Förum aftur til að sumir verði hólpnir
1 Það er vilji Guðs „að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.“ (1. Tím. 2:4) Hvað getum við gert til að stuðla að því? Farið í endurheimsóknir með það að takmarki að kenna sannleikann. Hvað ætlar þú að segja? Eftirfarandi tillögur koma þér ef til vill að notum.
2 Þegar þú heimsækir einhvern sem þáði bókina „Sannur friður og öryggi — Hvernig?“ getur þú bent aftur á myndina á blaðsíðu 4 og spurt húsráðandann:
◼ „Eftir að hafa skoðað nánar bókina sem ég skildi eftir hjá þér og hugleitt fyrirheit Guðs um paradís á jörð, hvað finnst þér þá um þessi stórkostlegu fyrirheit sem Guð hefur gefið mannkyninu?“ Eftir að hafa hlustað á svar húsráðandans og sagt eitthvað stuttlega um það getur þú vakið athygli hans á 2. og 3. kaflanum og stungið upp á að hann skoði hvers vegna viðleitni manna til að koma á friði og öryggi, þar með talin viðleitni trúarbragðanna, hafi ekki skilað árangri.
3 Ef húsráðandinn hugleiddi hvers vegna Guð hefur umborið illskuna gætir þú í endurheimsókninni tekið upp þráðinn með því að segja:
◼ „Ég hafði ánægju af samtali okkar þegar við hittumst fyrst og mig langaði til að koma aftur og athuga hvað þér fyndist um þá ástæðu sem Guð hefur fyrir því að umbera þann óróa og ofbeldi sem er að finna í heiminum nú á tímum. [Gefðu kost á svari. Flettu upp á og lestu tölugrein 26 á blaðsíðu 57 í Friðarbókinni, þar með talda tilvitnunina frá 2. Pétursbréfi 3:9.] Sjáðu heiti næsta kafla. Þar er spurt: ‚Hvað hefur Guð verið að gera?‘ Kannski getum við rætt um svarið við þeirri spurningu þegar ég kem næst.“
4 Ef húsráðandinn þáði „Fjölskyldulíf þitt gert hamingjuríkt“ gætir þú fylgt því eftir á þennan hátt:
◼ „Þegar ég heimsótti þig í fyrsta sinn dáðist ég að því hversu áhugasamur þú varst um fjölskyldu þína. Við lifum á síðustu dögum þessa illa heimskerfis og því er mikilvægt að fjölskyldur haldi áfram að búa sig undir framtíðina. Í því augnamiði mælir bókin, sem ég skildi eftir hjá þér, Fjölskyldulíf þitt gert hamingjuríkt, eindregið með því að á heimilinu fari reglulega fram umræður um biblíuleg efni. [Lestu tölugrein 10 á blaðsíðu 185.] Mér þætti vænt um að fá að nota aðeins fáeinar mínútur til að sýna þér hvernig fjölskyldur í um það bil 200 löndum ræða saman um Biblíuna innan heimilisins.“ Eftir því sem tíminn leyfir skaltu nota efnið undir millifyrirsögninni á blaðsíðu 71 til að sýna hvernig biblíunám fer fram.
5 Þú gætir fylgt eftir útbreiðslu á bókinni um „Friðarhöfðingjann“ með því að segja:
◼ „Mig langaði að koma aftur til að sýna þér meira um fyrirætlun Guðs með jörðina.“ Flettu upp á myndinni á blaðsíðu 172-3, lestu Opinberunarbókina 21:3, 4 og útskýrðu í fáeinum orðum hvernig Guðsríki mun uppfylla þetta fyrirheit. Bjóddu ókeypis heimabiblíunám.
6 Mundu eftir að takmarkið með endurheimsóknum er að stofna biblíunám. Nýja bókin, Þekking sem leiðir til eilífs lífs, er sérstaklega samin til notkunar í biblíunámum. Þegar við fylgjum eftir útbreiðslu á eldri bókum og náum að stofna biblíunám væri gott að beina athyglinni að þessari bók. Það mun veita okkur mikla gleði þegar biblíunemendurnir læra að ákalla nafn Jehóva sér til hjálpræðis. — Post. 2:21.