Öll Ritningin er nytsöm til fræðslu
1 Skoðanir manna á Biblíunni eru margar og ólíkar. Við erum hins vegar sannfærð um að á síðum hennar sé að finna svörin við torleystum vandamálum mannkynsins, svo og áreiðanlega leiðsögn til að fylgja í lífinu. (Orðskv. 3:5, 6) Viskan í leiðbeiningum hennar er óviðjafnanleg. Ekki er til hærri siðgæðismælikvarði en sá sem hún heldur á lofti. Biblían sýnir hversu mikla umhyggju Guð ber fyrir manninum og hver tilgangur skaparans sé með okkur. Bæklingarnir, sem við bjóðum í nóvember, Ber Guð í raun umhyggju fyrir okkur? og Hver er tilgangur lífsins?, geta opnað augu fólks fyrir því hversu mikill fjársjóður Biblían er og ómissandi leiðarvísir á þessum örðugu tímum. Þú kannt að vilja nota einhverja af eftirfarandi tillögum þegar þú býður þá.
2 Eftirfarandi inngangur gæti ef til vill vakið athygli sumra á þínu starfssvæði:
◼ „Allt frá barnæsku höfum við mörg hver heyrt talað um alvaldan Guð sem er kærleiksríkur og miskunnsamur. En samtímis sjáum við mikið óréttlæti og þjáningar í heiminum sem oft bitnar á þeim sem síst skyldi. Hvernig getur ástandið í heiminum samræmst þeirri fullyrðingu að til sé alvaldur Guð sem ber umhyggju fyrir manninum? [Gefðu kost á svari.] Margir segja að ástandið sé fyrst og fremst manninum sjálfum að kenna og hann verði sjálfur að bæta úr því. En eru einhverjar líkur á að manninum takist það áður en það verður um seinan?“ Gefðu kost á svari. Sýndu síðan myndina á blaðsíðu 2-3 í bæklingnum Ber Guð í raun umhyggju fyrir okkur? Ef húsráðandinn sýnir áhuga getur þú farið nokkrum orðum um þá framtíðarsýn sem byggist á fyrirheitum Biblíunnar og boðið síðan bæklinginn.
3 Hér er önnur tillaga sem þú gætir ef til vill notað:
◼ „Menn hafa lengi glímt við þá gátu hvort lífið hafi einhvern tilgang. Og enn halda menn áfram að spyrja: ‚Hverjir erum við? Hver er tilgangurinn með tilveru okkar?‘ Ætli hægt sé að finna svörin við þessum spurningum? [Gefðu kost á svari. Taktu síðan fram bæklinginn Hver er tilgangur lífsins? og lestu tölugrein 10 á blaðsíðu 5.] Við getum ekki hjálparlaust svarað þessum spurningum. En skapari okkar getur gefið okkur svörin og hefur gert það í orði sínu, Biblíunni. Þessi bæklingur sýnir fram á það.“
4 Ef fólk á þínu starfssvæði er almennt lítt trúað á Biblíuna gætir þú reynt þessa aðferð:
◼ „Margir eru þeirrar skoðunar að Biblían sé ekkert annað og meira en frábært bókmenntaverk. Þeir benda á þau mörgu illvirki sem framin hafa verið í nafni trúarbragðanna sem rök fyrir því að Biblían geti ekki verið orð Guðs og segja hana jafnvel innihalda mótsagnir og goðsagnir. Hver er þín skoðun á því?“ Gefðu kost á svari. Flettu síðan upp á þriðja kafla í bæklingnum Hver er tilgangur lífsins? og veldu efni sem tengist því sem húsráðandinn hafði að segja um Biblíuna og ræddu um eitt eða tvö atriði. Þér gæti til dæmis gefist tækifæri til að benda á það sem segir í tölugrein 23-25 undir millifyrirsögninni „Innra samræmi og hreinskilni.“
5 Hinn mikli fræðari okkar hefur séð til þess að þekking á vilja hans og tilgangi sé aðgengileg öllum sem vilja öðlast hana. Eitthvað það besta sem við getum gert fólki er að hjálpa því að meta hið sanna gildi Biblíunnar að verðleikum; það getur bjargað lífi þess. — Orðskv. 1:32, 33.