Kunngerum sannleikann daglega eins og Jesús
1 Jesús hafði sérstakt verk að vinna þegar hann kom til jarðarinnar. Það var merkilega einfalt: ‚Að bera sannleikanum vitni.‘ (Jóh. 18:37) Hann kunngerði sannleikann um stórkostlega eiginleika og fyrirætlanir föður síns. Það starf var honum eins og fæða; allt líf hans snerist um það. Lúkas greinir frá því að Jesús hafi ‚daglega verið að kenna í helgidóminum.‘ (Lúk. 19:47) Jesús nýtti sér til fulls tímann sem hann hafði til umráða. (Jóh. 9:4) Skömmu áður en hann dó gat hann sagt við föður sinn: „Ég hef gjört þig dýrlegan á jörðu með því að fullkomna það verk, sem þú fékkst mér að vinna.“ — Jóh. 17:4.
2 Þegar hjörtu okkar eru full þakklætis fyrir allt sem Jehóva hefur gert munum við á sama hátt finna okkur knúin til að tala um hann dag hvern. Við verðum eins og lærisveinar Jesú sem sögðu djarfmannlega: „Vér getum ekki annað en talað það, sem vér höfum séð og heyrt.“ (Post. 4:20) Þeir héldu sífellt áfram að tala um Jehóva því að frásögnin segir að ‚þeir hafi ekki látið af að kenna dag hvern.‘ (Post. 5:42) Við ættum að spyrja okkur: ‚Líki ég eftir kennara mínum, Jesú?‘
3 Brýnt er að prédika: Jesús sagði fyrir að þegar boðskapurinn um Guðsríki hefur verið prédikaður um alla jörðina „þá mun endirinn koma.“ (Matt. 24:14) Það ætti að sýna okkur hve starf okkar er mikilvægt og brýnt. Líf bókstaflega milljóna manna er í húfi og því getum við ekki fundið neitt mikilvægara eða gagnlegra að gera. Þar sem endir þessa heimskerfis er skammt undan styttist óðum tíminn sem við höfum til að ljúka þessu starfi!
4 Skýrslur sýna að Jehóva lætur núna safna inn sauðumlíkum mönnum með auknum hraða. (Jes. 60:22) Víða í heiminum bókstaflega hópast fólk inn til sannleikans og lýsir með því yfir: „Vér viljum fara með yður, því að vér höfum heyrt, að Guð sé með yður.“ (Sak. 8:23) Jesús sagði: „Uppskeran er mikil, en verkamenn fáir. Biðjið því herra uppskerunnar að senda verkamenn til uppskeru sinnar.“ (Matt. 9:38, 38) Uppskeran hefur aldrei verið meiri en nú. Fyllir það okkur ekki hugmóði til að vera kostgæfin eins og lærisveinar Jesú sem „voru stöðugt í helgidóminum og lofuðu Guð.“? — Lúk. 24:53.
5 Kunngerum sannleikann daglega: Dag hvern ættum við að leita leiða til að segja öðrum frá sannleikanum. Tækifærin láta ekki á sér standa. Gætir þú tekið þér nokkrar mínútur til að hringja í ættingja eða kunninga sem þú hefur á tilfinningunni að gæti verið móttækilegur? Hvernig væri að skrifa bréf til einhvers sem þú hittir aldrei heima? Hefur hvarflað að þér að bjóða kaupmanninum „á horninu“ smárit? Líklega getur þú látið þér detta í hug mörg önnur tækifæri sem þér gefast á hverjum degi til að deila von þinni með öðrum. Ef þú reynir þetta og sýnir svolítið þor mun Jehóva hjálpa þér. — 1. Þess. 2:2.
6 Þegar við hefjum störf á hverjum nýjum degi ættum við því að spyrja okkur sjálf: ‚Ætla ég að eiga frumkvæðið að því að deila von minni með einhverjum í dag ef tækifæri gefst? Sýnum sama viðhorf og Jesús sem útskýrði með eftirfarandi orðum hvers vegna hann hafði verið sendur til jarðarinnar: „Mér ber að flytja . . . fagnaðarerindið um Guðs ríki.“ (Lúk. 4:43) Ef við viljum vera eins og kennari okkar gerum við það líka. — Lúk. 6:40.