Varðturninn og Vaknið! — blöð fyrir okkar áríðandi tíma!
1 Atburðir, sem skekja heiminn, hafa verið að eiga sér stað og uppfylla með því spádóma í Biblíunni. Er við hugleiðum það sem er að gerast í heiminum og einnig innan hins guðræðislega skipulags getum við gert okkur að fullu ljóst hversu mikilvægt það er að við prédikum „fagnaðarerindið“ um Guðsríki. (Mark. 13:10) Það gefur okkur ástæðu til að halda af kostgæfni áfram boðunarstarfi okkar í aprílmánuði.
2 Hið sérstaka starf, sem við sinnum af krafti í þessum mánuði, leggur áherslu á hversu mikilvægur boðskapur okkar er. Við bíðum spennt eftir útkomu Frétta um Guðsríki sem við munum dreifa meðal manna í apríl og maí. Varðturninn og Vaknið! í apríl og maí innihalda tímabærar greinar um heimsatburði sem eiga sér stað núna á „síðustu dögum“ og sumar þeirra leggja áherslu á spádómlegt mikilvægi þessara atburða. Hvernig getum við undirbúið kynningu sem vekur áhuga manna á blöðunum okkar?
3 Þú getur líklega samið áhrifarík kynningarorð með því að fylgja eftirfarandi grundvallarskrefum: (1) Veldu grein í einu blaðanna sem þér finnst muni höfða til fólks í þínu byggðarlagi. (2) Veldu fullyrðingu eða útskrifaðan ritningarstað í þeirri grein sem þú álítur að vekja muni upp áhuga hjá húsráðandanum. (3) Útbúðu stutt kynningarorð þar sem þú heilsar vingjarnlega, kemur með spurningu eða fullyrðingu sem dregur fram áhugavert biblíulegt atriði og býður að lokum í einlægni húsráðandanum að fá blöðin. Eins og þú sérð er þetta alls ekki flókið. Ef til vill gætir þú og starfsfélagi þinn útbúið í sameiningu kynningarorð.
4 Þegar þú notar forsíðugreinina í „Vaknið!“ um 1914 gætir þú sagt eitthvað á þessa leið:
◼ „Þegar bardagar brutust út í Júgóslavíu árið 1991 kom mörgum í hug atburðurinn sem þessi mynd er af. [Lestu kynningarorðin á blaðsíðu 2.] Hefur það sem komið hefur yfir heiminn upp frá árinu 1914 djúpstæðari merkingu en margir ætla?“ Gefðu kost á svari og sýndu síðan greinina á blaðsíðu 10 og bjóddu blaðið.
5 Þegar þú býður apríltölublað „Varðturnsins“ gætu eftirfarandi inngangsorð reynst vel:
◼ „Þegar Kristur var á jörðinni sýndi hann fram á að Guð myndi brátt hafna Ísraelsþjóðinni vegna ótrúmennsku hennar en í stað hennar kæmi hinn kristni söfnuður. Það rættist óneitanlega. Núna hefur kristni heimurinn verið til í tvö þúsund ár. Ætli hann njóti meiri velþóknunar Guðs en Gyðingar gerðu á dögum Krists? [Gefðu kost á svari.] Mannkynssagan og Biblían gefa skýrt svar við þessari spurningu.“ Bentu á eitt eða tvö atriði í forsíðugreinunum og bjóddu blaðið.
6 Væri ekki gott, áður en þú ferð út í starfið, að æfa kynningarorð þín með öðrum boðbera til að þau verði þér tamari? Þið gætuð líklega skipst á gagnlegum tillögum sem auka áhrifamátt orða ykkar og sjálfstraust í boðunarstarfinu.
7 Nú færist endir þessa heimskerfis óðfluga nær og við ættum þess vegna að hraða okkur enn meir við að hjálpa hreinhjörtuðu fólki að flýja út úr Babýlon hinni miklu. (Opinb. 18:4) Varðturninn og Vaknið! gegna bráðnauðsynlegu hlutverki í þessu starfi sem aldrei verður endurtekið. Við erum þakklát að Jehóva skuli hafa fært okkur þessi góðu verkfæri til afnota.