Komum undirbúin á safnaðarsamkomur og höfum ánægju af þeim
1 Við erum bræðrafélag og hittumst reglulega á vikulegum samkomum, og það er mjög viturlegt. (1. Tím. 4:15, 16) Hvernig getum við haft sem mest gagn og ánægju af þeim?
2 Taka ætti frá tíma á reglulegum grundvelli til að búa sig undir samkomurnar. Sumum er kleift að nota meiri tíma til undirbúnings en aðrir. En hversu annríkt sem við eigum er samt viturlegt að finna sér einhvern tíma til að búa sig undir samkomur. Sameiginlegur undirbúningur fjölskyldunnar er sérstaklega gagnlegur. — Ef. 5:15, 16.
3 Fyrir Guðveldisskólann: Reyndu að fylgja áætluninni um vikulegan biblíulestur. (Jós. 1:8) Skoðaðu efnið sem farið verður yfir og taktu með þér nauðsynleg rit til þess að geta fylgt ræðumanninum eftir. Hugleiddu hvernig þú getir notað þessar upplýsingar í boðunarstarfinu.
4 Fyrir þjónustusamkomuna: Líttu yfir dagskrána sem tilgreind er í Ríkisþjónustu okkar. Lestu greinarnar sem rætt verður um. Ef efni í grein í Varðturninum eða einhverju öðru riti verður tekið til umfjöllunar skaltu leita það uppi og lesa það líka. Ef sýnikennslur verða um kynningarorð í boðunarstarfinu skaltu skoða þau fyrirfram til þess að þú verðir tilbúinn að nota þau í starfinu.
5 Fyrir námið í Varðturninum: Lestu yfir greinina og taktu eftir hver svörin eru við spurningunum. Að fletta upp tilvísuðum ritningarstöðum hjálpar þér að skilja efnið betur. Með því að hugleiða hvernig námsefnið fellur að því sem þú þegar veist dýpkar þú þekkingu þína. Ráðgerðu að taka þátt í náminu með því að undirbúa stutt svör við að minnsta kosti eina eða tvær tölugreinar. Það er mikilvæg leið til að ‚játa von okkar.‘ — Hebr. 10:23.
6 Fyrir safnaðarbóknámið: Kannaðu fyrst efnið; skoðaðu kaflaheitið og millifyrirsagnirnar. Þegar þú síðan lest efnið skaltu gæta vel að meginhugmyndunum. Skoðaðu biblíuversin sem styðja þær. Reyndu að svara spurningunum með eigin orðum. Þegar námsundirbúningnum er lokið skaltu rifja efnið upp í huganum. Reyndu að kalla fram í hugann aðalatriðin og hvernig röksemdafærslan er byggð upp. — 2. Tím. 2:15.
7 Hafðu ánægju af samkomunum: Til þess að hafa sem mesta ánægju af samkomunum er mikilvægt að koma tímanlega til að vera með í upphafsbæninni þar sem beðið er um anda Jehóva. Við höfum líka gagn af hressandi ríkissöngvunum. Ef þú ert ekki með lítil börn eða hefur aðra ástæðu til að sitja aftarlega í salnum munt þú líklega komast að raun um að þú verður fyrir færri truflunum og færð meira út úr dagskránni ef þú situr framarlega í salnum. Foreldrar með smábörn, sem þarf ef til vill að fara með fram meðan á samkomunni stendur, valda minnstri truflun með því að sitja við gang aftarlega í salnum.
8 Gerðu þér far um að fletta upp þeim ritningarstöðum sem lesnir eru. Þú manst þá betur það sem þú heyrir. Ef þú talar við fjölskyldu og vini um það sem þú lærir grópast efnið betur í huga þinn. Ef við notum þessar tillögur höfum við meira gagn og ánægju af samkomunum og þær munu ‚hvetja okkur til kærleika og góðra verka.‘ — Hebr. 10:24, 25.