður í Noregi segir að fólk sem vill ekki ræða um Guð sé oft fúst til að tala um ástandið í heiminum. Eftir að hafa heilsað segir hann: „Telurðu að við eigum okkur einhverja von um bjarta framtíð? Heldurðu að stjórnmálamenn, vísindamenn eða einhverjir aðrir geti bætt ástandið?“ Eftir að hafa hlustað vel les hann eða vitnar í vers sem veitir von um bjarta framtíð. Loforð Biblíunnar um að jörðin standi að eilífu og gott fólk búi þar um alla framtíð vekur áhuga sumra. – Sálm. 37:29; Préd. 1:4.

11. Hvers vegna er gott að prófa mismunandi kynningar og hvernig getum við líkt eftir Páli, samanber Rómverjabréfið 1:14–16?

11 Við ættum að vera með nokkrar ólíkar kynningar í handraðanum. Af hverju? Af því að engar tvær manneskjur eru eins. Það sem einum finnst áhugavert höfðar alls ekki til annars. Sumir eru til í að ræða um Guð eða Biblíuna en aðrir bregðast betur við ef við nálgumst málið með óbeinum hætti. Hvort heldur er ættum við að reyna að tala við alla. (Lestu Rómverjabréfið 1:14–16.) Við höfum þó auðvitað hugfast að það er Jehóva sem lætur frækorn sannleikans vaxa í hjörtum þeirra sem hafa rétt hugarfar. – 1. Kor. 3:6, 7.

AÐ KYNNA SANNLEIKANN FYRIR FÓLKI FRÁ ASÍU

Vottur Jehóva kynnir hagnýt ráð Biblíunnar fyrir konu frá landi þar sem kristni er ekki útbreidd.

Margir boðberar Guðsríkis sýna einlægan áhuga á fólki frá löndum þar sem kristni er ekki útbreidd og kynna fyrir því hagnýt ráð Biblíunnar. (Sjá 12. og 13. grein.)

12. Hvernig getum við náð til fólks frá Asíulöndum sem hefur aldrei velt alvarlega fyrir sér hvort til sé skapari?

12 Margir boðberar víða um heim hitta fólk frá ýmsum Asíulöndum, meðal annars stöðum þar sem stjórnvöld setja skorður við trúarlegri starfsemi. Í sumum löndum Asíu hafa margir aldrei velt alvarlega fyrir sér hvort til sé skapari. Sumir eru forvitnir og þiggja boð um biblíunámskeið en aðrir eru hikandi í fyrstu við að skoða framandi hugmyndir. Hvernig getum við náð til þeirra? Sumir reyndir boðberar ná góðum árangri með því byrja á að spjalla um daginn og veginn og sýna viðmælandanum áhuga. Þeir velja síðan viðeigandi stund til að segja frá jákvæðum áhrifum sem það hafði á þá sjálfa að tileinka sér ákveðna meginreglu Biblíunnar.

13. Hvað getur vakið áhuga fólks á Biblíunni? (Sjá forsíðumynd.)

13 Viska og raunsæi Biblíunnar er það fyrsta sem margir hrífast af. (Préd. 7:12) Systir í New York sem heimsækir mandarín-mælandi fólk segir: „Ég reyni að sýna fólki áhuga og hlusta á það. Ef það er nýflutt til landsins spyr ég stundum: ,Hvernig gengur þér að aðlagast? Ertu búinn að finna vinnu? Koma heimamenn vel fram við þig?‘“ Þetta getur skapað tækifæri til að koma einhverju úr Biblíunni á framfæri. Þegar við á bætir systirin stundum við: „Hvað heldurðu að hjálpi manni að eiga góð samskipti við aðra? Má ég sýna þér máltæki í Biblíunni? Það er svona: ,Þegar deila kviknar er sem tekin sé úr stífla, láttu hana því niður falla áður en sennan hefst.‘ Heldurðu að þetta ráð geti stuðlað að góðum samskiptum?“ (Orðskv. 17:14) Með því að ræða við fólk á þennan hátt er hægt að átta sig á hvort ástæða sé til að heimsækja það aftur.

