Orð Guðs veitir leiðsögn
1 „Við lifum í heimi með of mörgum vandamálum og allt of fáum lausnum. Milljónir manna svelta að staðaldri. Þeim fjölgar sem ánetjast fíkniefnum. Æ fleiri fjölskyldur leysast upp. Stöðugt berast fréttir af heimilisofbeldi og sifjaspellum. Hægt og sígandi er verið að eitra loftið sem við öndum að okkur og vatnið sem við drekkum. Jafnframt verða æ fleiri fyrir barðinu á glæpum.“
2 Þannig hefst bókin Biblían — orð Guðs eða manna? Inngangsorð hennar eiga jafnvel betur við núna en þegar hún var gefin út fyrir sjö árum. Fólk þarf að fá að vita að orð Guðs veitir leiðsögn og kemur með lausn allra vandamála sem þjá það. Í desember munum við leitast við að hvetja fólk til að lesa Biblíuna og bjóða því Biblíusögubókina mína eða önnur rit. Þó að við fáum fólk til að þiggja hjá okkur biblíurit er það auðvitað engin trygging fyrir því að það þiggi leiðsögn Guðs. Við verðum að fara í endurheimsóknir með það að takmarki að hefja með því biblíunám. Við erum fullvissuð um styrkan stuðning ef við leggum okkur fram á þennan hátt. (Matt. 28:19, 20) Hér eru nokkrar tillögur að kynningarorðum:
3 Ef þú hittir roskinn mann gætir þú reynt þessa aðferð:
◼ „Mætti ég spyrja þig hvernig fólk hafi almennt komið fram hvert við annað í þínu ungdæmi? [Gefðu kost á svari.] Finnst þér ekki hafa orðið talsverð breyting á? Hvað heldur þú að valdi henni? [Gefðu kost á svari.] Í rauninni erum við að sjá spádóm í Biblíunni uppfyllast. [Lestu 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.] Biblían gerir meira en að gefa nákvæma lýsingu á heiminum eins og hann er núna. Hún spáir betri heimi í náinni framtíð. Þess vegna hvetjum við alla til að lesa Biblíuna. Hér er bók sem er skrifuð fyrir ungu kynslóðina til að gefa henni góða mynd af því sem Biblían fjallar um og glæða hjá henni löngun til að kynnast orði Guðs, en reynslan hefur sýnt að þeir sem fullorðnir eru geta líka haft mikið gagn af henni.“ Sýndu Biblíusögubókina, útskýrðu að sögunum sé raðað í tímaröð og bentu á að í lok hverrar sögu séu tilgreindir þeir ritningarstaðir sem sagan er sótt í. Bjóddu bókina og nefndu framlagafyrirkomulagið.
4 Þegar þú ferð aftur til roskins manns sem þáði „Biblíusögubókina“ gætir þú sagt:
◼ „Í síðasta samtali okkar kom okkur saman um að ýmislegt í samskiptum manna hafi breyst til hins verra á nokkrum áratugum. En ég er kominn aftur til að sýna þér að Biblían gefur okkur von um miklu betri heim í framtíðinni. [Lestu Opinberunarbókina 21:3, 4.] Lestur slíkra ritningarstaða ætti að vera okkur hvatning til að skoða betur hvað Biblían, orð Guðs, hefur um þetta að segja.“ Taktu fram Þekkingarbókina, bentu á nokkur versanna á blaðsíðu 9 og 10 og bjóddu ókeypis biblíunám.
5 Ef þú tekur ungling tali gætir þú sagt:
◼ „Mig langar til að leggja fyrir þig spurningu: Finnst þér sem unglingi að þú hafir ástæðu til að vera bjartsýnn á það sem framundan er? Hvernig lítur framtíðin út í þínum augum? [Gefðu kost á svari.] Sem betur fer er góð ástæða til að líta framtíðina björtum augum. [Lestu Sálm 37:10, 11.] Hvaða ástæðu höfum við til að trúa þessum orðum? Meðal annars þá að Jesús vitnaði í þau. [Lestu Matteus 5:5.] En margir draga í efa það sem Biblían segir um Jesú og hefur eftir honum. Eru efasemdir þeirra á rökum reistar? Fyrstu greinarnar í þessu tjölublaði Varðturnsins gefa okkur góða ástæðu til að hafna slíkum efasemdum. Þegar við höfum sannfærst um að Biblían sé sönn förum við svo sannarlega að líta björtum augum til framtíðarinnar.“ Sýndu desemberblaðið og bjóddu það ásamt Vaknið!
6 Þegar þú ferð aftur til unglings sem þáði „Varðturninn“ og „Vaknið!“ gætir þú hafið samtalið á þessa leið:
◼ „Þú manst eftir því að ég sýndi þér um daginn biblíuvers sem lofa okkur bjartri og öruggri framtíð. Hér eru önnur álíka. [Lestu Opinberunarbókina 21:3, 4.] Í blöðunum, sem ég skildi eftir hjá þér, er að finna góðar sannanir fyrir því að Biblían sé orð Guðs. Á blaðsíðu 14 í Vaknið! er dregin saman niðurstaða umfjöllunar um þá spurningu hvernig hinn mikilfenglegi alheimur varð til. Taktu eftir því sem segir þar. [Lestu fyrstu efnisgreinina á eftir millifyrirsögninni.] Fyrst allt þetta er að finna í Biblíunni er sannarlega ástæða til að kynna sér hana vandlega. Ég er fús til að hjálpa þér til þess.“ Ef undirtektir eru jákvæðar skaltu nota Þekkingarbókina til að sýna hvernig biblíunám fer fram og bjóða bókina.
7 Alvarlega hugsandi maður kynni að bregðast vel við þessum orðum:
◼ „Aldrei fyrr hefur slíkt flóð upplýsinga hellst yfir menn sem núna. En ætli í þeim sé að finna þá leiðsögn sem menn þurfa til að takast á við vandamál sín? [Gefðu kost á svari.] Við þurfum að gera okkur ljóst hvar við eigum að leita leiðsagnar. Jesús benti lærisveinum sínum á það. [Lestu Lúkas 10:41.] Hvað var þetta ‚eina‘ nauðsynlega? [Gefðu kost á svari.] Það var að hlýða á leiðsögn hans og kennslu eins og fram kemur í versi 39.“ Lestu versið. Sýndu greinina á blaðsíðu 9 í desembertölublaði Varðturnsins og bentu á að Marta hafi haft það hugarfar sem fram kemur í Sálmi 143:8. Bjóddu blaðið og nefndu framlagafyrirkomulagið.
8 Ef þú í fyrstu heimsókninni ræddir um það hvar áreiðanlega leiðsögn er að finna, gætir þú tekið upp þráðinn í endurheimsókn með því að segja:
◼ „Síðast þegar við hittumst ræddum við um það sem Kristur sagði að væri nauðsynlegt, það er að segja að hlýða á leiðsögn hans og afla sér þekkingar á Guði. Hann endurtók það kvöldið áður en hann dó. [Lestu Jóhannes 17:3.] Slíka þekkingu má fá með markvissu biblíunámi. Það er mér ánægja að bjóða þér ókeypis heimabiblíunám og ég er tilbúinn til að sýna þér núna strax hvernig það fer fram.“
9 Jehóva mun blessa viðleitni okkar til að hjálpa fólki á öllum aldri að læra að meta orð Guðs og leiðbeiningar þess. — Sálm. 119:105.