Förum aftur til að örva áhuga fólks á Biblíunni
1 Í boðunarstarfinu hittum við stundum fólk sem sýnir einhvern áhuga á fagnaðarerindinu en er of upptekið til að tala við okkur þá stundina. Reynum við að fara aftur seinna til að færa því boðskapinn um Guðsríki? Ef til vill eigum við áhugaverðar samræður við húsráðanda en hann þiggur engin rit hjá okkur. Förum við aftur til að tala meira við hann um sannleikann?
2 Það er mikilvægt að fara rækilega yfir svæðið og fylgja eftir öllum þeim áhuga sem við finnum. Förum við í endurheimsóknir aðeins til þeirra sem þiggja bók, bækling eða blað? Ef svo er má vera að okkur sjáist yfir suma sem hafa áhuga. Sannarlega viljum við ekki dæma einhvern sem óverðugan þess að fá frekari andlega fræðslu aðeins vegna þess að hann þáði ekki rit. (Samanber Rómverjabréfið 14:4.) Ef til vill hugsar húsráðandi, eftir að við erum farin, um það sem við sögðum eða fer að meta það sem við lögðum á okkur til að heimsækja hann. Viðhorf hans kann að vera jákvæðara þegar við komum aftur.
3 Þegar þú ferð aftur til þess sem var upptekinn gætir þú sagt:
◼ „Það gleður mig að hitta þig aftur. Síðast þegar ég var hér gátum við nær ekkert rætt saman af því að þú varst tímabundinn. Ég sé að þú ert upptekinn maður svo að ég skal vera stuttorður. Þér er líklega annt um heilsu þína og ástvina þinna. En vissir þú að Guð hefur heitið því að binda enda á allt heilsuleysi og sjúkdóma? Væri það ekki dásamlegt? [Leyfðu honum að svara.] Taktu eftir því sem segir í grein 4 í þessum bæklingi sem heitir ‚Sjá, ég gjöri alla hluti nýja.‘“ Ef tími leyfir skalt þú lesa greinina og síðan taka til umfjöllunar einn af ritningarstöðunum neðst á blaðsíðu 4 sem dregur upp mynd af ástandinu í nýja heiminum. Ef húsráðandinn er móttækilegur gætir þú ef til vill stofnað heimabiblíunám. En mundu eftir að þú sagðist ætla að vera stuttorður. Betra er að koma fljótlega aftur en dvelja of lengi í hvert sinn.
4 Þegar þú heimsækir aftur einhvern sem tók við smáriti gætir þú sagt eitthvað á þessa leið:
◼ „Síðast þegar ég hitti þig tókst þú við eintaki af þessu smáriti sem ber heitið Mun þessi heimur bjargast? Finnst þér erfitt að meðtaka þá hugmynd að heimurinn geti hugsanlega liðið undir lok? [Gefðu kost á svari.] Eins og margir vita talar Biblían greinilega um heimsendi og líkir honum við heimsflóðið á dögum Nóa. Taktu eftir því sem segir hér í þriðju efnisgreininni á blaðsíðu 2.“ Lestu greinina og varpaðu síðan fram spurningum eins og þessum: „En er mannheimurinn eitthvað betri núna en sá sem fórst á dögum Nóa? Og hver ætli verði þá framtíð hans?“ Eftir að húsráðandinn hefur gefið sínar athugasemdir gætuð þið skoðað saman aðra og þriðju efnisgreinina á blaðsíðu 3. Þú gætir haldið áfram að fara yfir smáritið eða snúið þér að því að kynna bæklinginn Ber Guð í raun umhyggju fyrir okkur? og rætt um tölugrein 1 og 2 á blaðsíðu 19.
5 Góð ástæða er til að vera jákvæður og fylgja eftir þeim áhuga sem við finnum þegar við prédikum, jafnvel þótt hann komi fram í takmörkuðum mæli. Mikilvægt er að við berum umhyggju fyrir öðrum og að okkur langi til að hjálpa þeim að kynnast sannleikanum. Skipulag Jehóva lætur í té rit og kemur með tillögur um kynningarorð sem geta hjálpað okkur að vekja fólk til meðvitundar um andlega þörf sína. — Matt. 5:3.
6 Ef þú hefur átt ánægjulegar samræður við einhvern sem virðist hafa sýnt þótt ekki væri nema svolítinn áhuga skalt þú ekki vanrækja það að fara aftur og glæða þennan áhuga. Það gæti leitt til biblíunáms og komið einhverjum inn á veginn til lífsins. Við hvetjum alla til að halda samviskusamlega áfram að taka þátt í þessu mikilvæga starfi sem bjargað getur mannslífum. — 1. Tím. 4:16.