Förum fljótlega aftur
1 Prédikunarstarf okkar gefur fólki tækifæri til að fá gagnlega fræðslu sem hjálpar því að takast með góðum árangri á við vandamál lífsins. En til þess að hún komi mönnum að varanlegum notum verða þeir ganga eftir þeim vegi sem Jehóva vísar þeim á. (Jes. 48:17, 18) Líf manna er í húfi. Láttu þess vegna ekki hjá líða að fara fljótlega aftur til þeirra sem sýndu orðum þínum áhuga.
2 Ef þú skildir eftir „Fjölskyldubókina“ gætir þú sagt:
◼ „Það er ánægjulegt að hitta þig aftur. Síðast ræddum við um hvar við getum fengið góðar leiðbeiningar varðandi fjölskyldulífið og ég skildi eftir hjá þér bók sem dregur þessar leiðbeiningar skýrt fram. En hamingjuríkt fjölskyldulíf eyðir þó ekki áhyggjum okkar af framtíðinni. Síðasti kafli bókarinnar fjallar um þá framtíðarvon sem Biblían gefur okkur. Mætti ég fá að nota fáeinar mínútur til að sýna þér hverjar þessar framtíðarhorfur eru?“ Notaðu síðan valið efni úr 14. kaflanum til að útskýra það og leggðu grunninn að annarri heimsókn.
3 Ef þú skildir eftir smáritið „Farsælt fjölskyldulíf“ í fyrstu heimsókn gætir þú sagt eitthvað á þessa leið:
◼ „Við ræddum saman nýlega um hvernig fjölskyldulífinu hefur hnignað þrátt fyrir mikla umfjöllun um það á seinni árum. Gæti verið að mönnum yfirsjáist þær leiðbeiningar sem mestu máli skipta? Ef svo er þá er það ekkert nýtt. Um Ísraelsmenn til forna segir í Biblíunni: . . . [Lestu Jeremía 2:13.] Jafnvel í löndum, sem kallast kristin, hafa flestir yfirgefið skaparann, hafnað leiðbeiningum hans, ef ekki í orði þá í verki. En Biblían sagði það fyrir.“ Lestu síðan 2. Tímóteusarbréf 3:1, 5 og spyrðu húsráðandann hvort honum finnist þessi lýsing eiga við nú á tímum. Nefndu að þú viljir koma aftur og ræða meira um þetta efni og þá góðu leiðsögn sem Biblían gefur. Segðu honum einnig hvað opinberi fyrirlesturinn næsta sunnudag heitir og bjóddu honum að koma.
4 Ef þú bauðst húsráðandanum til minningarhátíðarinnar gætir þú sagt:
◼ „Síðast töluðum við um hversu dauði Jesú er þýðingarmikill fyrir mannkynið. Ég bauð þér einnig að sækja minningarhátíðina um dauða hans sem kristnir menn um allan heim munu halda hinn 26. mars. Ég er kominn í dag til að minna þig á að þér er boðið að vera viðstaddur þessa mikilvægu minningarhátíð. [Nefndu stund og stað.] Ef við rifjum upp nokkrar af þeim blessunum sem við njótum núna og eigum eftir að njóta vegna þess sem Jesús gerði fyrir mannkynið gæti það hjálpað þér að sjá þýðingu þessarar minningarhátíðar.“ Reyndu síðan að ræða viðeigandi atriði út frá nýlegu blaði eða bæklingi. Sé það mögulegt skaltu gera ráðstafanir til að hjálpa hinum áhugasama einstaklingi að koma til minningarhátíðarinnar.
5 Ef viðmælandi þinn lét við það sitja að hlusta með athygli gæti gefið góða raun að segja:
◼ „Ég hafði mikla ánægju af nýlegu samtali okkar um Biblíuna. Ég er kominn aftur af því að ég vildi gjarnan sjá þig njóta þess sem Guð hefur lofað þeim sem vilja læra meira um hann.“ Lestu Jóhannes 17:3 og taktu fram smáritið Líf í friðsömum nýjum heimi.
6 Megi lífsgleði þín og þakklæti fyrir lausnargjaldið fá þig til að fara fljótlega aftur til áhugasamra manna. Hjálpaðu þeim til að bregðast rétt við fagnaðarboðskapnum. Hafðu í huga að „tíminn er í nánd“! — Opinb. 1:3.