Byggjum upp trú á skapara mannsins
1 Flestir hafa komist að einhvers konar niðurstöðu um uppruna lífsins. Það er miður að margir skuli ranglega hafa látið koma sér til að meðtaka þróunarkenninguna. Sköpunarbókin skoðar báðar hliðar þessa máls ofan í kjölinn og kemur með yfirgnæfandi sönnun til stuðnings Biblíunni. Hvernig getum við hjálpað einlægu fólki sem hefur sýnt sig fúst til að hlusta? Með því að fara í endurheimsóknir. Þegar við komum aftur er alltaf gott að hafa eitthvað ákveðið í huga til að segja sem byggir upp trú á Jehóva sem skapara okkar.
2 Þetta gæti verið áhrifarík leið til að hefja samræður ef húsráðandinn sýndi að hann trúir á Biblíuna:
◼ „Í Jesaja 45:18 er kveðið fast að orði um uppruna alheimsins. Mig langar til að vita hvað þér finnst um þetta. [Lestu og gefðu kost á svari.] Jehóva segir sjálfan sig vera skapara himins og jarðar. En hvað um lífið á jörðinni? Jesaja 42:5 gefur honum líka allan heiðurinn af því. [Lestu.] Ef það sem Biblían segir er satt hlýtur þróunarkenningin að vera ósönn. Finnst þér hægt að treysta Biblíunni?“ Vísaðu í 17. kafla Sköpunarbókarinnar og bentu á frekari ástæður þess að trúa á Jehóva sem skaparann.
3 Þú gætir hafið samræðurnar eitthvað á þessa leið:
◼ „Í síðustu heimsókn minni kom fram spurningin hver væri framtíð mannsins og jarðarinnar. Sjáðu hvernig bókin, sem ég skildi eftir hjá þér, svarar þeirri spurningu.“ Flettu upp á blaðsíðu 235-6 í Sköpunarbókinni og hvettu húsráðandann til að lesa grein 6 og 7. Ef hann sýnir frekari áhuga gætir þú spurt: „Hvaða stórfenglegar breytingar heldur þú að munu eiga sér stað á jörðinni?“ Sé það hentugt getur þú rætt þetta þá strax eða í næstu heimsókn með því að halda áfram inn í aðrar tölugreinar í þessum kafla Sköpunarbókarinnar.
4 Ef húsráðandinn virðist eitthvað trúhneigður gætir þú sagt:
◼ „Hefur þú tekið eftir að margir eigna svokallaðri móður náttúru heiðurinn af öllu sköpunarverkinu? [Gefðu kost á svari.] Biblían lætur okkur ekki velkjast í vafa um það hver sé hinn raunverulegi skapari.“ Lestu Opinberunarbókina 4:11. Húsráðandinn gæti tjáð skoðun sína eftir lestur ritningarstaðarins. Þú gætir þá vakið athygli hans á einum eða tveimur sérstökum atriðum í 11. kafla Sköpunarbókarinnar og ef til vill dregið skýrt fram þá fyrirætlun skaparans að gera alla jörðina að paradís undir ríki Krists.
5 Önnur leið til að hefja endurheimsókn er að segja:
◼ „Mannkynið hefur þolað miklar þjáningar og sorg vegna illsku og mannvonsku. Jehóva, skapari jarðarinnar, lofar að það ástand taki enda. [Flettu upp á blaðsíðu 196 og lestu Orðskviðina 2:21, 22.] Þeir sem viðurkenna hann sem skapara sinn og gera vilja hans geta hlakkað til dásamlegrar blessunar.“ Ef það á við á þeirri stundu getur þú haldið áfram með því að ræða um Opinberunarbókina 21:4, 5 á blaðsíðu 197-8.
6 Reyndir boðberar hafa kynnst því að best er að fara í endurheimsóknir á fyrirfram ákveðnum tíma. Ef við gerum ákveðnar ráðstafanir til að sinna þeim hjálpar það okkur að fylgja áhuga eftir án tafar. Finndu út hvaða tími er hentugastur fyrir þig og fólkið sem býr á starfssvæðinu. Með því að taka reglulega þátt í þessu starfi hefur þú ánægju af að sinna því verkefni okkar að ‚gera menn að lærisveinum.‘ — Matt. 28:19, 20.