Hjálpum öðrum að búa sig undir inngöngu í ríki Friðarhöfðingjans
1 Það er ekki nóg að „heyra“ spádómsorðin um ríki Friðarhöfðingjans. Til þess að hafa fullt gagn af verða menn að „varðveita“ það sem ritað er, fara eftir því. (Opinb. 1:3) Að koma ritum í hendur fólks er aðeins byrjunarskrefið í átt að því að gera menn að lærisveinum. Þegar við eitt sinn höfum fundið áhugasama sem eru fúsir að hlusta ættum við ekki að láta dragast að fara aftur til þeirra til að hjálpa þeim að læra meira. Hvað getum við talað um í endurheimsókn okkar?
2 Hafir þú talað um táknrænu riddarana fjóra í fyrri heimsókn þinni gætir þú hafið samræðurnar á þessa leið:
◼ „Síðast töluðum við um hvernig spádómar í Opinberunarbókinni eru að uppfyllast í heimsatburðunum. Í 6. kafla Opinberunarbókarinnar er spáð reið fjögurra táknrænna riddara sem hefði í för með sér mikið ofbeldi og þrautir á jörðinni. Við höfum séð þetta gerast beint fyrir augum okkar. Margir velta fyrir sér hvenær þessar þjáningar endi svo að við getum fengið að njóta lífsins í friðsælum heimi. Hvað heldur þú? [Gefðu kost á svari.] Lærisveinar Jesú höfðu áhuga á svarinu við þeirri spurningu.“ Lestu Matteus 24:3, þar sem spurningin er borin fram, og síðan vers 34, þar sem Jesús svarar henni. Ef viðbrögðin eru jákvæð skaltu útskýra meira um hina síðustu daga.
3 Hafir þú talað um ríki Guðs í fyrstu heimsókninni gætir þú tekið upp þráðinn með því að spyrja:
◼ „Hvernig stjórn álítur þú að nauðsynleg sé til að fullnægja öllum þörfum manna? [Gefðu kost á svari. Lestu Jeremía 10:23.] Eins og þú sérð var það aldrei ætlun Guðs að maðurinn skyldi stýra eigin málefnum. Tilraunir til að gera það án hjálpar Guðs eru ástæða flestra vandamála okkar. Guðsríki er eina stjórnin sem getur fært okkur það sem við þurfum. Flettu upp á blaðsíðu 230 í Rökræðubókinni og ræddu um ritningarstaðina undir fyrstu millifyrirsögninni. Haltu samræðunum áfram með því að útskýra hvers vegna við getum treyst algerlega á Guð.
4 Þú vilt kannski reyna þetta til að koma af stað biblíulegum samræðum:
◼ Sýndu myndina á blaðsíðu 172-3 í bókinni um Friðarhöfðingjann og segðu: „Þegar sá tími rennur upp að vilji Guðs verður gerður á jörðu eins og er á himni mun mannkynið búa við aðstæður eins og hér er dregin upp mynd af. En sumir eru hræddir um að slæmt ástand komi upp á ný þegar tímar líða. Það er þó ástæðulaust að óttast það af því að allir illgerðarmenn verða horfnir.“ Lestu Sálm 37:10, 11. Bjóddu húsráðandanum að nýta sér boð okkar um biblíunám til að læra meira frá orði Guðs.
5 Hafir þú skilið eftir smáritið „Líf í friðsælum nýjum heimi“:
◼ Þú gætir bent á myndina á forsíðunni og síðan lesið fyrstu greinina undir fyrirsögninni „Líf í nýjum heimi Guðs.“ Segðu síðan: „Ef við viljum lifa í slíkum heimi verðum við að gera svolítið sem er mikilvægt.“ Lestu síðustu greinina og bjóddu bókina Öryggi um allan heim undir stjórn Friðarhöfðingjans.
6 Þar sem markmið okkar er að stofna biblíunám þurfum við að fara í áhrifaríkar endurheimsóknir. Tökum frá tíma til þess og undirbúum okkur vel. Á þann hátt getum við sannarlega hjálpað hjartahreinu fólki. — Opinb. 22:6, 7.