Kynnum fagnaðarerindið með jákvæðum huga
1 Öll viljum við hafa ánægju af verki okkar og finnast það hafa borið árangur, einkum það starf að gera menn að lærisveinum. Hvað færir okkur slíka ánægju? Það byrjar með því að varðveita jákvætt viðhorf um leið og við höldum okkur uppteknum við hið verðmæta starf að hjálpa öðrum. (Orðskv. 11:25) Aðferð okkar við að kynna fagnaðarerindið ætti að sýna að við trúum sannarlega því sem við segjum. Ef orð okkar koma frá hjartanu mun einlægni okkar og persónuleg sannfæring skína í gegn. (Lúk. 6:45) Ef við æfum kynningarorð okkar verðum við öruggari þegar við tölum við fólk á starfssvæðinu. Það mun hafa verulegt gildi í september þegar við bjóðum bókina Lífið — varð það til við þróun eða sköpun? Eftirfarandi tillögur kunna að reynast þér gagnlegar við að kynna fagnaðarerindið með jákvæðum huga.
2 Þegar þú býður „Sköpunarbókina“ gætir þú sagt þetta í fyrstu heimsókn:
◼ „Af samtölum okkar við fólk höfum við séð að sumir leggja traust sitt á Guð. Öðrum finnst erfitt að trúa á hann. Hvað finnst þér? [Gefðu kost á svari.] Sjáðu hvernig Biblían rökræðir um þetta. [Lestu Rómverjabréfið 1:20.] Við getum séð sannanir um ‚eilífan kraft og guðdómleika‘ Guðs með því að skoða það sem hann hefur skapað.“ Lestu síðustu tölugreinina á blaðsíðu 48 í Sköpunarbókinni og bentu á hve fruman er flókin. Þú gætir líka notað tölugrein 18 á blaðsíðu 147 til að sýna hvernig furðulegt hringrásarkerfi trjáa bendir á verk skapara. Þú skalt bjóðast til að láta viðmælanda þinn fá bókina ef hann fellst á að lesa hana. Ef hann gerir það réttu honum þá bókina og nefndu að við þiggjum með ánægju framlög til alþjóðastarfs okkar.
3 Þegar þú ferð aftur í heimsókn til þess sem þú ræddir við um sköpunarstarf Guðs, gætir þú sagt þetta:
◼ „Í fyrri heimsókn minni ræddum við um hvernig hið dásamlega sköpunarverk Guðs sannar tilvist hans. Finnst þér erfitt að trúa að sá sem skapaði alheiminn skuli líka hafa áhuga á framtíð okkar? [Gefðu kost á svari.] Það er athyglisvert að taka eftir að skaparinn hefur nú þegar ákveðið framtíðina.“ Lestu Jesaja 46:9, 10. Ef áhugi viðmælanda þíns leyfir skaltu nota myndirnar og myndatextana í 19. kafla Sköpunarbókarinnar til að beina athyglinni að þeim ákjósanlegu aðstæðum sem Guð lofar að muni verða. Lestu fyrstu tölugreinina í 20. kaflanum og bjóddu biblíunám. Ef boðið er þegið skaltu hefja námið í Þekkingarbókinni.
4 Þú gætir reynt þessi kynningarorð þegar þú býður „Sköpunarbókina“:
◼ „Samtöl mín við fólk hér í hverfinu hafa leitt í ljós að flestir þrá öruggt umhverfi og friðsaman heim. Hver telur þú að sé ástæða þess að mönnum hefur ekki tekist að skapa slíkar aðstæður? [Gefðu kost á svari.] Sumir leiðtogar eru ef til vill einlægir og gera ýmislegt gott, en taktu eftir viturlegu ráði Biblíunnar.“ Lestu Sálm 146:3, 4; spyrðu síðan: „Er einhver til sem getur fullnægt þörfum mannsins?“ Lestu 5. og 6. versið. Sýndu myndina á blaðsíðu 251 í Sköpunarbókinni og dragðu athyglina að hagnaðinum sem fylgir stjórn Guðs. Bjóddu bókina og nefndu framlagafyrirkomulagið.
5 Ef þú ræddir í upphafi um stjórn Guðs gætir þú reynt að nota þessa tillögu í endurheimsókninni:
◼ „Þegar ég var hér fyrir nokkrum dögum ræddum við hve manninum hefur mistekist að koma á raunverulegum friði á jörðinni. Þú manst kannski að við komumst að ástæðunni sem Biblían gefur fyrir þeim misbresti. [Lestu Sálm 146:3 aftur.] Tókstu eftir hvers vegna Guð ráðleggur okkur að binda ekki vonir okkar við menn? [Gefðu kost á svari.] Þú fellst ef til vill á að von um varanlega lausn hlýtur að þurfa að koma frá Guði. Ástæðan fyrir að treysta því er útskýrð í Sálmi 146:10. [Lestu.] Hvað verðum við að gera ef við viljum vera þegnar í ríki Guðs?“ Flettu upp á blaðsíðu 250 í Sköpunarbókinni, lestu grein 13 og leggðu áherslu á Jóhannes 17:3. Þú skalt bjóðast til að sýna hvernig milljónir hafa, með biblíunámi, öðlast þekkinguna sem leiðir til eilífs lífs. Ef húsráðandinn hefur ekkert á móti því skaltu kynna Þekkingarbókina og hefja biblíunámið.
6 Í búðastarfinu gætir þú notað þessa fljótlegu og beinskeyttu aðferð til að kynna „Sköpunarbókina“:
◼ „Í dag erum við að veita verslunarfólki sérstaka þjónustu. Aukning afbrota og ofbeldis á síðustu árum veldur okkur öllum áhyggjum. Heldur þú að einhver hafi raunverulega lausn á þeim vanda? [Gefðu kost á svari.] Guð er með lausn á honum.“ Flettu upp á blaðsíðu 196 í Sköpunarbókinni; lestu og farðu nokkrum orðum um Orðskviðina 2:21, 22 í grein 19. Sýndu fyrirsögn 16. kaflans og bjóddu bókina. Nefndu að þótt bókin kosti ekkert þiggjum við lítils háttar framlög til alþjóðastarfs okkar.
7 Þegar þú ferð í endurheimsókn til verslunarmanns sem þáði „Sköpunarbókina,“ gætir þú sagt þetta:
◼ „Þegar ég kom hingað síðast í heimsókn til þín nefndi ég að Guð sé sá eini sem raunverulega hafi varanlega lausn á afbrota- og ofbeldisvandanum. Samkvæmt fyrirheiti hans getum við treyst því að friðsæl jörð verði að veruleika. Sjáðu hvaða val hvert og eitt okkar hefur.“ Lestu grein 11 á blaðsíðu 250 í Sköpunarbókinni, þar með talinn Sálm 37:37, 38. Segðu eitthvað um myndina á blaðsíðu 251 og lestu fyrstu setninguna í 14. greininni. Bjóddu ókeypis biblíunám sem hægt er að halda annaðhvort á vinnustað eða heimili viðmælanda þíns.
8 Sem „samverkamenn Guðs“ höfum við fulla ástæðu til að vera jákvæð þegar við kynnum fagnaðarerindið. (1. Kor. 3:9) Ef við varðveitum það hugarfar færir það ríkulega blessun Jehóva.