Bendum fólki á bestu leiðbeiningarnar um hamingjuríkt fjölskyldulíf
1 Hinar ‚örðugu tíðir,‘ sem menn þyrftu að kljást við á hinum „síðustu dögum,“ áttu meðal annars að einkennast af erfiðleikum innan fjölskyldunnar. Börn og unglingar yrðu „foreldrum óhlýðnir“ og vanþakklæti, kærleiksleysi, ósáttfýsi og taumleysi myndi hafa veruleg áhrif á samskipti manna innan fjölskyldunnar.
2 Heimurinn viðurkennir mikilvægi fjölskyldufyrirkomulagsins og nauðsyn þess að varðveita það. Sameinuðu þjóðirnar hafa þess vegna ákveðið að árið 1994 skuli tileinkað fjölskyldunni. En þrátt fyrir alla sérfræðingana, stofnanirnar, bækurnar og umræðurnar um málefni fjölskyldunnar er ekkert lát á fjölskylduerfiðleikum. Hvers vegna? Fyrst og fremst vegna þess að menn fylgja ekki leiðsögn stofnanda hjónabandsins og fjölskyldunnar, Jehóva Guðs. Í mars vekjum við sérstaka athygli á leiðbeiningum Guðs varðandi fjölskylduna með því að bjóða bókina Fjölskyldulíf þitt gert hamingjuríkt.
3 Við gætum kynnt okkur og sagt eitthvað á þessa leið:
◼ „Skoðanakannanir hafa sýnt að flestir taka farsælt fjölskyldulíf fram yfir annað í lífinu, telja það mikilvægara en til dæmis starfsframa og háar tekjur. Sjaldan hefur verið jafnmikið rætt um fjölskyldumálefni og síðustu árin og sérfræðingar á þessu sviði verða sífellt fleiri. Þrátt fyrir þetta fjölgar hjónaskilnuðum og alls konar fjölskylduerfiðleikar aukast. Hver gæti ástæðan verið?“ Gefðu húsráðandanum kost á að svara. Taktu fram smáritið Farsælt fjölskyldulíf. Berðu upp spurningarnar fyrir ofan millifyrirsögnina „Uppruni fjölskyldunnar“ á blaðsíðu 2 og lestu síðan næstu grein. Ef húsráðandinn sýnir áhuga gætir þú bent á einn eða tvo af ritningarstöðunum á blaðsíðu 4 og 5 og síðan stuttlega kynnt og boðið Fjölskyldubókina. Gerðu ráðstafanir til að koma í endurheimsókn. Ef áhuginn er lítill sem enginn skaltu láta nægja að skilja smáritið eftir.
4 Önnur aðferð, sem þú vilt ef til vill nota, er þessi:
◼ „Sameinuðu þjóðirnar hafa ákveðið að árið 1994 skuli helgað málefnum fjölskyldunnar. Finnst þér þörf á að leggja slíka áherslu á fjölskylduna og fjölskyldulífið? [Gefðu kost á svari.] Virt fræðirit lýsir mikilvægi fjölskyldunnar á eftirfarandi hátt. [Lestu tilvitnunina efst á blaðsíðu 6 í Fjölskyldubókinni.] Það er því eðlilegt að mönnum sé umhugað um fjölskyldulíf sitt. En hvar fá þeir bestu leiðbeiningarnar? [Gefðu kost á svari.] Framleiðandi vélar lætur notkunarleiðbeiningar fylgja henni. Höfundur fjölskyldunnar hefur einnig gefið leiðbeiningar um farsælt fjölskyldulíf. Þær eru í Biblíunni og þessi bók, Fjölskyldulíf þitt gert hamingjuríkt, sýnir hverjar þær eru og hvernig má beita þeim.“ Ef áhugi er fyrir hendi skaltu bjóða bókina en annars smáritið.
5 Láttu ekki hjá líða að bjóða hverjum þeim sem sýnir áhuga að koma á minningarhátíðina. Með blessun Jehóva kannt þú að geta hjálpað einhverjum að fylgja leiðbeiningum hans sem ‚kennir okkur að gera það sem okkur er gagnlegt og vísar okkur þann veg sem við skulum ganga.‘ — Jes. 48:17.