Úgáfa nýju bókarinnar á landsmótinu vakti hrifningu allra
Nýja bókin leggur áherslu á þekkinguna á Guði
1 Við vorum sannarlega ánægð með alla dagskrána á landsmótinu okkar síðastliðið sumar. Sérstök var gleði okkar síðdegis á laugardeginum þegar við heyrðum tilkynninguna um nýju bókina Þekking sem leiðir til eilífs lífs og tengdu upplýsingarnar sem á eftir komu. Þeir milljarðar manna, sem jörðina byggja, þarfnast þekkingarinnar sem aðeins Guð getur veitt — þekkingar á Guði og syni hans, Jesú Kristi. — Orðskv. 2:1-6; Jóh. 17:3.
2 Lýsing ræðumannsins á bókinni var ljóslifandi. Hrífandi kaflaheiti, hagnýtar líkingar, jákvæð framsetning sannleikans, einfaldar spurningar og rammi í lok hvers kafla með yfirskriftinni „Reyndu þekkingu þína“ eru dæmi um það sem lætur bókina höfða til allra sem lesa hana. Biblíunemendur okkar munu þó einkum og sér í lagi njóta góðs af því að kynnast með hraði grundvallarþáttunum í kenningum Biblíunnar.
3 Í lokaræðunum á laugardeginum og sunnudeginum vorum við hvött til að nota þessa bók í fjölskyldunámi okkar strax og hún bærist okkur í hendur. Samhliða náminu getur fjölskyldan rætt saman um ýmsar leiðir til að kynna bókina við mismunandi aðstæður úti í boðunarstarfinu og þegar önnur tækifæri gefast.
4 Nokkur atriði til upprifjunar: Þú minnist þess ef til vill að í mótsræðunni „Hvers vegna mannkynið þarfnast þekkingar á Guði“ lagði ræðumaðurinn áherslu á nokkur atriði, þar á meðal eftirfarandi: (1) Þegar þú notar þessa bók til að stýra biblíunámum er ekki skynsamlegt að koma með utanaðkomandi efni sem gæti varpað hulu á aðalatriðin; leggðu einungis áherslu á að koma til skila því sem bókin er að sanna í hverjum kafla. (2) Kaflarnir eru hæfilega langir þannig að þú getur yfirleitt farið yfir einn kafla í hverju námi. (3) Í lok hvers kafla gefa spurningarnar í rammanum með yfirskriftinni „Reyndu þekkingu þína“ kost á stuttri og laggóðri upprifjun.
5 Notkun í biblíunámum: Talsvert margir boðberar hafa spurt hvort ráðlegt sé að færa biblíunámin, sem þeir stýra, yfir í þessa nýju bók. Ef þú ert langt kominn í bókinni sem þú notar núna í biblíunáminu væri hentugt að ljúka náminu í þeirri bók. Að öðrum kosti er mælt með að þú skiptir yfir í Þekkingarbókina. Ef þú notaðir bækling eða smárit til að koma af stað biblíunámi skaltu kynna nýju bókina þegar vel stendur á og nota hana sem námsrit. Meiri upplýsingar um notkun Þekkingarbókarinnar munu birtast í Ríkisþjónustu okkar á komandi mánuðum.
6 Jehóva hefur fært okkur í hendur þessa nýju bók til að hjálpa okkur að fræða aðra um þekkinguna sem leiðir til eilífs lífs. Núna þurfum við að undirbúa okkur vel og eiga fulla hlutdeild í starfinu sem enn á eftir að vinna.