14. Hvernig ræðir bróðir í Austurlöndum fjær við fólk sem segist ekki trúa á Guð?

14 Hvað um þá sem segjast ekki trúa á Guð? Bróðir í Austurlöndum fjær sem hefur langa reynslu af að boða slíku fólki trúna segir: „Þegar fólk hér segist ekki trúa á Guð á það yfirleitt við að það trúi ekki að það þurfi að tilbiðja þá guði sem flestir hér um slóðir hafa trúað á um aldaraðir. Ég tek venjulega undir og nefni að flestir guðir séu uppfinning manna en ekki raunverulegir. Ég les oft Jeremía 16:20: ,Getur maðurinn gert sér guði? Það væru engir guðir.‘ Síðan spyr ég: ,Hvernig er hægt að gera greinarmun á sönnum guði og þeim sem eru uppfinning manna?‘ Ég hlusta vel á svarið og les síðan Jesaja 41:23: ,Segið frá því sem verður svo að oss verði ljóst að þér séuð guðir.‘ Eftir það bendi ég á dæmi þar sem Jehóva hefur sagt fyrir ókominn atburð.“

15. Hvað má læra af bróður í Austur-Asíu?

15 Bróðir í Austur-Asíu notar eftirfarandi aðferð þegar hann heimsækir fólk aftur. Hann segir: „Ég sýni dæmi um visku Biblíunnar, bendi á spádóma sem hafa ræst og minnist á náttúrulögmálin sem stjórna alheiminum. Síðan nefni ég að þetta bendi allt til þess að það sé til lifandi og vitur skapari. Þegar viðmælandinn fellst á að það geti verið til Guð bendi ég honum á hvað Biblían segir um Jehóva.“

16. Hvers vegna þurfa nemendur að byggja upp trú sína á Guð og Biblíuna samkvæmt Hebreabréfinu 11:6 og hvernig getum við hjálpað þeim til þess?

16 Þegar við kennum biblíunemendum sem ólust upp við þá trú að Guð sé ekki til þurfum við jafnt og þétt að byggja upp trú þeirra á tilvist Guðs. (Lestu Hebreabréfið 11:6.) Við þurfum líka að hjálpa þeim að styrkja trú sína á Biblíuna. Sumt getur verið nauðsynlegt að endurtaka margsinnis. Við getum þurft að benda á rök fyrir því í hverri námsstund að Biblían sé orð Guðs. Þetta gæti verið stutt umfjöllun um spádóma Biblíunnar sem hafa ræst, um vísindalega og sögulega nákvæmni hennar eða hagnýt ráð hennar.

17. Hvaða áhrif getum við haft á fólk með því að sýna kærleika?

17 Við hjálpum fólki að verða lærisveinar Krists með því að sýna því kærleika, hvort sem um er að ræða trúað fólk eða ekki. (1. Kor. 13:1) Þegar við kennum er markmiðið að sýna fram á að Guð elskar okkur og vill að við elskum hann. Á hverju ári skírist fólk í þúsundatali sem hefur lært að elska Guð en hafði áður lítinn eða engan trúarlegan áhuga. Vertu því jákvæður og sýndu öllum einlægan áhuga. Hlustaðu á fólk. Reyndu að skilja það. Kenndu því með fordæmi þínu að verða lærisveinar Krists.

HVERJU SVARAR ÞÚ?

  • Hvernig getum við verið jákvæð í boðuninni?

  • Hvernig getum við náð til hjartna þeirra sem trúa ekki á Guð?

  • Af hverju ættum við að segja öllum sem við hittum frá sannleikanum?

SÖNGUR 76 Hvaða kennd finnur þú?

a Það er orðið mun algengara en áður að hitta fólk sem segist ekki trúa á Guð. Í þessari grein er rætt hvernig við getum komið sannleika Biblíunnar á framfæri við þá sem hugsa þannig, og hjálpað þeim að treysta Biblíunni og byggja upp trú á Jehóva Guð.

b Af löndum þar sem margir kalla sig trúalausa samkvæmt könnunum má nefna Albaníu, Aserbaísjan, Austurríki, Ástralíu, Bretland, Danmörku, Frakkland, Holland, Hong Kong, Írland, Ísrael, Japan, Kanada, Kína, Noreg, Spán, Suður-Kóreu, Sviss, Svíþjóð, Tékkland, Víetnam og Þýskaland.

c MYND: Bróðir vitnar fyrir samstarfsmanni á spítala en maðurinn skoðar síðan vefinn jw.org.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila