Leitum fyrst Guðsríkis — með því að bera alltaf fram lofgjörðarfórn
1 Þeir sem leita fyrst Guðsríkis eru alltaf minnugir þess að tala um Jehóva og ræða um ríki hans. (Sálm. 145:11-13) Dag hvern gefast tækifæri til að lofa nafn hans og tala um fagnaðarerindið. (Sálm. 96:2) Sálmaritarinn, sem sagði eftirfarandi orð, hafði yndi af því að lofa Jehóva: „Af Guði hrósum vér oss ætíð.“ (Sálm. 44:9) Ef okkur finnst það sama munum við vera áköf að taka reglulega þátt í boðun Guðsríkis.
2 Jehóva hefur ekki sett fram sérstakar kröfur um hve miklum tíma við ættum að verja til boðunarstarfsins, en hann hvetur okkur til að lofa sig „án afláts.“ (Hebr. 13:15) Ef aðstæður okkar leyfa ættum við að setja okkur það markmið að nota nokkurn tíma í hverri viku til að lofa Jehóva. Þeir sem þegar gera það gætu ef til vill haft tök á að þjóna sem aðstoðarbrautryðjendur af og til eða jafnvel á reglulegum grundvelli. Sumir sem hafa starfað sem aðstoðarbrautryðjendur gætu kannski gerst reglulegir brautryðjendur.
3 Höfum við tök á að auka lofgjörðarfórn okkar, hverjar svo sem persónulegar aðstæður okkar eru? Þakklæti og jákvætt mat ýtir undir kostgæfni. Einkanám í orði Guðs glæðir með okkur slíkt mat og þakklæti. Safnaðarsamkomurnar fá okkur til að láta það þakklæti koma fram á raunhæfan hátt. Náinn félagsskapur við aðrar kappsama lofgjörðarmenn getur ‚hvatt okkur til góðra verka.‘ (Hebr. 10:24) Með því að nýta okkur til fulls ráðstafanir þær sem söfnuðurinn gerir kunnum við að geta aukið lofgjörðarfórn okkar.
4 Spákonan Anna gaf gott fordæmi í þjónustu Jehóva. „Hún vék eigi úr helgidóminum,“ þótt hún væri 84 ára gömul, „en þjónaði Guði nótt og dag.“ (Lúk. 2:37) Hún tók þátt í starfsemi safnaðarins af lífi og sál og það veitti henni mikla ánægju. Frásögn Biblíunnar af trúfastri þjónustu hennar er okkur til uppörvunar nú á dögum.
5 Páll sagði: „Skylt er oss, hinum styrku, að bera veikleika hinna óstyrku.“ (Rómv. 15:1) Líklega eru einhverjir í söfnuði þínum sem myndu hafa gagn af vingjarnlegri aðstoð þinni og uppörvun. Ef til vill þarf ekki meira en að þú bjóðir þeim að koma með þér út í boðunarstarfið. Boðberi þarf kannski á fari að halda eða einhverjum til að starfa með. Vanmáttarkennd hrjáir ef til vill einhvern annan og vera má að þú sért sá sem getur veitt honum þann uppbyggjandi stuðning sem þörf er á til að endurlífga kostgæfni hans í þjónustu Guðsríkis. (1. Þess. 5:14) Fúsleiki þinn til að ‚taka þátt í þörfum heilagra‘ sýnir einlæga löngun þína til að lofa nafn Jehóva í auknum mæli. — Rómv. 12:13.
6 Ekki verður tölu komið á allt það sem Jehóva hefur þegar gert fyrir okkur og á enn eftir að gera fyrir okkur. Við getum engan veginn endurgoldið honum þær blessanir. Sannarlega er knýjandi ástæða fyrir ‚allt sem andardrátt hefur að lofa Jehóva‘! — Sálm. 150:6.