Höldum áfram að segja: „Kom þú!“
1 Dásamleg er sú ráðstöfun sem Jehóva hefur gert með lausnarfórn Jesú. Í henni finnum við grundvöll alls þess sem þarf til að gera fólk sannarlega hamingjusamt. (Jóh. 3:16) Samt sem áður hafa því miður mjög fáir kynnst þessum sannleika og öðlast sterka trú á hann. Jehóva hefur gert ráðstafanir til að láta kunngera fólki alls staðar þessi fagnaðartíðindi. Fyrir milligöngu sonar síns, Jesú Krists, hefur hann fært öllum tækifæri til að finna hamingju og von um eilíft líf. — Jóh. 17:3.
2 Um þúsundir ára var óþekkt hver sá yrði sem myndi endurleysa mannkynið frá synd og dauða. Það var ‚helgur leyndardómur‘ uns Kristur Jesús kom og „leiddi í ljós líf og óforgengileika með fagnaðarerindinu.“ (Rómv. 16:25; 2. Tím. 1:10) Fylgjendur Jesú tóku upp boðun þessa fagnaðarerindis á fyrstu öldinni; við sem núna lifum höfum þau miklu sérréttindi að kunngera þetta sama fagnaðarerindi. Þegar við prédikum með kostgæfni boðskapinn um Guðsríki erum við þátttakendur með Jehóva Guði, Jesú Kristi og bræðrum Krists í að bjóða fólki af öllum þjóðfélagsstigum með því að segja: „Kom þú!. . . [tak] ókeypis lífsins vatn.“ — Opinb. 22:17.
3 Vitaskuld munu ekki allir ljá þessu fagnaðarerindi eyra. Mjög fáir gefa því náinn gaum. Sumir vísa þjónum Guðs, sem bjóða þeim að njóta góðs af lífgefandi vötnum sannleikans, ruddalega á bug. Engu að síður höldum við áfram þessu starfi með styrk frá Jehóva. Við vitum að fúsleiki okkar til að tala sannleikann og hjálpa hverjum sem heyra vill er Jehóva þóknanlegur og færir blessun hans.
4 Í starfi okkar í mars munum við hvetja sannleiksleitendur til að lesa Sköpunarbókina og fagna í þeirri von sem hún setur fram. Það mun færa þeim mikla blessun. Þó að Sköpunarbókin fjalli að mestu leyti um það sem gerðist í fortíðinni þá gefur sú umfjöllun trausta von um framtíðina því hún sýnir með traustum rökum að kærleiksríkur skapari stendur á bak við tilveruna og hefur stórkostlegan tilgang með sköpunarverkinu. Við höfum nýlega numið Sköpunarbókina rækilega í safnaðarbóknáminu og þekkjum því vel þýðingu hennar fyrir hreinhjartað fólk sem hungrar í sannleikann. Þegar við finnum slíkt fólk munum við sérstaklega leitast við að vekja athygli þess á einu atriði eða tveimur í Sköpunarbókinni sem undirstrikar gildi hennar. Meðal annars gætum við bent á hvað steingervingaskráin í raun segir, eða lagt áherslu á síðasta hluta bókarinnar og bent á rök fyrir því að hægt sé að treysta Biblíunni.
5 Það er svo sannarlega rétt og viðeigandi af okkur að tala um kærleiksríkar ráðstafanir Jehóva mannkyninu til handa er við búum okkur undir að halda minningarhátíðina um dauða Krists hátíðlega hinn 6. apríl. Hvort sem fólk kýs að hlusta eða ekki höldum við ótrauð áfram því verki, sem Guð hefur falið okkur, að færa öllum sem vilja hið hjartnæma boð: „Kom þú!. . . [tak] ókeypis lífsins vatn.“