Notum Varðturninn og Vaknið! vel
1 Varðturninn og Vaknið! eru verðmætustu og gagnlegustu tímarit sem fólk getur lesið nú á dögum. Hvers vegna? Vegna þess að andlegu sannindin, sem þau innihalda, geta haft eilíf áhrif til góðs á líf manna. Margir eru sér hins vegar ekki fyllilega meðvitandi um andlega þörf sína eða vita ekki hvert þeir eiga að snúa sér til að fullnægja henni. Það eru sérréttindi okkar að líkja eftir Páli postula með því að hjálpa fólki að opna augun fyrir því sem andlegt er. — Matt. 5:3; Post. 26:18.
2 Vertu jákvæður og undirbúðu þig vel: Líklega er sauðumlíkt fólk á þínu svæði sem mun bregðast vel við sannleikanum. Sumir þurfa kannski einungis vingjarnleg hvatningarorð til að þeir lesi blöðin. Vertu þess vegna jákvæður og sannfærandi þegar þú býður Varðturninn og Vaknið! Hafðu birgðir af blöðunum við höndina og nýttu þér sérhvert tækifæri til að útbreiða þau, jafnvel þegar þú ert einkum að bjóða önnur rit.
3 Hvað getur hjálpað okkur að ná meiri árangri í að dreifa blöðunum? Við verðum í fyrsta lagi að kunna sjálf að meta gildi þeirra. Við ættum að þekkja vel greinarnar í blöðunum sem við erum að bjóða og þá munum við kynna þau af meira öryggi og ákafa. Hafðu það í huga þegar þú lest þau í byrjun. Vertu vakandi fyrir því að velja atriði til að benda á í starfinu. Spyrðu sjálfan þig: ‚Til hverra höfðar þessi grein einkum? Myndi húsmóðir, ungmenni eða jafnvel kaupsýslumaður kunna að meta hana? Ætli hún veki forvitni gifts fólks, nemenda eða þeirra sem láta sig umhverfismál varða?‘ Til að geta kynnt blöðin á áhrifaríkan hátt ættum við að geta mælt með þeim út frá eigin reynslu og ánægju af því að lesa tímabæru greinarnar í þeim.
4 Notum vel eldri tölublöð: Mundu að Varðturninn og Vaknið! missa ekki gildi sitt þótt ekki sé búið að koma þeim í hendur fólks innan nokkurra mánaða frá útgáfudegi. Þótt tíminn líði dregur það ekki úr mikilvægi efnisins og við skyldum ekki hika við að bjóða eldri tölublöð ef þau líta vel út. Ef við leyfum eldri blöðum að safnast upp og notum þau aldrei sýnir það að við metum ekki þessi verðmætu verkfæri sem skyldi. Hvert tölublað inniheldur sannindi sem geta vakið upp og satt andlegt hungur. Er ekki betra að gera sér sérstakt far um að koma eldri tölublöðum í hendur áhugasamra manna, eða að minnsta kosti skilja þau eftir á lítt áberandi stað þegar enginn er heima, heldur en að leggja þau einungis til hliðar og síðan gleyma þeim?
5 Vaknið! hefur hjálpað mörgum, sem í fyrstu voru ekki andlega sinnaðir, að verða sér meðvitandi um andlega þörf sína. Varðturninn er helsta verkfærið sem notað er til að gefa fólki Jehóva andlega fæðu. Þessi tímarit mynda í sameiningu áhrifamikla og sterka heild og þau gegna bráðnauðsynlegu hlutverki í prédikun fagnaðarboðskaparins.
6 Þegar við notum sérhvert tækifæri til að útbreiða blöðin getum við treyst fullkomlega að þau séu áhrifarík verkfæri til að mæta þörfum sauðumlíkra manna. Við viljum ávallt vera jákvæð, vel undirbúin og taka reglulega þátt í boðunarstarfinu. Megum við öll sem boðberar fagnaðarerindisins nota Varðturninn og Vaknið! vel.