Við höfum aldrei haft það svona gott andlega
1 Flestir þrá þann dag þegar þeir geta sagt: „Við höfum aldrei haft það svona gott!“ Í þeirra huga kemur sá dagur þegar þeir hafa nóg efnislegra gæða sem leyfa þeim að ‚hvíla sig, eta og drekka og vera glaðir.‘ (Lúk. 12:19) Við getum þvert á móti núna strax sagt að í andlegum skilningi líðum við engan skort. (Sálm. 34:10) Hvernig má það vera?
2 Í Orðskviðunum 10:22 segir: „Blessun [Jehóva], hún auðgar.“ Við sem fáum að reyna slíka velþóknun Guðs getum sannarlega sagt að hann ‚láti oss allt ríkulega í té til nautnar.‘ (1. Tím. 6:17) Það gerir okkur að ríkasta fólkinu á jörðinni!
3 Sú blessun sem við njótum: Fæst okkar búa við efnislegar allsnægtir. Samt njótum við blessunar vegna þess að við höfum ekki óþarfar áhyggjur af daglegum nauðsynjum. Jehóva veit hvers við þörfnumst og hann lofar að sjá okkur fyrir því. (Matt. 6:31-33) Sú fullvissa frá honum veitir okkur hugarfrið sem er sannarlega ómetanlegur.
4 Hinar andlegu blessanir okkar eru hins vegar enn meiri. Líf okkar er háð andlegri fæðu frá Jehóva. (Matt. 4:4) Þeir sem sækja á veraldleg mið eftir andlegu viðurværi líða hungur á meðan við fáum nóg að eta og drekka. (Jes. 65:13) Hinn ‚trúi þjónn‘ veitir okkur aðgang að ótæmandi forða þekkingar sem leiðir til eilífs lífs. — Matt. 24:45; Jóh. 17:3.
5 Í dýrmætu, alþjóðlegu bræðrafélagi okkar njótum við hlýlegs félagsskapar kærleiksríkra bræðra og systra sem búa út um allan heim. (Jóh. 13:35) Heimasöfnuður okkar er friðarhöfn þar sem við styrkjumst og endurnærumst. Öldungarnir vaka yfir sálum okkar og hjálpa okkur að takast á við ýmiss konar vanda. (Hebr. 13:17) Þegar við tengjumst bræðrum okkar nánari böndum verður það okkur til gagnkvæmrar uppörvunar og styrkir okkur í því að gefast ekki upp. — Rómv. 1:11, 12.
6 Jafnvel starf okkar er blessun. Mörg veraldleg störf eru þreytandi og ófullnægjandi. Boðun fagnaðarerindisins færir öðrum gleði og okkur sjálfum hamingju. (Post. 20:35) Við getum í sannleika notið fagnaðar af öllu striti okkar. — Préd. 2:24.
7 Dýrmætasta eign okkar er þó hin stórkostlega von. (Rómv. 12:12) Við horfum fram til fullkomins réttlætisheims þar sem við munum búa með ástvinum okkar í hamingju og friði að eilífu. Þessi von er meiri fjársjóður en nokkuð sem heimurinn hefur upp á að bjóða. — 1. Tím. 6:19.
8 Hvernig getum við sýnt þakklæti okkar? Við getum aldrei endurgoldið Jehóva það sem hann hefur gert fyrir okkur. Við getum aðeins látið í ljós þakklæti okkar með því að (1) þakka honum á hverjum degi fyrir náð hans (Ef. 5:20), (2) sýna kærleika okkar með því að vera hlýðin (1. Jóh. 5:3), (3) helga nafn hans með því að prédika fagnaðarerindið (Sálm. 83:19) og (4) styðja kristna söfnuðinn með heilshugar samstarfi okkar. — 1. Tím. 3:15.
9 Við höfum fulla ástæðu til að vera sælasta fólkið á jörðinni. (Sálm. 144:15b) Megi viðhorf okkar, hegðun og starf endurspegla gleðina sem við njótum í andlegri paradís okkar. Við höfum aldrei haft það svona gott!