Notum bæklinga til að leita uppi þá sem hafa áhuga
1 Bæklingar eru öflug tæki. Á aðeins 32 blaðsíðum getur bæklingur sett fram biblíuleg sannindi, stutt þau óhrekjandi rökum og kollvarpað röksemdafærslu og kenningum sem eru gagnstæðar þekkingunni á Guði. — 2. Kor. 10:5.
2 Maður nokkur las bæklinginn Vottar Jehóva — sameinaðir í að gera vilja Guðs um allan heim, og það fékk hann til að skrifa: „Ég hef aldrei séð slíkt skipulag. . . . Það er stórkostlegt að finna fólk sem tekur vilja Guðs svona alvarlega núna þegar trúhræsni er svo algeng.“ Töfralæknir í Afríku nam bæklinginn Njóttu lífsins á jörðinni að eilífu! Hvaða áhrif hafði það á hann? Hann hætti töfralækningum og sendi frá sér sambýliskonur sínar nema þá elstu. Síðan gengu þau í löglegt hjónaband.
3 Bæklingurinn Ættum við að trúa á þrenninguna? er áhrifaríkt verkfæri sem setur fram rökföst sannindi og styður þau traustum heimildum. Maður, sem ritar um trúmál í blaðið The Sunday Gleaner á Jamaíka í Vestur-Indíum, segir um þetta: „Með útgáfu bæklingsins . . . slá vottarnir meistarahögg, og núna er enginn þrenningarsinni — eða tvenningarsinni — óhultur. Bæklingurinn hleður tilvitnun á tilvitnun ofan frá heimildum innan sagnfræðinnar og guðfræðinnar til að sýna að þrenningarkenningin var ekki leidd út af Biblíunni. . . . Það er mjög erfitt fyrir þann sem hér ritar um trúmál að sjá hvernig hinn dæmigerði kirkjugestur — eða jafnvel sá sem er meira en dæmigerður — getur svarað hinum knýjandi og áhrifamiklu rökum sem vottarnir fylkja hér fram gegn þeirri skoðun að Jesús sé Guð.“
4 Notum þá vel: Til að þessir aðlaðandi og áreiðanlegu bæklingar komi að fullum notum verður að dreifa þeim til fólks sem mun lesa þá. Við höfum ýmsa bæklinga sem hver fjallar um mismunandi efni og ættum þess vegna að leitast við að bjóða þann sem við metum svo að eigi best við viðmælanda okkar. Ef við þekkjum bæklingana okkar og höfum úrval þeirra við höndina er auðveldara að nota þá vel, hvort sem það er í boðunarstarfinu, heima eða annars staðar.
5 Hvaða bækling myndir þú til dæmis nota ef þú værir að tala við einhvern sem er ráðvilltur vegna þrenningarkenningar kristna heimsins eða heldur að Jesús sé Guð? Hvaða bæklingur myndi mæta þörf þess sem veltir fyrir sér hvers vegna kærleiksríkur Guð leyfir svo miklar þjáningar? Hver gæti verið rétti bæklingurinn fyrir þann sem lætur í ljós að þörf sé á stjórn sem kemur þegnunum að gagni?
6 Auk þess að vita hvaða bækling skal nota ættir þú að leitast við að vekja áhuga viðmælanda þíns á innihaldi hans. Ef kringumstæður leyfa skalt þú benda á texta eða myndir sem gætu hvatt hann til að lesa bæklinginn. Þú gætir líka lesið með honum eina eða tvær efnisgreinar, flett upp ritningarstöðum og rætt um efnið. Mörg góð biblíunám hafa hafist á þennan hátt.
7 Bæklingarnir okkar koma með svör frá Ritningunni og glæða von hjá þeim sem andvarpa og kveina yfir öllum þeim viðurstyggðum sem framdar eru í heiminum. (Samanber Esekíel 9:4.) Sauðumlíkir menn bregðast vel við boðskapnum sem slík rit innihalda. Það eru sérréttindi okkar að leita uppi og finna áhugasamt fólk með því að nota bæklingana vel í öllum greinum þjónustu okkar.