Hjálpum öðrum að öðlast þekkingu sem leiðir til lífs
1 Páll postuli sagði að það væri ‚vilji Guðs að allir menn kæmust til nákvæmrar þekkingar á sannleikanum.‘ (1. Tím. 2:4) Hvernig getum við hjálpað öðrum að afla sér slíkrar þekkingar? Ein leið er sú að heimsækja aftur þá sem bókin Þekking sem leiðir til eilífs lífs hefur vakið áhuga hjá. Þessi bók setur sannindi Biblíunnar fram með skýrum, einföldum og vel völdum orðum. Með því að nema hana getur alls konar fólk látið leiðast til lífsins. Hvað getum við sagt sem hvetur fólk til að nema hana með okkur?
2 Þú gætir farið aftur til þeirra sem sýndu áhuga á Biblíunni sem hagnýtri leiðsögn og boðið þeim nám, ef til vill með því að segja:
◼ „Þegar ég var hér um daginn ræddum við hvers vegna við getum treyst því að í Biblíunni sé að finna hagnýta leiðsögn. Vegna þess að Biblían er innblásin af Guði er hún líka örugg uppspretta hughreystingar og vonar, eins og einn af postulum Krists sagði. [Lestu Rómverjabréfið 15:4.] Í lok síðasta samtals okkar bar ég fram spurninguna: Hvernig getum við persónulega haft hag af þeirri þekkingu sem Biblían býr yfir?“ Lestu tölugrein 18 á blaðsíðu 11 í Þekkingarbókinni. Bentu á að vottar Jehóva stýri um fimm milljónum biblíunáma um heim allan og hjálpi með því fólki alls staðar að afla sér þekkingarinnar sem leiðir til eilífs lífs. Bjóðstu til að sýna stuttlega hvernig biblíunám fer fram og notaðu til þess fyrstu fimm greinarnar í 1. kafla.
3 Ef þú hófst samtal þitt við einhvern með því að tala um bænir gætir þú reynt þessa aðferð til að stofna nám:
◼ „Ég vona að þú hafir haft ánægju og gagn af upplýsingunum um bænir sem við ræddum um út frá bókinni Þekking sem leiðir til eilífs lífs síðast þegar ég kom hingað. Ég lofaði að koma aftur og ræða við þig um hvernig þeir sem biðja til Guðs geta líka lagt eyrun við því sem hann segir. Taktu eftir því sem segir hér á blaðsíðu 158. [Lestu tölugrein 18.] Með því að nema sjálf Biblíuna erum við að hlusta á það sem Guð hefur að segja við okkur. Það dregur okkur nær honum og hjálpar okkur að kljást við vandamál líðandi stundar sem við nefnum í bænum okkar. Mér væri það ánægja að nema Biblíuna með þér.“ Ef viðmælandi þinn er fús að nema skaltu byrja á fyrsta kaflanum í bókinni Þekking sem leiðir til eilífs lífs.
4 Ef þú bauðst biblíunám umbúðalaust gætir þú sagt þetta til að fylgja efir fyrstu samræðunum:
◼ „Ég gerði mér far um að koma hingað aftur vegna þess að mig langar til að segja þér meira um biblíunámskeiðið sem við bjóðum fólki ókeypis. Ég skildi eftir hjá þér eintak af þessari bók, Þekking sem leiðir til eilífs lífs, sem er kennslubókin sem við notum. Taktu eftir hvernig hún hvetur okkur til að kanna orð Guðs. [Lestu tölugrein 23 á blaðsíðu 22.] Ef þú myndir vilja ná í þitt eintak af bókinni gætum við kannski haldið áfram að nema þar sem frá var horfið síðast.“ Ef nám var ekki stofnað í fyrstu heimsókn gætir þú sagt: „Þetta er ef til vill góður tími til að sýna þér hvernig við nemum Biblíuna.“ Eftir að hafa farið yfir fáeinar greinar skaltu fastákveða tíma til að koma aftur til næstu námsstundar.
5 Ef við notum Þekkingarbókina af leikni gerir það okkur kleift að dreifa út nákvæmri þekkingu fólki til blessunar. (Orðskv. 15:7) Slík þekking mun verða unaðsleg þeim sem hafa rétt hjartalag og verða þeim öflug hvöt til að lifa í samræmi við réttlætismælikvarða Jehóva og að lokum leiðir það til eilífs lífs.